Beint í efni

Út við svala sjávarströnd og Þar sem hjartað slær

Út við svala sjávarströnd og Þar sem hjartað slær
Höfundur
Birgitta Halldórsdóttir
Útgefandi
Óskráð
Staður
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Út við svala sjávarströnd og Þar sem hjartað slær
Höfundur
Birgitta Halldórsdóttir
Útgefandi
Óskráð
Staður
Ár
2010
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Blómlegt bókmenntalíf byggir ekki aðeins á útgáfu tormeltra fagurbókmennta heldur þrífst það og dafnar í skjóli fjölbreyttrar útgáfu. Síðan íslenska glæpasagan varð að föstum þætti í bókaútgáfu hér á landi hafa reglulega heyrst raddir um að nú sé allt búið og að þessar léttvægu bókmenntir séu að taka yfir. Fyrir utan að það er hæpið að kalla allar íslenskar glæpasögur léttvægar þá hefur ítrekað komið á daginn að glæpasögurnar hafa ekki tekið eitt né neitt yfir, þær hafa þvert á móti sannað sig sem góð viðbót við bókmenntaflóruna. Í raun er ekki úr vegi að rifja hér upp ‘kellingabóka’ umræðuna svokölluðu, sem stóð sem hæst á sjöunda áratugnum, en þar voru bækur kvenna sem skrifuðu sveita- og ástarrómana í hefðbundnum raunsæisstíl fordæmdar ákaft fyrir að vera vinsælar, á kostnað framúrstefnulegri bókmennta. Sem betur fer var þessi umræða gagnrýnd harkalega af framsæknum femínistum á borð við Helgu Kress og síðar Dagnýju Kristjánsdóttur. Nýlega hefur einmitt orðið heilmikil endurvakning á verkum Guðrúnar frá Lundi, sem var vinsælust þessara ‘kellinga’. (Reyndar hefur slík ‘endurvakning’ alla tíð verið í gangi á bókasöfnum, en þar hafa bækur Guðrúnar notið stöðugra vinsælda.)

Þegar Birgitta Hrönn Halldórsdóttir kom fram með sína fyrstu bók árið 1983 var hún að einhverju leyti að feta í fótspor þessara kvenna sem skrifuðu vinsælar sögur með áherslu á ást og rómantík. Birgitta bætti dálitlum hasar inn í þessa blöndu og uppfærði til nútímans með sterkum kvenhetjum. Þegar á leið jókst hluti spennuplottins, þó ástarsagan væri áfram fyrirferðarmikil. Síðustu árin hefur minna heyrst frá Birgittu, en hún hefur þó sent frá sér barnabók og viðtalsbók. Nú virðist hún vera komin af stað aftur, undir merkjum Töfrakvenna, og sendi fyrr á þessu ári frá sér tvær bækur, Út við svala sjávarströnd og Þar sem hjartað slær. Segja má að í þessum verkum sé Birgitta að snúa aftur til rótanna, en báðar sverja bækurnar sig í ætt við gamaldags sveitasögur eins og þær sem voru hvað vinsælastar á sjötta og sjöunda áratugnum.

Út við svala sjávarströnd gerist einhverntíma á fyrri hluta síðustu aldar, líklega fyrstu áratugum hennar. Þar segir frá litlu sjávarplássi og sveitinni í kring og ýmsum atburðum þar, en óveðursnótt eina bankar ung stúlka uppá hjá bóndahjónum og fæðir barn sonar þeirra. Morguninn eftir finnst svo nágranni hengdur og í ljós kemur að miklum fjármunum hefur verið rænt af honum. Stúlkan er dóttir ríkasta mannsins í plássinu, eiganda útgerðarinnar, en hann hafði sent hana að heiman vegna ástar hennar á fátækum bóndasyni.

Það er óþarfi að rekja plottið frekar, sagan er einföld en læsileg eins og bækur Birgittu eru, hún teiknar upp persónur og aðstæður hröðum en öruggum dráttum og fangar lesanda um stund inn í þennan harða heim fortíðarinnar. Þó eru nútímalegir tónar greinilegir, því sem fyrr leggur Birgitta áherslu á sterkar kvenhetjur, hér er það dönsk frú sem er orðin hundleið á því að vera stofustáss sem tekur til sinna ráða.

Þar sem hjartað slær á sér stað nær nútímanum, eða árið 1960, en sögusviðið er afskekkt sveit á norðurlandi. Ung stúlka kemur á einn bæinn að vinna yfir sumarið og kynnist sveitalífinu í fyrsta sinn. Þessi saga er öllu flóknari umfangs en sjávarströndin, hér eru persónurnar fleiri og ég verð að játa að ég varð hvað eftir annað að fletta fremst í bókina til að rifja upp hver var hver. Með þessu móti nær höfundur þó utanum heila sveit, með margskonar fólki og fénaði, stéttaskiptingu og ólíkum aðstæðum. Sjávarströndin lýsir óvægum veðrum og harðbýlu landi, sem er viðeigandi umgjörð um þá dramatísku atburði sem eiga sér stað, en áherslan hér er á hina ljúfu og fögru sveitir, víðáttur og grósku, sem einmitt hentar sveitarómaninum svo vel. Hér er það nefnilega ástarsagan, í anda bóka Ingibjargar Sigurðardóttur, sem er allsráðandi en stúlkan verður ástfangin af prestsyninum. Móðurinni líst ekki vel á þetta, því stúlkan er ‘kanabarn’. Eins og í Sjávarströndinni eru viðhorf til kvenna og stöðu þeirra áberandi nútímalegri en þau sem einkenna klassísku ‘kellingabækurnar’, en að öðru leyti er greinilegt að Birgitta er að viðhalda þeirri hefð.

Og það er kannski það sem er verðmætast við bækur af þessu tagi. Fyrir utan að auðga bókmenntaflóruna þá eru þær mikilvægur þáttur í að viðhalda ákveðinni tegund skáldskapar sem hefur verið íslensku þjóðinni ákaflega mikilvægur. Það var áhugavert að lesa þessar bækur í kjölfar skáldsögu Kristínar Steinsdóttur, Ljósu, en þar byggir hún einnig á sveitarómönsunni, þó á allt annan hátt sé. Segja má að án þeirra sagna hefði hennar bók varla getað orðið til, allavega verið ansi mikið öðruvísi.

Svona í lokin þá get ég ekki annað en velt fyrir mér hversu áhugavert það er að lesa sögur Birgittu á þessum tímum sem einkennast af tortryggni, ásökunum, þreytu og ýmiskonar ólgu. Það er myrkt yfir íslensku samfélagi og margar glæpasagnanna endurspegla þetta, með áherslu á átök og grimmd. Það er því óneitanlega dálítið sérstakt að lesa bækur sem sniðganga svo fullkomlega allt slíkt, því hér er það manngæskan sem er allsráðandi. Grunnviðmiðið er að fólk sé gott, þó því geti orðið á mistök. Og þó að mér finnist hlutverk bókmenntanna sem greinanda á því ástandi sem íslenska þjóðin býr við afar mikilvægt, þá get ég ekki annað en fagnað því að það séu líka skrifaðar bækur sem gefa okkur frí frá þessum deilum öllum, bækur sem minna okkur á að það er fullt af góðu fólki allt í kringum okkur. Það er greinilegt að gestir Borgarbókasafnsins eru sammála mér, því snögg könnun leiddi í ljós að báðar bækurnar lánast mikið út!

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010