Beint í efni

Dáin heimsveldi

Dáin heimsveldi
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í þessari skáldsögu fer Steinar Bragi með lesendur til upphafs 22. aldar þegar ríkasti hluti mannkyns hefur flúið óbyggilega Jörð og komið sér fyrir í geimnum. Þangað fer Emil, lítt þekktur textamaður af íslenskum ættum, til að kynna sér dularfullan hlut sem birst hefur á himni. Síðasta skáldsaga Steinars, Truflunin, var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Úr bókinni

Nokkur kát ungmenni, börn Prósentsins, voru með hávaða við enda barsins, ég giskaði á að þau færu út á neðra hvolfi. Það var partýsvæðið, enda settist sólin og kom upp á hálftíma fresti, og þar var viðvarandi þyngdarleysi. Fólk klemmdi á sig segulskó eða lærði að fljúga. Heimavistir elítuskólanna voru þar, svo foreldrarnir í gjörðunum á efri baug gætu losað sig við afkvæmin. Sum þeirra höfðu aldrei stigið fæti á jörðina, eftir að það þótti hallærislegt. Sögur voru sagðar af amerískum frat-partýum þar sem spjótum var varpað út um glugga skemmtistaða, myndavél í broddi spjótsins til að sjá hvort það færi niður um þak á húsi einhvers vinnumaursins. Ef vinkillinn var réttur þá brann spjótið ekki upp í andrúmsloftinu heldur hitnaði bara. Ein sagan var af spjóti sem rann í gegnum farþegaflugvél, önnur af spjóti sem klauf höfuð og búk manns á göngu, og vegna hitans frá spjótinu stjaksetti það hann ekki aðeins heldur bráðnaði hann og lak niður á jörðina. Það var mjúk leið til að deyja.
   En efra hvolf byggðist á undan, af því að lyfturnar gerðu það kleift og svæðið var hernaðarlega mikilvægara. Stórveldin gerðu út hermenn til að byggja gjarðir, reisa byggingar og drauma. Efri baugur var nýja framlína mannkyns og eftir stríðið var fólk hungrað í útópískar hugsjónir, þótt útkoman hefði að sjálfsögðu verið sú að það fékk enga hlutdeild í þeim. Samt voru seldir miðar á netinu svo vesalingarnir á jörðinni gætu fengið aðgang fyrir örvurnar sínar - til að sitja á börum á efra eða neðra hvolfi, bjóða ástinni sinni á tónleika, eða bara göngutúr í nýju borgunum. Ég hafði heyrt af viðburðum á efra hvolfi þar sem tuttugu manns voru inni á bar en hundruð þúsunda með aðgang gegnum netið.
   Með tímanum, þegar fátæktin á jörðinni jókst og miðaverðið lækkað, þótti þetta of nærgöngult fyrir íbúa efra hvolfs og var fært niður á neðra. Fimmtíu sæta tónleikastaðir seldu hálfa milljón miða á fimm mínútum ef söngkonan sem kom fram var vinsæl. Þess vegna settist frægara fólkið að á neðri baug og ryksugaði til sín peninga frá jörðinni þar til þau komust alla leið upp á efri. Sem hentaði ríka, andlausa þjófahyskinu vel - með tímanum varð felustaðurinn þeirra vel skreyttur af fólki sem múgurinn niðri á jörðinni var hrifinn af, elskaði og langaði að líkjast.
   Að klifra, ná lengra og hærra, á toppinn!

(s. 74-76)

Fleira eftir sama höfund

Hálendið

Lesa meira

Kobiety

Lesa meira

Ljóð í Ny islandsk poesi

Lesa meira

Turninn

Lesa meira

Áhyggjudúkkur

Lesa meira

Ljóð í Ljóð ungra skálda

Lesa meira