Beint í efni

Vetrarbraut

Vetrarbraut
Höfundur
Njörður P. Njarðvík
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Í inngangi að bók sinni Vetrarbraut sér höfundurinn Kjell Espmark fyrir sér að augnablik sögunnar glitri eins stjörnur á vetrarbraut tímans. Þetta er dálítið falleg hugmynd, að varpa mannkynssögunni út í alheiminn og sjá hina fjölmörgu atburði hennar, minningar og einstaklinga eins og stjörnuryk sem svífur um og er hægt að grípa, fanga í ljóð.

Bókin fylgir þessu svo samviskusamlega, því Vetrarbraut geymir ljóð sem rekja sig í gegnum tímann og eru sögð með ólíkum röddum ólíkra fulltrúa tímabila og atburða. Sem slík má segja að bókin sé einskonar mannkynssaga í ljóðum, ferð um söguna og heiminn á hundrað síðum eða svo.

Reyndar hefði ég gjarnan viljað fá glósur aftast, því á stundum fylgja ljóðunum neðanmálsgreinar sem skýra tilvísanirnar, en yfirleitt er svo ekki. Að mínu mati hefði mátt sleppa neðanmálsgreinunum og hafa einfaldlega lista aftast yfir sögulegar tilvísanir. Það gerir ljóðin óþarflega torræð að lesandi getur ekki annað en verið stöðugt að velta fyrir sér hvaða sögulegi atburður þetta nú sé og allavega gerði mín söguþekking það að verkum að oftar en ekki greip ég í tómt.

Lesandi hittir fyrst fyrir varðveittan frummann í ís og ferðast þaðan víða um heiminn og tímann, allt til okkar daga. Ýmist er vísað til þekktra einstaklinga og atburða, eða þá að óþekktar raddir og minna þekkt andartök sögunnar kveða sér hljóðs. Eftir því sem á líður má greina meiri pólitíska ádeilu í ljóðunum, leiðtoginn sem óskaði þess heitast að vera brenndur liggur uppstoppaður í marmarahöll og kona sem leiðir barn horfir yfir fátækrahverfi í útjaðri mannlegs samfélags.

Ljóðin sjálf eru tær og aðgengileg. Höfundur fer þá leið að láta raddir hinna dauðu segja frá, sem skapar tilfinningu þess að dvelja stundarkorn milli lífs og dauða, hlusta á fjarlæga rödd, stundum sterka og stundum veika. Sumir muna óljóst eftir atburðum, aðrir eru skýrari og ákveðnir í að láta rödd sína heyrast. Í fyrsta ljóðinu man frummaðurinn eftir því að „kona laut yfir mig”, „ókunn vera sem mér fannst ég alltaf hafa þekkt. / Ég fálmaði þvert í gegnum hana. Andlit hennar brann, ég gat ekki snert það. / Hún var hjá mér / á meðan heimurinn skrapp saman í ísklump.” Hér gæti verið átt við dauðann, en það er líka gaman að velta því fyrir sér hvort hér falli tíminn saman og konan sé sú sem síðar meir finnur líkamsleifarnar.

Í öðru ljóði fær rödd hins dauða beinlínis að hljóma á ný, en það hefst á línunum: „Án þess að vita hvernig á því stóð / var mér leyfð endurheimsókn.” Hún vildi verða bóndakona aftur en var í stað þess „pressuð inn í ryðgaða blikkplötu / sem var spjald í opnum arni.” Hún fær málið „Á óveðursnóttum þegar platan nötraði” og „Búandfólkið hlustaði, slegið ótta og samviskubiti.” En gestur nokkur trúir ekki á drauga en skynjar þó „að platan var göngubrú okkar, hinna dauðu. / Eins og fiðlustrengur þorpsspilarans / og slitin raddbönd ömmu gömlu / sem flutti horfna tónlist inn í núið.” Gesturinn nefnist Bartók og heimsókn hans gerir það að verkum að bóndakonan „fékk tilveru í varkárum nótum”.

Þrátt fyrir að það sé margt afar vel gert í bók Espmarks átti ég þó erfitt með að hrífast verulega af henni. Þær smámyndir sem tengjast síst þekktum sögulegum atburðum finnst mér virka best, en margar hinar pólitísku síður. Pólitík í ljóðum er afar vandmeðfarin og stundum fannst mér eins og áherslan væri á það að komast yfir sem flest í stað þess að staldra aðeins við og leyfa hinum kyrrlátu augnablikum að njóta sín.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2011