Beint í efni

Dúnstúlkan í þokunni

Dúnstúlkan í þokunni
Höfundur
Bjarni Bjarnason
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Drauma-Jói fæddist um miðja 19. öld norður á Langanesi og var af galdramönnum kominn í beinan karllegg. "Árum saman, sérstaklega á milli tvítugs og þrítugs, bjó hann yfir mikilli fjarskyggnigáfu", sagði dr. Ágúst H. Bjarnason um hann í vísindagrein árið 1915. Í þessari sögulegu skáldsögu er byggt á sögum af þessum manni og örlögum hans, en hann þurfti sífellt að berjst fyrir tilvist sinni.

Úr bókinni

   Fyrir róður ár hvert dreymdi Jón að hann gengi með ströndu fram á sjórekið lík í flæðarmálinu. Þótti honum sem það væri fyrir því að hann yrði sjódauður. Hann hafði tjáð konu sinni drauminn margoft og hún bað hann ítrekað um að kunngera presti og fá að sinna störfum í landi. En hann minnti á að hann hefði fylgt ráði hennar um árið og fengið að vera í landi, en síðan farið margan túrinn áfallalaust. Þá bað hún hann að segja sig krankan, en taldi að það stoðaði ekki, næg væru bústörfin. Hann gæti ekki setið heima með hendur í skauti um hábjargræðistímann, bara til að fara svo seint og um síðir á sjó. Hjá róðri yrði ekki komist. Þau þráttuðu fram og aftur, yfir hausamótunum á Jóa litla, sem ýmist taldi sjóför góða hugmynd eða ekki. Þegar faðir hans loks tók sig til og dró á sig sjóklæðin, fór hann í fússi. Kveðjurnar voru kaldar á báða bóga og ekki leit hann til Jóa. Það síðasta sem strákurinn mundi var að mamma kallaði á eftir honum, þar sem hún bograði við að moka flórinn, að hann gæti þá allt eins farið til helvítis.
   Ekki skilaði báturinn sér í land það kvöld. Menn fóru þó ekki að leita þeirra, töldu þá hafa leitað vars úti í Skoruvík, eins og oft þegar ókyrrt var í sjó, og þeir myndu skila sér daginn eftir. Um nóttina dreymdi móður Jóa að maður hennar kæmi til hennar sjóvotur og ófrýnilegur að sjá og kveddi með þang krækt milli tannanna:

          Kroppur liggur kaldur í hlé
          kann ei lengur svamla.
          En hvar heldurðu að sálin sé
          seimanornin gamla?

Varð henni mikið um og taldi víst að hann hefði farist, sem síðar kom á daginn. Upp frá þessu hafði hún ekki heila sansa.
   Minningarorð prestsins um Jón Mikaelsson voru svo dýrðleg og upphafin að Jói litli taldi víst að hann talaði um einhvern annan en föður sinn í helvíti.

(s. 18-20)

 

 

Fleira eftir sama höfund

Mannætukonan og maður hennar

Lesa meira

The Return of the Divine Mary

Lesa meira

Örninn

Lesa meira

Sólarlag við sjávarrönd

Lesa meira

Nakti vonbiðillinn

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Borgin bak við orðin

Lesa meira

Smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Læknishúsið

Lesa meira