Beint í efni

Vættir

Vættir
Höfundur
Alexander Dan
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2018
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Það vildi svo til að ég byrjaði að lesa skáldsögu Alexanders Dan, Vættir, rétt um klukkan ellefu á sunnudagsmorgni. Á meðan klukkur Hallgrímskirkju glumdu las ég um sögumann sem vaknar skelþunnur á sunnudegi við hróp nágrannans, hringjandi kirkjuklukkur og hamrandi höfuðverk : „Klukkan er ellefu. Ég hlusta á Hallgrímskirkju syngja sitt lag. Fyrir hvern er þetta? Túristana? Kannski borgina sjálfa. Það er engin borg með borgum hafi hún ekki kirkju á hæð til að gala tímann“ (7).

Sagan er sögð í fyrstu persónu af ungum manni sem býr einn í miðbænum, starfar á bókasafni og á sambýli fyrir fatlað fólk. Hann er einrænn og finnur ekki mikinn tilgang í tilverunni, en á tvo góða vini sem draga hann út á lífið, Aldísi og Svenna. Aldís hannar tölvuleiki og Svenni er draumóramaður. Móðir sögumanns býr á Suðurnesjum og systir hans er búsett erlendis. Borgin er full af ferðamönnum sem láta teyma sig um í hópum til að hlusta á sögur um álfa og yfirnáttúrulegar verur. Allt er því óskup kunnuglegt með hæfilegri ádeilu á samskipti nútímans : „Ég sest inn í stofu og opna tölvuna. Feedið mitt er fullt af fréttum og statusum og kommentum og lækum um ekki nokkurn skapaðan hlut“ (8).

Þessi (tilgangslausi) hversdagsleiki hverfur þó fljótlega og innihaldsleysið tekur á sig aðra mynd þegar í ljós kemur að borgin er í raun og veru full af vættum, allskonar og ýmiskonar yfirnáttúrulegum verum og fyrirbærum sem minna minnst á álfa : „Það hringlar í trénu. Það er sem örfínar bjöllur klingi í vindinum. Eitthvað hvæsir. Nágranninn hörfar undan og dettur næstum aftur fyrir sig. [...] Bjölluhljóðið magnast og vætturin skellihlær. Hláturinn hljómar eins og ólgandi hver sem er við það að gjósa. [...] Í örskotsstund sé ég móta fyrir vættinni. Líkami hennar er eins og köngull með laufskrúðugan hárlubba, útlimirnir eru undnar greinar og þykkar rætur. Hún hangir á trjábolnum með klónum. Hún er með mosagróna steingrímu yfir andlitinu og hreyfir sig í snöggum kippum, eins og fugl eða skordýr“ (9-10). Sögumaður forðast að horfa á hana og jafnframt eykst hausverkurinn sem sprettur út frá vinstra auga hans.

Og þannig hefst undarlegt ferðalag um Reykjavíkurborg (og Reykjanesið). Alexander dregur hverja furðuskepnuna upp úr pússi sínu og lýsir þeim misnákvæmt en þó nóg til að gefa tilfinningu fyrir einhverju sem er í senn óhugnanlegt og ógnandi en jafnframt einkennilega (ó)náttúrulegt. Þær eru ýmist inni eða úti og í þeim sameinast jörð og haf, því eitt einkenni undranna er að það myndast hrúðurkarlar út um allt. Annað furðuverk er þegar rignir hnífum, en sögumaður fer út og nær sér í einn, sem reynist eigi einhamur.

Borgarbúar gera allt sem þeir geta til að þykjast ekki sjá vættirnar, jafnvel þó ferðamenn komi sérstaklega í þeim tilgangi að ‚upplifa‘ þær. Þeir geta þó ekki séð þær, en fram kemur að þær eru ósýnilegar öllum nema þeim sem búið hafa nægilega lengi á landinu. Heimamenn loka hinsvegar einbeittir augunum fyrir þeim og ræða þær ekki. Sögumaður fylgir þessu að mestu en ræður þó ekki alltaf við sig, eins og eitt kvöld þegar hann er á leið niður í bæ að hitta Svenna vin sinn :

 

Ég beygi niður Bankastrætið. Neðar í götunni stendur vættur, jafn há og ljósastaurarnir. Hún er leggjalöng, fæturnir eru eins og á langfætlu, tveir mjóir stífir útlimir með hvössum hnjám. Vætturin situr á hækjum sér, með hvorn fót sínu megin við götuna og hleypir bílaumferðinni í gegnum klofið á sér. Búkurinn er lítill og þakinn einhverju. Fyrst finnst mér hún vera loðin, en svo sýnast mér þetta vera lítil augu á stiklum sem bifast í andvaranum.

      Ég frýs. Allir fara fram hjá og láta sem ekkert sé. Fólk tekur sveig framhjá fótunum án þess að voga sér að líta upp. (40)

 

Sögumaður treystir sér hinsvegar ekki framhjá vættinni og flýr inn á bar. Þessi flótti á eftir að verða örlagaríkur, því þar hittir hann stúlku sem býður honum náttúrulækningu við höfuðverknum og fer með honum heim. Þegar hann reynir að rifja upp samskipti þeirra morguninn eftir man hann fátt, meðal annars ekki nafn stúlkunnar. Hún er inni á baðherbergi og á meðan gramsar hann í veskinu hennar : „Í veskinu er ekkert sem ég myndi búast við að finna. Enginn sími, kort, lyklar, varasalvi, meik – engar þaratöflur. Ég finn eitthvað sem ég held fyrst að sé stakur loðhanski, en átta mig svo á að er gríma. Hún er létt og leggst bara yfir augun. Eins og fyrir gamaldags grímuböll. Masquerade. Gríman er úr gráum feldi eða skinni, hönnuð svo hún virðist vera með trýni og veiðihár út frá því. Ég átta mig á að þetta er selskinn“ (50). Stúlkan segir þetta vera haminn sinn og sögumaður fullvissar hana um að hann ætli ekki að taka haminn af henni. Svo rekur hann augun í að kviður hennar er þaninn, en hafði áður verið rennisléttur og spyr hvort hún sé ólétt eftir sig :

                Hún kinkar snöggt kolli.

                „En það er ómögulegt,“ segi ég.

                Hún brosir til mín með vott af vorkunn, eins og ég hafi sagt eitthvað heimskulegt. Hún snýr sér við og svo er hún farin. (52)

Eftir þetta gerast vættirnar ágengari og fyrirbrigðum fjölgar. Skógur sprettur upp á Hringbraut og fólk hverfur, aðallega þó ferðamenn. Sögumaður er enn jafn týndur og fyrr og treystir sér ekki til að segja neinum frá fundum sínar og selstúlkunnar, þó hann sárlangi til þess. Jafnhliða er sögð sagan af því hvernig vættirnar fóru fyrst að birtast og aðeins er sagt frá æsku sögumanns og vinar hans Svenna.

Öllu er þessu vel til haga haldið í skáldsögu sem er rétt um 200 síður. Tungumálið og stíllinn hæfir efninu vel, meðal annars eru liðlegar hljóðþýðingar á ýmsum enskum orðum tengdum tækni og tölvuleikjum. Andrúmsloftið er hlaðið allt frá upphafi og þó fjölmargt í umhverfinu sé kunnuglegt er annað gert ókennilegt, eins og til dæmis bókasafnið þar sem sögumaður vinnur. Þannig er ekki aðeins hið yfirnáttúrulega, vættirnar, heldur einnig hið hversdagslega gert óvenjulegt á einhvern hátt sem skapar tilfinningu fyrir furðum og undrum, heimi sem er í senn okkar og annar. Vísað er til þjóðsagna á margvíslegan hátt, en einnig þær eru gerðar ókennilegar og ævintýralegar, staðsettar fjarri þeim kunnuglega (ó)veruleika sem þær lýsa. Þetta kemur meðal annars fram í notkun orðsins vættur, en samkvæmt orðabók er það til í kvenkyni og karlkyni. Kvenmyndin er algengari, oft sem neikvæð ; óvættur eða illvættur. Það er athyglisvert að þó vættirnar í Vættum séu iðulega bæði óhugnanlegar og ógeðfelldar þá er þessi algenga neikvæða mynd fjarri og í staðinn er orðið notað á hlutlausan hátt sem lýsing á yfirnáttúrulegri veru. Þetta helst svo í hendur við augnaþemað, en eins og fyrr er lýst er nokkuð lagt upp úr því að sjá og ekki sjá, sjá útundan sér og loka augunum, auk þess sem ferðamenn beinlínis koma til að skoða það sem er ósýnilegt. Einnig í því er unnið með stöðu trúar og hjátrúar, veruleika og (ó)náttúru. Þennan hluta sögunnar má einnig skoða sem táknmynd, þó það sé alltaf hæpið að lesa furðusögur einvörðungu sem táknsögur. Loks er þáttur tölvuleiksins athyglisverður, en bæði (umræðan um) hann og samfélagsmiðlana fellur átakalaust að hinum forna heimi vættanna.

Alexander Dan hefur áður sent frá sér skáldsögu, Hrímland (2014), sem einnig vísar til íslenskrar þjóðtrúar. Þar áður gaf hann út tímaritið Furðusögur (2010) og jafnframt þessu er hann söngvari hljómsveitarinnar Carpe Noctem. Hann hefur því lengi starfað að skrifum á sviði furðusagna og Vættirnar sýna ljóslega að hann er einn þeirra höfunda sem eiga eftir að gefa þessari bókmenntagrein aukið vægi í íslensku bókmenntalandslagi.

úlfhildur dagsdóttir, 2018