Beint í efni

Við erum ekki morðingjar

Við erum ekki morðingjar
Höfundur
Dagur Hjartarson
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Ár er liðið frá því að bókin sem rústaði lífi hennar kom út. Ár síðan samband hennar og Benna rofnaði endanlega og allt samfélagið lagðist gegn henni. Núna hefur hún eina nótt til að segja einu manneskjunni á Íslandi sem ekki veit hvað gerðist hennar hlið á sögunni og fá endanlegan dóm á það hvort hún sé sek.

Í nýjustu skáldsögunni sinni, Við erum ekki morðingjar, kafar Dagur Hjartarson ofan í hyldýpi ástarinnar og kannar eyðingarmátt ofbeldis og listar. Bókin segir frá ungri konu (nafn hennar kemur ekki fram) sem skrifaði bók sem setti líf hennar og ástvina hennar á hliðina. Eftir að hafa lokað sig af og brynjað sig fyrir sársaukanum — bæði þeim sem hún olli og varð fyrir — fær hún óvænt tækifæri til að horfast aftur í augu við fortíðina og kryfja það sem átti sér stað. Þegar hún kemur heim á Vatnsstíginn um miðnætti í upphafi sögunnar er Tómas meðleigjandi hennar í miklu uppnámi að vaska upp. Hann hefur fengið þær óvæntu fréttir að pabbi hans, sem býr í Noregi, er við dauðans dyr. Tómas er búinn að bóka flug sem fer strax um morguninn en er í of miklu uppnámi til að sofa. Þrátt fyrir að þekkjast lítið sem ekkert biðlar hann til hennar að vaka með sér og tala um eitthvað, hvað sem er, til að draga athygli hans frá því að pabbi hans er að deyja. Það er nánast of mikil tilviljun að það sé akkúrat ár liðið frá útgáfu bókarinnar, svo hún endar með að opna sig í fyrsta skipti um hvað gerðist í raun og veru.

Þegar ég klára söguna vil ég að þú segir mér í hreinskilni hvað þér finnst.

Hvað mér finnst um bókina þína?

Nei, hvað þér finnst um mig.

Viltu að ég dæmi þig? spurði Tómas.

Já. Ég vil að þú segir mér hvort ég sé góð eða slæm manneskja.

Tómas hugsaði sig um. Andlitið varð aftur að kyrru vatni. Hann var að jafna sig á uppnáminu. Það er sanngjarnt, sagði hann loks. Þú verður sakborningurinn og ég verð dómarinn.

Ókei, sagði ég. En ég verð þá að byrja á byrjunni. (20-21)

Verkið er rammafrásögn þar sem stokkið er á milli spjallsins í eldhúsinu á Vatnsstíg og endursagna hennar, þar sem hún greinir frá erfiðri æsku sinni, brothættri sjálfsmynd og hvernig samband hennar og Benna — eina mannsins sem hún hefur elskað — hófst og endaði. Líkt og í Síðustu ástarjátningunni (2016) — síðustu skáldsögu Dags, en hann hefur einnig gefið frá sér ljóð og smásögur ásamt því að vera þekktur fyrir að vera mjög fyndinn á Twitter — er ástin nístandi falleg og sársaukafull. Að elska manneskju í bók Dags er “að vera tilbúinn að niðurlægja sig fyrir framan hana” (86) en ástin sjálf er oftast utan seilingar fyrir persónur verksins. Í hennar stað eru útskúfun, ofbeldi og fordæming, en þegar ástin finnst loks brennur hún heitt og fegurð hennar er óneitanleg. Aðalpersónan segir frá því hvernig hún leitaði væntumþykju frá því hún var barn og hvernig hún tilheyrði hvergi fyrr en hún kynntist Benna. Þau náðu saman í gegnum bókmenntir og listir og Benni, sem er þekktur rithöfundur, hjálpar henni að uppgötva sjálfa sig í gegnum skrif. Lýsingarnar af sambandinu eru þó einstaklega ljúfsárar því ljóst er frá upphafi að sambandið endaði með ósköpum eftir útgáfur bókarinnar.

Hvað varðar uppbygingu verksins, þá hef ég hef alltaf verið veikur fyrir rammafrásögnum og finnst þær sérstaklega ánægjulegar í fagurbókmenntum. Þrátt fyrir að saga hafi listrænt gildi og eitthvað merkingarþrungið til málanna að leggja þýðir það ekki að lesturinn megi ekki vera skemmtilegur og verkið megi ekki vera byggt í kringum afhjúpun ófyrirsjáanlegrar fléttu. Dagur býður upp á frásagnarleik sem er frábær blanda afþreyingu og listar og sýnir þar með færni sína sem rithöfundur. Hann kyndir undir forvitni lesandans á mjög bersýnilegan hátt — hvað var svona hræðilegt við bókina? hvernig endaði samband hennar og Benna? hvers vegna eru ókunnugir að áreita hana fyrir skrif hennar heilu ári seinna? — og notar trúnóið á Vatnsstígnum til að réttlæta hversu augljós hann er í að skapa eftirvæntingu á köflum.

Já, sagði ég. Stuttu áður en ég fór til Stokkseyrar — stuttu áður en allt fór til fjandans — þá gekk ég á Benna með þetta. Engar áhyggjur, sagði ég þegar ég sá svipinn á Tómasi, ég ætla ekki að spilla fyrir þér endinum. En þegar ég segi þér hvernig þetta endaði, þá muntu skilja betur hvað Benna gekk til með þessum slúðursögum. (84)

Tómas er í hlutverki lesandans í leiknum og fær að skjóta inn spurningum sem brenna á vörum okkar við lesturinn og bregðast við frásögninni af lífi hennar. Hann spyr hana út í móður hennar, sem var varla til staðar nema til að gera henni lífið leitt, og veitir henni samúð þegar hún lýsir eyðandi áhrifunum sem andlegt og líkamlegt ofbeldi hafði á sjálfstraust hennar. Tómas ýtir líka enn frekar undir sagnaleik Dags með því að draga athyglina að fyrirboðum og vísbendingum sem hún gefur um hvernig sagan endar. En eftir því sem líður á söguna kemur smám saman í ljós að Tómas langt frá því að vera einungis frásagnartæki þar sem fortíð hans er grípandi og mikilvægur hluti verksins sem dýpkar persónu hans og setur samband hans og aðalpersónunnar í nýtt samhengi.

Við erum ekki morðingjar er tvímælalaust besta verk Dags sem ég hef lesið. Það er fátt notalegra en að hlusta á góðan sögukonu segja grípandi sögu síðla kvölds og það er einmitt sú stemmning sem Dagur nær að fanga. Ég naut þess að sitja við eldhúsborðið á Vatnsstígnum og hlusta á hana segja okkur Tómasi frá ævi sinni, sorgum, ást og syndum. Ég hafði líka gaman af frásagnarleikjunum og sögusagnareiginleikunum þar sem verkið sjálft var einskonar endursögn á bókinni sem setti líf aðalpersónunnar úr skorðum. Við erum ekki morðingjar er listilega vel skrifuð og nær snilldarlega að sameina spennu og list þannig að allir ættu að hafa ánægju af.


Már Másson Maack, desember 2019