Beint í efni

Úr hljóðveri augans

Úr hljóðveri augans
Höfundur
Vésteinn Lúðvíksson
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Jón Yngvi Jóhannsson

Vésteinn Lúðvíksson tilheyrir týndri kynslóð í íslenskum bókmenntum. Hann var í senn upphafsmaður og helsti hugsuður nýraunsæisins á áttunda áratugnum, sprenglærður í marxískum kenningum um samband bókmennta og samfélags. Um þessi efni skrifaði hann lærðar greinar og stórvirkið Gunnar og Kjartan sem kom út laust eftir 1970 var tilraun til að framkvæma þessar kenningar. En þegar nýraunsæið fjaraði út hvarf Vésteinn af vettvangi bókmenntanna, síðan hefur hann verið ötull við að kynna fyrir Íslendingum austræn fræði, hugleiðslu og búddisma. En eftir langa bið er skáldið Vésteinn nú komið í leitirnar í stórgóðri ljóðabók sem nefnist Úr hljóðveri augans. Fyrir þá sem hafa áhuga á íslenskri bókmenntasögu undanfarinna ára er þetta óneitanlega forvitnilegt. En hafi menn átt von á enn einu uppgjörinu er hætt við að þeir verði fyrir vonbrigðum. Fortíðin er ekkert að þvælast fyrir skáldinu og hvorki varð ég var við þá kumpána Marx og Lukacs né kenningar austrænnar speki. Þvert á móti er einn meginkostur þessara ljóða hvað þau eru fersk og blátt áfram. Þau eru ort af léttleika og fimi. Að lesa bókina er eins og vera í för með talandi skáldi, líkingar og ljóðrænt tungutak leikur í höndunum á honum. Kannski er þessum ljóðum best lýst sem hefðbundnum nútímaljóðum, þau byggja mikið á endurtekningum, andstæðum og þversögnum og reglubundin hrynjandi er aldrei langt undan. Raunar minna þessi ljóð helst á bjartsýna og leikandi útgáfu af ljóðum Steins Steinars:

að ganga afturábak

að ganga afturábak í linnulausum minningum um misglæstar flöktandi spegilmyndir af skuggum

að endursemja í sífellu heim sem eitt sinn var ortur af gleði, til gleymsku

þvílíkan efnivið í okkar daglegu sérlegð og afmæli tímans er ekki þarna að finna! þvílíka námu!

réttnefnda óbrigðula leið til að detta aldrei framfyrir sig, nokkru sinni

Yrkisefni Vésteins eru oft abstrakt og svolítið óræð. Þau byggjast upp á líkingum sem ekki er alveg ljóst til hvers lýsa, dæmisögum sem erfitt er að ráða í við fyrstu sýn. Í seinni hluta bókarinnar eru til dæmis nokkur ljóð ljóð þar sem ljóðmælandi ávarpar einhvern í annari persónu, þetta eru tilbeiðslukennd og falleg ljóð sem geta verið hvort sem eru trúar- eða ástarljóð:

hvernig er annað hægt? eitt

sá sem vakir með þér uppsker í það minnsta angist

sá sem deyr í þig uppsker í það minnsta lífið

sá sem lifir án þín uppsker í það minnsta dauðann

hvernig er annað hægt en að stinga út og færa þér tvö blind augu?

Ljóðin úr hljóðveri augans gefa tilfinningu um skáld sem hefur sætt sig við mótsagnir tilverunnar án þess að gera neinar tilslakanir, skáld sem tekst á við flókinn og tvístraðan heim af alvöru en án angistar. Þetta eru ljóð sem þola margendurtekin lestur, sum þeirra krefjast hans beinlínis, án þess að maður eigi von um að þau ljúkist upp fyrir manni að fullu. Þau bjóða lesandanum upp á ótal eyður og glufur sem hann getur komið sér fyrir í og reynt að ráða í merkingu ljóðanna. Þetta eru gagnvirk ljóð sem njóta sín ekki til fulls nema lesandinn taki þátt og reyni að ráða gátur þeirra, ráðningin er vitanleg sjaldnast til og aldrei einhlít en leitin að henni er sannarlega vel þess virði að leggja hana á sig. Það er sannarlega gleðiefni að Vésteinn Lúðvíksson sé snúinn aftur til skáldskaparins, þessi bók er ólík öllu sem hann hefur skrifað áður, kannski er hún nýtt upphaf.

Jón Yngvi Jóhannsson, desember 2003