Beint í efni

úfin, strokin

úfin, strokin
Höfundur
Örvar Þóreyjarson Smárason
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Íslenskur bókmenntaheimur getur tæplega státað af mikilli neðanjarðarmenningu. Vissulega er hér mikið um sjálfsútgáfur á ljóðabókum og jafnvel prósaverkum, en slík verk sverja sig þó ekkert endilega efnislega eða stíllega til neðanjarðarbókmennta. Þó er alltaf eitthvað, Medúsuhópurinn náttla, og í kjöfar hans bókaútgáfa Smekkleysu í lok níunda áratugarins og nú síðast mætti flokka sumt af útgáfu Nýhil hópsins undir neðanjarðarmenningu. Allavega er það þar sem ég myndi staðsetja skáldverk Örvars úr hljómsveitinni Múm, úfin, strokin, sem kom út fyrr á þessu ári. Fyrir utan að búa til tónlist hefur Örvar skrifað eitthvað af ljóðum, meðal annars átti hann ein bestu ljóðin í bókinni Ljóð ungra skálda (2001).

Bókin er í þremur hlutum og í fyrsta hlutanum erum við stödd á bókasafni með ungu pari. Þar gerast ýmsir merkilegir hlutir og fantasían - eða ætti ég að segja súrrealisminn? - grasserar. Einhversstaðar sefur stúlka og svo finnur sögumaður stílabók og í henni drengjasögur, eða hvað? Allavega erum við komin inn í drengjasögu í næsta hluta, en hún er sögð af aðalsöguhetju Stofferbókanna (sem eru til dæmis Stoffer Stensen og Pósthúsræningjarnir og Stoffer Stensen og leyndardómur bláa armbandsins dularfulla), sem veltir sér í sniffvímu í grasinu og hlær við tilhugsunina um að allir öfundi þau, persónur Stofferbókanna. Svo hefst ævintýraleit, sem gengur ekki sem skyldi, eitthvað er ekki eins og það á að vera, Stoffer hugsar óþarflega mikið um kynlíf með stúlkunni Kötu og svo virðist hann halla sér helst til mikið að ljóðaskrifum. Eitthvað kemur víma við sögu, enda heitir síðasti hluti bókarinnar “Nýjustu eventyr Stoffer Stensen narkómans”. Þar birtist einskonar sundurslitin saga af Stoffer og tveimur nýjum félögum, sem svífa öll um í vímu...

Já, þetta var svona svolítið sýrt eins og einhverntíma var sagt (og er kannski enn?), og minnti mig óneitanlega á Medúsu/Smekkleysu-skrif, Sjón, Kristínu Ómars og fleiri góða höfunda sem rótað hafa róttækilega í formi og raunsæi. Einnig mætti bera skrifin saman við nýlega bók Kristínar Eiríksdóttur, Kjötbæinn, en þar var líka mjög áhugaverð atlaga gerð að tungumáli og realisma. Ekki svosem leiðum að líkjast fyrir Örvar og í heildina stendur hann vel undir samanburðinum, fer sínar eigin leiðir og allt það, bókin er vel heppnuð, bæði áhugaverð og skemmtileg á köflum.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2005