Beint í efni

Þroskaljóðsaga og minnisljóðabók

Þroskaljóðsaga og minnisljóðabók
Höfundur
Þorvaldur S. Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Ljósmyndin framan á nýjustu ljóðabók Þorvalds Sigurbjörns Helgasonar, Manndómur, grípur augað. Lítill drengur þriggja-fjögurra ára stendur dálítið kiðfættur fyrir framan gráan steinvegg eins og þeir eru svo margir í gamla Vesturbænum og í Norðurmýrinni. Drengurinn er með derhúfu á höfði og í stórum stuttbuxum sem haldið er uppi af axlaböndum með óræðum skrípamyndum. Pilturinn er frekar alvarlegur á svip, hann heldur á silfurlituðum leikfangabyssum og lyftir upp annarri öxlinni svo að axlaböndin detti ekki niður. Ég kannast við þennan svip. Hann sýnir að drengurinn er dálítið skeptískur svona eins og börn á þessum aldri geta verið, þegar þau eru að uppgötva þann gríðarstóra heim sem umlykur þau. Eða kannski að svipurinn sýni að hann er upptekinn við ímyndaðan leik og að myndatakan trufli leikinn. Fatnaðurinn sem pilturinn klæðist og gljáandi áferð ljósmyndarinnar gefa til kynna að hún sé tekin um miðjan tíunda áratuginn. Að minnsta kosti minnir hún á þær myndir sem eru til af sjálfri mér og systkinum mínum frá þessum tíma, og finna má í myndalbúmum foreldra minna. Við – ég, systkini mín og skáldið – erum börn íslenska næntísins.

Ljósmyndin á kápunni fylgir lesandanum inní lestur ljóðabókarinnar og gefur vísbendingu um hvert hugsanlegt viðfangsefni hennar er. Hér skrifar höfundur um sjálfan sig og um uppvöxt sinn. Ljóðin draga því fram myndir af æskuminningum eins og þetta brot úr fyrsta ljóðinu „Spádómur“ sýnir glögglega:

mánudagskvöld á Skeggjagötu
járntjaldið er fallið en turnarnir standa enn

Þriggja ára drengur
klæddur í blá geimfaranáttföt
starir í forstofuspegilinn
setur í brýnnar og bendir á spegilmyndina sína  

Spegillinn í upphafsljóði verksins miðlar því hvernig ljóðin spegla ævi höfundar og dregur fram sjálfsævisögulega þræði verksins. Ef til vill er réttara að tala um þroskaferil frekar en ævi því ljósmyndin framan á ljóðabókinni kallast á við ljósmyndina sem virða má fyrir sér á baksíðu verksins. Hér er höfundur nokkuð eldri en á fyrri myndinni, jafnvel orðinn fullorðinn, að minnsta kosti blasir við ungur maður með gleraugu og skegg. Hann virðist standa á sama stað og ungi drengurinn á fyrri myndinni, fyrir framan ónefndan steinvegg sem er líklega staðsettur í Vesturbænum eða Norðurmýri. Hann er léttklæddur eins og litli drengurinn, í bleikum stuttbuxum og skræpóttri skyrtu með mynstri eftir bandaríska myndlistarmanninn Keith Haring. Maðurinn á myndinni er með aðra höndina í vasanum og lítur alvarlegum augum, dálítið þungbrýndur, í myndavélina. Þegar þessar myndir eru skoðaðar saman vaknar sú hugmynd að Manndómur sé þroskasaga drengsins/mannsins á myndunum og lýsi leið hans frá unga aldri og til vitundarvakningar, fjalli um mótun sjálfsmyndar og vitundar, svona eins og þroskasögur gera gjarnan.

Þennan þroskaferil má greina í þremur ljóðum sem kallast á og finna má í fyrsta hluta verksins sem ber titilinn „vaxtaverkir.“ Hér er ævi mannsins líkt við daga vikunnar; þar sem sunnudagurinn táknar rósemd og hlýju barnæskunnar, mánudagurinn blákaldan hversdag táningsára og föstudagurinn þá spennu og eftirvæntingu sem einkennir fyrstu árin eftir tvítugt.  Í „sunnudögum lífs míns“ er ljóðmælandi þriggja ára og heimurinn bragðast „eins og matarkex.“ Móðir hans keyrir hann um í vagni og undir rúminu búa skrímsli. „mánudagur lífs míns“ lýsir upphafi unglingsárana. Hér er ljóðmælandi þrettán ára og borðar tekex, sem er jú mun þurrara og bragðlausara en matarkex æskunnar, horfir á popptíví og kaupir sér pulsutilboð í sjoppunni.  Í „föstudagur lífs míns“ er lífið orðið að súkkulaðikexi og heimurinn töluvert meira spennandi en við táningsaldurinn. Ljóðmælandi ölvar sig af „víni og skáldskap og hroka“, sendir sætum stelpum skilaboð, liggur andvaka og eirðarlaus. Það er eitthvað heillandi við þessa líkingu vikudaga og mannsævi, ef til vill því hvort tveggja er af samannlegum meiði; manneskjur lifa ólík æviskeið og flestir íbúar vestræns heims styðjast við vikudagana til að hólfa lífið niður.

Ljóðabókin Manndómur er því fyrst og fremst þroskasaga, sem er óþrjótandi grein í menningunni og má finna í formi skáldsögunnar en einnig í kvikmyndum og jafnvel myndlist.  Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að mörg helstu verk bókmenntahefðarinnar eru þroskasögur eins og bildungsromanar Goethe og Stendhal, jafnvel Játningar Rousseaus (sem nýverið komu út í þýðingu Pétur Gunnarssonar) en einnig skáldsögur eins og Hroki og Hleypidómar Jane Austen, Glæstar vonir Charles Dickens og Bjargvætturinn í grasinu eftir J. D. Salinger. Af einhverjum ástæðum dettur mér helst í hug Forrest Gump þegar ég hugsa um þroskasögu í kvikmyndaformi en hún sameinar vel hvernig þroskasagan er öðrum þræði persónuleg saga sem lýsir þeirri sammannlegu reynslu að þroskast úr barni í unga manneskju, en er einnig aldafarspegill. Þetta á að vissu leyti við um Manndóm, eins og lýsingin á ljósmyndinni í upphafi gaf til kynna, og því geta lesendur sem eru nálægir skáldinu í aldri, trúlega rifjað upp ýmislegt frá þessum tíma þegar þau lesa verkið.

Eins og á við um verk sem daðra við sjálfsævisöguformið er hér einnig til umræðu fjölskyldan og tengsl ljóðmælanda við aðra fjölskyldumeðlimi. Í „kjötmamma“ yrkir ljóðmælandi um móður sína sem er sterk í erfiðum og dálítið ógnvekjandi aðstæðum, en sambandið við föðurinn einkennist af togstreitu í ljóðinu „þegar pabbi gengur inn í herbergi“. Í ljóðinu „systir mín liljurós“ segir ljóðmælandi að systirin búi í álfakletti, sem í samhengi ljóðsins virðist vísa í einhverskonar tragískar aðstæður.

Þroskasagan vefur þannig saman sögulegu umhverfi og persónulegu rými sögupersónunnar, frásagnir sem bundnar eru heimilinu. Þá kjarnast frásögnin um miðlæga atburði í lífi söguhetjunnar eins og fyrstu ástina, sorgina eða áfallið, sem setja mark sitt á þroskaferilinn, manneskjuna og sögu hennar. Annar hluti verksins „brjóstsviði (fyrir Mars)“ fjallar um ástarsamband sem ekki gekk upp en í þriðja hluta verksins „manndómur“ reynir ljóðmælandi að ná sátt og að læra að lifa með sjálfum sér þrátt fyrir að ljóð sem kallist „sjö skref sjálfhaturs“ beri það kannski ekki alveg með sér. Síðasti hluti verksins „Í garðinum“ er stuttur ljóðabálkur og dálítið óræður. Er ljóðmælandi að nálgast dauðann og kominn í kirkjugarðinn? Hann lítur yfir farinn veg og á lífsreynslu sem breyst hefur í minningar:

æskan breytist í ljósmyndir
ljósmyndir í minningar
minningar í bergmál
ljósrit af ljósriti

Að þessu leyti mætti greina Manndóm sem minnisljóðabók frekar en hefðbundna sjálfsæviljóðsögu en síðasta ljóðið gefur til kynna hvernig minnið er helsta viðfangsefni skáldsins og í bakgrunni flestra ljóðanna. Þá gefur verk Þorvaldar áhugavert og djúpt sjónarhorn á karlmennsku, eða á myndun „manndómsins“ ölluheldur, en það viðfangsefni virðist vera mörgum karlkynsskáldum hugleikið um þessar mundir. Í hugann koma bækur eins og Menn sem elska menn (2021) eftir Hauk Ingvarsson en Bubbi Morthens hefur einnig fjallað um það í sínum ljóðabókum hvernig karlmennskuhugmyndir hafi þvælst fyrir honum sem ungum manni. Ljóðmælandi í Manndómi segir til dæmis:

Fyrsta skrefið er að greina sig frá
ekki borða bleika prinsessuköku
aldrei vera með í mömmó
þegar þær reyna að tala við þig, hlauptu þá í burtu
í aðgreiningunni felst skilgreiningin

Þessar upphafslínur úr „sjö skref manndómsins“ lýsa því hvernig lítill drengur neitar sér um ýmislegt skemmtilegt til að aðlaga sig að því hlutverki sem hæfir hans kyni. Þær kallast ennfremur á við línur úr fyrrnefndu sjálfhatursljóði þar sem ljóðmælandi uppgötvar að hann er ekki einstakur; „draumar þínir aðeins hjóm / eða afrek betri manna / leyfðu þeim að deyja.“ Kannski manndómurinn felist í því að rífa sig upp úr þessum pælingum, teygja á skilgreiningum samfélagsins á kynjahlutverkum og elta sinn innri hljóm? Manndómur er metnaðarfullt og sterkt verk, en á tíðum dálítið beiskt og þungt í viðjum.
 

Vera Knútsdóttir, desember 2022