Beint í efni

Úrg ala buks unum

Úrg ala buks unum
Höfundur
Jean Antoine Posocco
Útgefandi
Froskur
Staður
Hafnarfjörður
Ár
2006
Flokkur
Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Undanfarið hafa Njálu-myndasögur þeirra Emblu Ýrr Bárudóttur og Ingólfs Arnar Björgvinssonar vakið nokkra athygli, ekki síst fyrir það hversu vel þeim hefur tekist að koma sagnaarfinum yfir á form myndasögunnar. Þau voru reyndar ekki fyrst til að leggja í verkefni af þessu tagi, en fyrir nokkrum árum reyndu Búi Kristjánsson og Jón Karl Helgason fyrir sér með Íslendingasögur í myndasögum. Það framtak vakti ekki viðlíka athygli og er óhætt að segja að þar spili aðstæður inní, en á allra síðustu árum hefur íslenskum myndasögum verið að vaxa ásmegin, þær fá meiri athygli en áður og eru orðnar viðurkenndari í menningarlandslaginu.

En Íslendingasögurnar eru ekki eini menningararfurinn sem hefur ratað inn í myndasöguna, þjóðsögur hafa löngum verið frjó uppspretta myndasöguhöfunda, allt frá því að Muggur teiknaði Búkollu um miðja öldina. Myndir Halldórs Péturssonar fyrir útgáfur á þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar eru líka afar eftirminnilegar, en Halldór var einnig þekktur sem skopmyndateiknari. Það var þó ekki fyrr en með Haraldi Guðbergssyni sem þjóðsagan var tekin verulega sterkum tökum í myndasögum, en árið 1965 birtist fyrsta þjóðsagnamyndasaga hans í Fálkanum, Sæmundur og Kölski. Gylfi Gíslason er einn þeirra sem vann á skemmtilegan hátt með myndasögur, en þær voru gefnar út á bók árið 1987. Síðar gerði hann þjóðsagnamyndasögur í litlu broti sem voru gefnar út á íslensku og ensku.

Og nú hefur Jan Pozok bæst í hópinn. Fyrir jólin gaf hann út jólasveinamyndasögur í félagi við Sigrúnu Eddu Björnsdóttur og nú hefur hann sent frá sér á bók myndasöguna Úrg ala buks unum, en hún birtist áður í nokkrum hlutum í myndasögublaðinu Blek sem Jan Pozok hefur séð um útgáfu á undanfarin ár.

Sagan er byggð á skessusögunni “Skessan á steinnökkvanum” úr þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar, en Jan hikar ekki við að fara frjálslega með efnið og tekst í stuttu máli sagt afar vel upp. Sagan er nokkuð hefðbundið ævintýri um konungsson sem þarf að leita sér konu, því faðir hans eldist. Hann fer til annars konungsríkis og biður sér prinsessu, fær hennar og getur henni barn. En svo berast fréttir af dauða föðurins og hann snýr til baka með konuna og barnið. Nema annar hafði ásett sér konuna og sá beitir göldrum til að ná henni á sitt vald, nánar tiltekið fær hann tröllasystkininÚrgol og Varghold sér til aðstoðar. Varghold tekur á sig líki drottningar, en sendir hana sjálfa til undirheima þarsem Úrgol og svikarinn bíða. Á meðan undrar ungi konungurinn sig á breyttu viðmóti eiginkonunnar og eilífum gráti sonarins en kemst fljótlega að því að ekki er allt með felldu.

Sagan fellur í flokk sagna sem auðvelt hefur verið að túlka á femínískan hátt sem dæmi um fæðingarþunglyndi eða vandræði með konur sem hegða sér ekki ‘rétt’. Í fyrstu er drottningin blíð og góð en eftir fæðinguna breytist hún og verður köld og frek. Undir fögru skinni er því flagð og mikilvægt fyrir karlmennið að temja kvendið á ný. Jan fer ekki þessa leið í sinni túlkun, enda kannski ekki von, en í staðinn tekst honum á mjög fimlegan og fallegan hátt að færa söguna, og persónurnar, til nútímans jafnframt því að auka á ævintýraáhrifin. Sagan er hröð og rennur vel og fellur aldrei í gryfju tilgerðar eða predikunar, þetta er einfaldlega skemmtilegt ævintýri. Hér er því um sérlega vel heppnaða aðlögun að ræða og ég get ekki annað en óskað þess að höfundur haldi áfram á þessari braut.

Teiknistíllinn sver sig í ætt við evrópskar sögur sem Íslendingar þekkja vel úr þýðingum og sá húmor og léttleiki sem einkennir slíkar er hér einnig til staðar. Stíllinn er allur léttur og leikandi, sagan er í svart hvítu með dagblaðapunktaáferð í stað skygginga sem virkar mjög vel og gefur sögunni skýran karakter sem fellur vel að viðfangsefninu. Hreint út sagt alger gleðigjafi.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2006