Beint í efni

Tunglið braust inn í húsið

Tunglið braust inn í húsið
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Þegar ég var beðin um að skrifa um safn ljóðaþýðinga Gyrðis Elíassonar átti ég von á góðu, en gat þó ekki gert mér í hugarlund hvers konar fengur þetta yrði. Þetta er ekkert lítið kver með nokkrum vel völdum ljóðum frá ýmsum tímum, nei, þetta er sko alvöru safn uppá 324 síður með ríflega 250 ljóðum eftir 36 skáld frá 15 löndum.  Verk sem sver sig í ætt safna ljóðaþýðinga Helga Hálfdanarsonar og Jóns Helgasonar, en á engan sinn líka á 21. öld. Falleg bók að vandaðri gerð, með upplýsandi en stuttum eftirmála um öll skáldin, sem má dýfa sér í um ókomin ár, í leit að andlegri næringu, hressingu og ögrun.

Ljóðum er raðað eftir löndum og svo höfundum og víða er borið við og farið yfir ýmsa heimshluta, asíska, evrópska og norður-ameríska. Flest skáldin koma frá Bandaríkjunum og er það vel, því ekkert þeirra hefur verið þýtt á íslensku áður og eru þarna komin nokkur merkustu skáld 20. aldar í bandarískum bókmenntum sem full ástæða er til að þýða og halda þannig á lofti. Nútildags er oft látið sem svo að óþarfi sé að þýða úr ensku því við kunnum hana öll svo vel (sem er auðvitað mikill misskilningur), en lestur ljóða krefst djúpstæðrar þekkingar á tungumáli, menningarheimi og vísunum og því mætti segja að einmitt þar séu þýðingar þarfastar, auk þess að vekja athygli á ókunnum höfundum. Þótt við kunnum ensku ágætlega þýðir það ekki að við lesum Alice Walker eða Roger McCough upp á hvern dag. Í þýðingu felst ávallt val, eitt ljóð er valið frekar en annað, einn höfundur frekar en annar, og þegar maður fær svona safn í hendurnar leitar maður að sjálfsögðu að sameiginlegum þráðum og þemum. Hér má auðvitað greina margskonar þræði sem auðvelt er að tengja við skáldskap þýðandans, í mörgum má finna látleysi, áherslu á hversdag, einfaldar náttúrumyndir lausar við íburð og óþarfa mælsku, sorg og missi. En þó eru ljóðin langt frá því að vera einsleit enda skrifuð á ólíkum öldum í ólíkum löndum. Kannski er skemmtilegast að láta tengslin koma sér á óvart. Kínversku og japönsku ljóðin endurróma til dæmis á óvæntan hátt í þeim bandarísku; Jack Gilbert yrkir um japönsku eiginkonu sína og Jane Hirshfield á ljóðið ‚Að lesa kínversk ljóð fyrir dögun‘.

Þau asísku setja tóninn, bókin hefst á þeim, þau kínversku fyrst, frá 13., 8., og 4. öld, og fer vel á því. Einfaldleikann í myndum af skáldi, veðri, landslagi má rekja í gegnum fjölmörg ljóð í safninu og andblærinn er á einhvern óútskýranlegan hátt ‚réttur‘ fyrir safn af þessu tagi. Önnur ljóð í safninu eru langflest frá 20. öld, svo úr verður yfirgripsmikil mynd af ljóðlist í Evrópu og Norður-Ameríku á tímabilinu. Þó má ekki skilja það svo að bókin sé einhvers konar yfirlit, valið er ekki af þeim toga, miklu frekar er að ákveðnum skáldum er gefið pláss, ákveðinni hugmynd, einhver þráður er eltur og svo annar tekinn upp. Flest eru ljóðin í styttra lagi, þ.e. lítið er um ljóðabálka, en fjölbreytt eru þau af annarri gerð, svo sem hrynjandi, ljóðrænu og orðafari. Þess vegna hefði verið gott ef í eftirmálanum hefði komið fram úr hvaða máli er þýtt í hvert sinn, því skáldin skrifa á fjölmörg framandi tungumál.

Samanburður á örfáum ljóðum á frummálinu sýnir vandvirkni og nostur, en líka margvíslegan vanda sem þýðandinn stendur frammi fyrir, en leysir fallega úr. Sem dæmi má taka ljóð eftir Jane Hirshfield sem ég birti hér í báðum gerðum svo lesendur geti dundað sér við samanburðinn:

Late Self-Portrait by Rembrandt

The dog, dead for years, keeps coming back in the dream.
We look at each other there with the old joy.
It was always her gift to bring me into the present-

Which sleeps, changes, awakens, dresses, leaves.

Happiness and unhappiness
differ as a bucket hammered from gold differs from one of pressed tin,
this painting proposes.

Each carries the same water, it says.

EIN AF SÍÐUSTU SJÁLFSMYNDUM REMBRANDTS

Hundurinn, sem hefur verið dauður
árum saman, heldur áfram að koma
til mín í draumi. Við horfðumst í augu
með sömu gömlu gleðinni.
Gjöf hans til mín var ævinlega andartakið –

sem sefur, breytist, vaknar, klæðist, fer.

Gæfa og ógæfa
eru jafn mismunandi og fat sem hamrað
er úr gulli og fat úr tini,
það sést af þessu málverki.

Hvorttveggja inniheldur sama vatnið,
segir myndin.

Í hvert sinn sem ég hef opnað bókina undanfarna daga hef ég eignast nýtt uppáhaldsljóð og þannig eiga söfn að vera. Ég óska þýðandanum til hamingju með verkið og afmælið í dag – og okkur lesendum ekki síður með stórmerkilega viðbót í flóru ljóða á íslensku.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, 4. apríl 2011