Beint í efni

Sólvængur

Sólvængur
Höfundur
Kenneth Oppel
Útgefandi
Græna húsið
Staður
Garðabær
Ár
2006
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um bókina

Barnabókin Sunwing eftir kanadíska rithöfundinn Kenneth Oppel í íslenskri þýðingu Rúnars Helga. Bókin er sjálfstætt framhald Silfurvængs, sem kom út í þýðingu Rúnars Helga árið 2005.

Rúnar Helgi hlaut Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar 2006 fyrir þýðingu sína á bókinni.

Af kápu

Í stað þess að leggjast í dvala fara Skuggi og Marína vinkona hans í ferðalag um hávetur til þess að leita að föður Skugga. Á leiðinni finna þau dularfulla byggingu og inni í henni risastóran skóg. Þar eru þúsundir leðurblakna sem láta fara vel um sig í notalegu umhverfi því að nóg er af æti og engir óvinir sjáanlegir. Er þetta Paradís? En af hverju hverfa þá sumar leðurblökurnar sporlaust?

Úr Sólvæng

Skuggi leit aftur á straumhart vatnið og áður en hann náði að skipta um skoðun stakk hann sér útí það, skalf þegar það hreif hann með sér og vætti feldinn. Marína stakk sér út í líka og saman geystust þau að mynni ganganna.

Þetta var miklu verra en hannbjóst við. Það var varla hársbreidd af lofti yfir þeim og næstum ógjörningur að ná til þess, nefið skrapaðist við gangaloftið svo þau svolgruðu meira af vatni en lofti í örvæntingu sinni.

,,Þetta gengur ekki, frussaði Marína, ,,snúum við.

En fyrirvaralaust hvarf loftið. Skuggi reyndi að finna yfirborðið, en það var ekkert yfirborð, aðeins vatn. Hann braust um í kafinu, augun voru galopin en sáu ekkert annað en svartar klessur. Var þetta Marína? Hann reyndi að senda út hljóð en þau endurómuðu letilega að stífluðum eyrunum og máluðu óskiljanlega tjörukennda eðju í höfðinu á honum. Vatn streymdi niður í kokið á honum svo hann lokaði munninum.

Hann vissi ekki lengur hvað sneri upp.

Hann var blindur og hafði einungis strauminn til að stýra sér. Hann neyddi sjálfan sig til þess að vera kyrr eitt andartak og bíða þess að vatnið togaði í hann. Þessa leið. Hann var alveg að verða búinn með loftið og gat einungis vonað að straumurinn skilaði honum út fljótlega. Og að Marína væri enn skammt undan.

(59)

Fleira eftir sama höfund

Silfurvængur

Lesa meira