Beint í efni

Draumrof

Draumrof
Höfundur
Úlfar Þormóðsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Skáldsögur

Um Draumrof

Miðaldra maður uppgötvar að vinur hans frá fyrri tíð hefur skrifað bók þar sem hann notar atvik úr lífi mannsins og gerir þau að sínum.

Hann ákveður að brjótast inn í tölvu rithöfundarins og upplýsa lesandann um hvað hann finnur þar. Samhliða því segir maðurinn sögu sína og konu sinnar af mikilli einlægni – sögu um velgengni og fall, óbærilegar harm og djúpstæða sátt.

Úr Draumrofum

Þessi dæmisaga, eða hvað sem þessu er ætlað að vera, hafði samstundis þau áhrif á mig að samhengislausi tætingurinn, sem tók huga minn í lögreglubílnum, raðaðist í samfellda frásögn.

Það var hlýr sumardagur, sólarglærur annað slagið og sunnanvindur eins og í ástarsögu. Konan var í bankanum en ég á vinnustofu, sem þá var í kjallara við Bergstaðastræti Ég var að semja lesandabréf fyrir Viðskiptaráð. Það var ætlað til birtingar í dagblöðum og átti að fjalla um ágæti þess að verða sér úti um skattaafslátt með því að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Í bréfinu var ég sjómaður að vestan sem hafði ekki aðeins lækkað skattana verulega með þessum hætti, heldur aukið eigur mínar umtalsvert og tryggt mér áhyggjulaust ævikvöld. Þó svo að þetta væri ágætlega borgað gekk mér ekki vel með þetta, fann ekki ástríðuna og mig rak í vörðumar hvað eftir annað. Þar kom að ég ákvað að fresta þessu og fór út í sumarið.

Ég var utan við mig, anaði yfir götuna og beint fyrir bíl. Hann snarbremsaði, stoppaði með stuðarann við legginn á mér, flautaði mig inn í samtímann með skerandi ofsa og bílstjórinn vatt niður rúðuna og jós yfir mig óbótaskömmum. Allt á sama andartaki fannst mér. Ég gekk í fáti aftur á bak upp á stéttina á meðan maðurinn lauk sér af.

Þá gerðist þetta:

Ég skynjaði návist konu sem var á hægri göngu handan götunnar. Ég fann fyrir henni en ég sá hana ekki greinilega. Samt vissi ég að hún kímdi. Í sama mund og ökumaðurinn tæmdi sitt ókvæðisorðasafn og rykkti af stað með steyttan hnefa út um bílgluggann, hvarf konan inn í hliðargötu.

Ég hafði orðið fyrir töfrum, var fullur af tilvist þessarar konu, bergnuminn. Og án þess að taka ákvörðun um það, hélt ég á eftir henni, fór í humátt fyrst en var farinn að hlaupa við fót þegar ég skynjaði návist hennar á nýjan leik. Það var áður en ég sá hana. Svo kom ég auga á hana; smávaxna konu sem fór á valhoppi í mannmergð sumardagsins. Samstundis hugkvæmdist mér að skálma yfir götuna, taka fram úr henni og snúa til baka á sömu stétt og hún fór eftir og ganga til móts við hana.

Ég lét verða af því og seiðurinn hvarf þegar ég mætti henni.

Andlitið var rammað inn í skollitt hár, stuttklippt. Ásjónan skæld; augun sátu mishátt, nefið lagðist út í annan vangann og munnurinn skakkur. Hún var ófríð þótti mér; hálsstutt, virkaði mittislaus og mjaðmabreið með digra kálfa. Hvernig ætli kýrnar séu, fyrst kálfarnir eru svona? kvað þingeyskur ljóðasmiður innan í mér þegar ég hafði kastað augum á hana, nam staðar og sneri mér undan í sama mund og hún gekk framhjá mér.

Þá tók ég eftir vörunum. Þær voru þrýstnar og rakar. Sólin speglaði sig í þeim. Það var laglegt. Og svo fann ég lykt, mannaþef.

Þá gerðist það aftur.

Ég heillaðist og fékk ekki við mig ráðið, gekk hana uppi, ávarpaði hana af yfirveguðu kæruleysi, sagði: „Fröken“, en komst ekki lengra með kveðjuna því að hún sneri sér við í sporinu og staðhæfði með töfrandi raddblæ:

„Frú!“ Svo brosti hún ertandi, rétti úr sér og reigði sig; hálsinn lengdist og andlit hennar færðist í allt aðrar skorður en það var í við fyrsta tillit, varð hrífandi.

„Gæti hugsað mér að bjóða þér í kaffi eða eitthvað,“ sagði ég af sama kæruleysi og áður, að viðbættum sölumannsbrosvotti.

„Ég er ekki hissa á því,“ svaraði hún án þess að bregða svip.

Og það varð úr.

(33-5)

Fleira eftir sama höfund

Sódóma - Gómorra

Lesa meira

Sambönd: eða blómið sem grær yfir dauðann

Lesa meira

Ákæran: Sóknarnefndin gegn Séra Páli

Lesa meira

Þrjár sólir svartar

Lesa meira

Syngjandi fiskur

Lesa meira

Á fullu tungli

Lesa meira

Hrapandi jörð: Skáldsaga um Tyrkjaránið

Lesa meira

Rauð mold: Skáldsaga um Íslendinga í Barbaríu

Lesa meira

Hallgrímur: Skáldsaga um ævi Hallgríms Péturssonar

Lesa meira