Beint í efni

Leikarinn

Leikarinn
Höfundur
Sólveig Pálsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar lokaatriðið í kvikmyndinni er tekið upp hnígur aðalstjarnan, einn dáðasti leikari landsins, niður án þess að tökuliðið í kringum hann fái neitt að gert. Lögreglan á flókið starf fyrir höndum.

Úr bókinni

Leikarinn saup á kaffinu og lagði bollann síðan frá sér. Tók Einar Ben upp af borðinu, gekk að glugganum og horfði út.
   - Stopp! hrópaði leikstjórinn og gekk nokkur skref í áttina að Lárusi áður en hann bætti við í lægri tóni: - Lárus, við byrjum aftur frá byrjun. Þetta er nákvæmlega eins og ég vil hafa þetta nema ég ætla að biðja þig að taka þér örlítið lengri tíma í að taka bókina upp af borðinu svo við náum henni betur inn.
   Þrautþjálfaður leikarinn var strax kominn aftur í upphafsstöðu sína. Aðstoðarleikstjórinn endurtók þuluna:
   - Klapp, taka 2.
   Lárus saup á kaffinu, lagði bollann frá sér, tók ljóðabókina upp af borðinu en nú með enn meiri hægð en áður. Því næst gekk hann að glugganum og leit út. Hann virtist fipast aðeins því að í stað þess að virða fyrir sér útsýnið og opna síðan bókina, eins og ráð var fyrir gert, starði hann hreyfingarlaus út um gluggann. Vélarnar suðuðu í þögninni, leikstjórinn hleypti brúnum. Allir biðu í ofvæni eftir einu setningunni í tökunni. „Þel getur snúist við atorð eitt, aðgát skal höfð í nærveru sálar.“ Eftir hana átti skotið að þrengjast að vangasvip Lárusar þar sem hann horfði aftur út í þorpið.
   Loksins leit hann niður á bókina en horfði svo aftur út um gluggann. Nú kemur setningin, örugglega enn flottari en í rennslinu fyrir tökuna, hugsaði Alda. Hún dýrkaði þessa rödd sem hafði hljómað svo oft í eyrum hennar, djúp og hljómmikil, meira að segja þótt hann brýndi ekki raustina. Aldrei neitt of eða van og áherslurnar einhvern veginn alltaf svo hárréttar.
   Þau biðu í algerri þögn og Alda fann spennuna í herberginu magnast. Af hverju byrjaði maðurinn ekki? Hvers vegna fór hann ekki með setninguna sína? Hún horfði stíft á hann. Hann sneri sér hægt við og augnaráð hans flökti eilítið frá einum stað til annars. Eitt andartak mættust augu þeirra. Þá sá hún hana. Angistina. Hann riðaði og horfði á þau hvert af öðru í örvæntingu sinni. Í stað ljóðlínanna fögru heyrðist aðeins rám hrygla, allt að því ómennsk.
   Lárus stífnaði upp. Síðan var eins og hann missti valdið yfir líkama sínum. Þessi glæsilegi maður lyppaðist niður á hnén fyrir augum kvikmyndafólksins sem stóð sem lamað, líkt og þau gerðu sér ekki grein fyrir hvort um alvöru væri að ræða eða leik.
   Úr barka Lárusar heyrðist skerandi, kæft vein. Örvænting, blandin undrun, skein úr dimmbláum augunum. Svo hrundi hann í gólfið. Líkaminn sem áður hafði einkennst af reisn lá nú eins og hrúgald á gólfinu fyrir framan þau. Hann kipptist nokkrum sinnum harkalega til eins og við endurtekin krampaflog sem fjöruðu smám saman út. Svo varð allt kyrrt.
   Blóðlituð froða vall út úr munnvikunum og út á kinnina sem var orðin undarlega gráblá á litinn þrátt fyrir farðann.

(s. 11-13)

 

Fleira eftir sama höfund

Flekklaus

Lesa meira

Hinir réttlátu

Lesa meira

Refurinn

Lesa meira

Fjötrar

Lesa meira

Eiskaltes Gift /

Lesa meira

Tote Wale

Lesa meira

Klettaborgin

Lesa meira
miðillinn

Miðillinn

Á köldum vetrarmorgni er rannsóknarlögreglan kölluð út að Hólavallagarði. Innan um þá sem þar hafa verið lagðir til hinstu hvílu finnst lík eldri konu og fljótt er ljóst að dauðdaga hennar hefur borið að með saknæmum hætti. Hver getur hafa átt eitthvað sökótt við þessa eldri konu sem virðist hafa verið hlédræg, vanaföst og einförul? Þegar rannsókninni miðar áfram er greinilegt að ekki var allt sem sýndist í lífi konunnar og Guðgeir Fransson og teymi hans eiga fullt í fangi með að leysa þetta dularfulla mál sem meðal annars leiðir þau á miðilsfundi og djúpt í þyrnum stráða fortíð fórnarlambsins.. .  
Lesa meira