Beint í efni

Úlfurinn rauði

Úlfurinn rauði
Höfundur
Liza Marklund
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Þýðandi Lizu Marklund, Anna Ragnhildur Ingólfsdóttir, lætur ekki standa við orðin tóm. Í vor þegar skáldsaga Marklund, Villibirta, kom út lofaði hún að ný bók væri á næsta leyti og nú er hún komin, rétt í tíma fyrir heimsókn skáldkonunnar sjálfrar. Bókin nefnist Úlfurinn rauði en titillinn vísar að sjálfsögðu til þess sem einn mætur samnemandi minn kallað eitt sinn 'kommsósíalismi'. Ef titillinn nægir ekki til að minna á roðann í austri, þá ætti kápan að gera það, en hana prýðir fræg mynd af Che. Sem fyrr er það blaðakonan Annika Bengtzon sem stendur í ströngu og að þessu sinni gengur plottið út á hryðjuverk, sem er að sjálfsögðu afskaplega aktúelt. Nema þetta eru ekki hryðjuverk samtímans, heldur fortíðarinnar (ágæt áminning um að hryðjuverk eru ekki ný uppfinning múslima). Það eru sem sé hryðjuverk kommúnista og sósíalistahreyfinga í Svíþjóð frá sjöunda og áttunda áratugnum sem Annika er að rifja upp og þá ekki síst þau sem aldrei tókst að upplýsa að fullu. Á sama tíma og Annika garfar í málum þessum er fólk myrt, og í ljós kemur að ekki aðeins er þráður milli morðanna, heldur liggur sá þráður til hryðjuverka þeirra sem Annika er svo upptekin af.

Að vanda taka persónuleg málefni hennar mikið pláss, hjónabandið er ekkert auðveldara en áður og eins og framsóknarkonur hafa uppgötvað þá vilja karlmenn í raun og veru helst hafa konurnar í eldhúsinu. Atburðirnir fylgja ekki í kjölfar Villibirtu, heldur Sprengivargsins, en eins og lesendur þeirrar bókar muna lenti Annika þar í mjög miklum hremmingum (best að segja ekki meira ef einhverjir eiga þetta eftir). Annika, sem er aldrei sérlega sterk á taugum, er því enn taugaveiklaðri en fyrr, og það bætir að sjálfsögðu ekki stöðu hennar. Núnú, svo eru sviptingar á blaðinu eftir atburði Villibirtu, og samskipti Anniku við yfirmann sinn Anders Schyman eru ekki eins góð og áður.

Allt þetta fléttar Liza Marklund saman fimlegum höndum og enn sem fyrr hlýt ég að dást að færni hennar. Hér er því komin enn ein hressileg norræn spennusaga sem aðdáendur slíkra mega ekki láta framhjá sér fara og allt það. Vissulega var konu farið að gruna hvert aðalillmennið væri, en það var þó ekki fyrr en langt var liðið á bókina, og sömuleiðis tókst að gera niðurstöðuna úr einka- og atvinnumálum Anniku ekki of fyrirsjáanlega. Margir hafa borið sig upp við mig vegna þeirrar miklu áherslu sem lögð er á slæmar taugar Anniku og erfiðleika í einkalífi hennar. Sumum finnst þetta svo leiðinlegt að þeir gefast hreinlega upp á lestrinum. Ég las því Úlfinn með mikilli varfærni, tilbúin til að viðurkenna að ég hefði verið of jákvæð í garð kvenglæpahöfundar, og umræðu hennar um stöðu útivinnandi kvenna (sem er erfið, sbr. framsóknarkonur), en einnig minnug þess þegar ég sat með tveimur körlum í íslenskri dómnefnd Glerlykilsins. Þá var ég sú eina sem kvartaði yfir ofuráherslu á kvenleg málefni (óléttu aðalsöguhetjunnar og þarmeð umræðu um stöðu kvenna) í einni þeirra bóka sem þá voru til umræðu, og var, nóta bene, eftir konu. Strákunum fannst þetta fínt og gefa bókinni gildi og voru hálfhneykslaðir á mér! Í stuttu máli sagt þá pirraði einkalíf Anniku mig jafnlítið nú og áður, þó það taki vissulega ansi mikið pláss. Sem fyrr fannst mér það heldur vera mikilvægur þáttur í því að gera söguna áhugaverða. Það eina sem ég tók eftir núna, vegna þess að ég hafði lagt mig sérstaklega eftir þessum hluta, er hvað eiginmaður Anniku, hinn ljóshærði og herðabreiði Thomas, er skelfilega leiðinlegur, strákhvolpur.

En það breytir ekki því að bókin er góð.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2004