Beint í efni

Silfurvængur

Silfurvængur
Höfundur
Kenneth Oppel
Útgefandi
Græna húsið
Staður
Garðabær
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Um Silfurvæng

Barnabókin Silverwing eftir Kenneth Oppel, í íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Fyrsta bókin í seríu.

Skuggi er ung leðurblaka, stubburinn í nýlendunni. Hann er ákveðinn í að sanna sig á hinu langa og hættulega ferðalagi suður í Vetrarhíði, milljónir vængjaslátta í burtu. Í óveðri hrekst hann út yfir sjóinn, burt frá fjölskyldu og vinum og því lífi sem hann þekkir. Hræddur og einmana tekst hann á hendur makalausa ferð til að hafa upp á nýlendunni ...

Með þessari bók hefur Kenneth Oppel skapað nýstárlega söguhetju sem ferðast á nóttunni og sér bæði með augum og eyrum. En það er freistandi að gægjast aðeins á sólina ...

Úr Silfurvæng

Skuggi og Marína flugu yfir borgina, alveg forviða. Seiðandi ljósið tók á sig endalaus mynstur sem leituðu í allar áttir. Vélarhljóð seytluðu að neðan – málmkennt flaut og núningur og áleitinn sláttur sem virtist hluti af loftinu sjálfu. Eitt órólegt andartak var Skuggi helst á því að þessi manngerðu ljós væru í rauninni stjörnur og að hann flygi á hvolfi.
Hann var örmagna. Þau höfðu ekki étið neitt að ráði síðan þau komu í borgina. Það voru færri skordýr hér og þau sem hann hafði veitt voru vond á bragðið, sótug og skrýtin. Hann vildi bara finna kennileitið, ná áttum og koma sér burt.
Þau flugu yfir svarta höfn og fyrir framan þau á hinni ströndinni var ferkantaður steinturn sem þrýstist hundruð feta upp í himininn. Hann var ekki eins og vitinn. Þessi turn var miklu meira skreyttur, með syllum og útskurði og ótal gluggum, sumum björtum, öðrum dimmum. Á einni hliðinni, ofarlega, var stór hvítur hringur, stærri en tunglið og skærari. Svört merki höfðu verið grafin í hann innanverðan og Skuggi heyrði reglulegt tif undan flatri, kringlóttri framhliðinni. Ofan á turninum var brött spíra, röð af kvistgluggum í hliðunum.
“Er þetta hann?” spurði Marína óþolinmóð.
Skuggi kallaði fram hljóðkort móður sinnar og reyndi að bera saman. Turn, há spíra – þetta virtist passa...
Innan úr turninum barst hljómmikill sláttur svo Skuggi og Marína hrukku í kút. KLING! Og aftur. KLING! Svo þögn.
“Hljóðið á kortinu,” sagði Skuggi spenntur. “Þetta hlýtur að vera rétti staðurinn!”
Þau beygðu í átt að turnspírunni og lentu á tréfjölum sem höfðu verið negldar fyrir kvistglugga. Þar sem Skuggi hékk á hvolfi horfði hann rannsakandi upp á spíruna, virti fyrir sér skarpa skuggamyndina sem bar við næturhimininn.
“Nei,” sagði hann, “það vantar eitthvað.” Og svo laust því niður. “Járnkrossinn. Það er enginn járnkross á turninum. Við erum ekki á réttum stað.”

Fleira eftir sama höfund

Sólvængur

Lesa meira