Beint í efni

Votlendi

Votlendi
Höfundur
Charlotte Roche
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

En bókin fjallar bara um einmanaleika, sagði frænka mín þegar ég hringdi í hana. Ég var nokkuð áhyggjufull, því ég hafði nýlega sent henni skáldsöguna Votlendi, eftir þýsku skáldkonuna Charlotte Roche, en hafði láðst að athuga um hvað bleika bókin með avókadómyndinni á kápunni fjallaði. Frænka mín er rúmlega áttræð. Henni fannst þetta nú ekki mikið mál og var mest hissa á því hvað fólk gæti verið að hnussa og hneykslast á þessu. Stúlkan þráir bara væntumþykju og ást og gerir því það sem hún gerir til að einhver láti sér annt um hana, sagði hún, af hverju getur fólk ekki skilið að það er bara þetta sem sagan fjallar um?

Þegar þarna var komið sögu hafði ég ekki sjálf lesið skáldsöguna sem um ræðir. Kannski höfðu orð frænku minnar svona mikil áhrif á mig, en þegar ég las Votlendi gat ég ekki annað en verið henni hjartanlega sammála; sagan fjallar um einmanaleika og þörf fyrir ástúð og nánd við aðra. Vissulega er þetta búið í nokkuð sérstæðan búning, en sagan gerist á sjúkrahúsi þar sem sögukonan Helen liggur vegna aðgerðar á endaþarmi, en hún hafði óvart skorið sig við rakstur. Stúlkan er nýorðin átján ára og þráir ekkert heitara en að foreldrar hennar taki saman aftur, en þau hafa verið skilin alllengi. Hún gerir því hvað hún getur til að láta þau hittast þegar þau heimsækja hana á spítalann og lítur á dvölina þar sem kjörið tækifæri til að þau nái saman á ný. Jafnframt kemur fram að hún vonast eftir aukinni umhyggju þeirra vegna veikinda sinna, en það er nokkuð ljóst að sambandið við foreldrana er ekki mjög náið.

Samband Helen við líkama sinn er hinsvegar afar náið, en hún er mjög upptekin af líkama sínum og líkamsstarfssemi, með nokkurri áherslu á kynlíf og vessa þeim tengdum. Vessar líkamans leika því nokkuð lykilhlutverk í sögunni, en stúlkan er alfarið á móti þeirri ofuráherslu sem samfélagið leggur á hreinlæti og gerir í því að ganga gegn slíkum siðum. Þetta kemur meðal annars fram í því að hún innbyrðir samviskusamlega þá vessa sem út af líkama hennar ganga (þó ekki úrgang (sem betur fer)), borðar hor og gröft úr bólum auk þess að smakka á tíðablóði og píkusafa. Jafnframt þessu hefur hún þörf fyrir að dreifa líkamsvessum sínum sem víðast, en í því birtist einmitt greinilega þörfin fyrir nánd við aðra. Þetta kemur til dæmis fram í því þegar hún sýpur af vatnsflösku en kyngir ekki heldur skilar sopunum aftur í flöskuna og býður svo hjúkrunar-sjálfboðaliða vatnsglas. Þegar konan drekkur vatnið finnst Helen eins og þær séu að kyssast: „Mér finnst ég [...] tengjast henni nánum böndum og brosi mínu breiðasta til hennar.” (170)

Með tilliti til andúðar stúlkunnar á sterílum líkömum virðist raksturinn því skjóta skökku við, en ein af afsökununum sem gefin er fyrir háreyðingaræði því sem nú hefur geysað um nokkuð skeið er einmitt hreinlæti; að líkamshár auki á óhreinlæti. Skýringin á því að Helen er upptekin af rakstri líkamshára hefur þó ekkert með það að gera, eins og kemur í ljós, heldur er raksturinn lykilatriði í kynferðislegu sambandi hennar við einn ástmanninn. Raksturinn er því fyrst og fremst spurning um kynferðislega ánægju sem getur ekki annað en vakið upp athyglisverðar spurningar um raunverulegar ástæður háreyðingaræðisins almennt.

Kynlíf er Helen afar mikilvægt og hún hugsar mikið um það, fróar sér reglulega og veltir fyrir sér hverju smáatriði. Þetta virðist fara nokkuð fyrir brjóstið á lesendum og er líklegasta ástæðan fyrir því að bókinni hefur verið hafnað sem klámi. Ekki veit ég hvað ég hef lesið margar bækur um stráka og karlmenn sem ganga að miklu leyti út á kynferðislega þráhyggju þeirra, kynlífsdrauma, sjálfsfróanir og aðrar vangaveltur tengdar karlmannlegum líkamsvessum. Fæstar þeirra hafa þó verið álitnar hafa mikið með klám að gera, heldur þykja eðlilegar umfjallanir um karlmennsku, en eðlileikinn byggir meðal annars á því að karlmenn hugsi mikið um kynlíf og að það sé allt mjög eðlilegt. (Um hvað halda þeir að konur hugsi? Bleyjuskiptingar? Hannyrðir?) Það er því afar hressilegt og í raun heilbrigt að lesa bók sem fjallar um hlið konunnar í þessum ‘eðlileika’ öllum, en á hinn bóginn nokkuð forvitnilegt að sagan skuli hafa vakið eins hörð viðbrögð og raun ber vitni.

Samkvæmt kenningu franska sálgreinandans og bókmenntafræðingsins Juliu Kristevu óttumst við fátt meira en eigin líkama og líkamleika. Við gerum allt sem við getum til að fela þennan líkamleika, með tilheyrandi ofuráherslu á hreinlæti sem eyðir öllum ummerkjum um líkamsvessa og lykt. Sjálfsmynd okkar er hreinlega búin til úr þessu, þessum stöðugu átökum við líkamann og óttanum við allt það sem þrýstir sér leið út úr honum. Sjálfsveran er þar með sködduð frá upphafi, mótuð af ótta og fælni, klofin og sundruð. Það er óneitanlega áhugavert að lesa sögu Roche út frá þessum kenningum Kristevu, því öfugt við þær notar Helen líkama sinn og líkamleika til að ná tengslum við aðra, í stað ótta þá hefur hún ást á öllu því sem tilheyrir líkamanum og sér í framburði hans möguleika til tengsla við umhverfi sitt og annað fólk. Því mætti halda fram að Helen sé dæmi um sérlega heilbrigðan einstakling, en þó einmana, enda ljóst að háttalag hennar fellur ekki sérlega vel að hugmyndum annarra (skaddaðra).

Hinsvegar er ljóst að þrátt fyrir þetta meinta heilbrigði er Helen sködduð ung kona. Þetta kemur meðal annars fram í því að tengsl hennar við veruleikann eru ekki alltaf á hreinu, eins og hugmyndir hennar um að foreldrarnir nái saman á magískan hátt yfir sjúkrabeði dótturinnar er gott dæmi um. Þetta bætir enn flottri vídd í kraftmikla og skemmtilega sögu, sem þrátt fyrir að virðast léttvæg kallar á margar og áhugaverðar hugleiðingar.

Að vanda enda ég á að geta þýðanda, en Bjarni Jónsson skilar textanum frá sér á afar skilvirkan hátt, og tekst að finna viðeigandi tungutak fyrir alla líkamsstarfssemina, en það er ekki einfalt í þeim heimi sem einkennist af ótta við líkamann að finna orð sem lýsa ekki ógeði eða fordómum. Í meðförum Bjarna skilar sér einnig vel sá lúmski húmor sem liggur í gegnum alla söguna og skapar mikilvægt mótvægi við þá skerandi einsemd sem er henni undirliggjandi.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010