Beint í efni

Þýddar mangabækur

Þýddar mangabækur
Höfundur
Queenie Chan
Útgefandi
Edda
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Þýddar mangabækur
Höfundar
Richard Knaak,
 Jae-Hwan Kim
Útgefandi
Edda
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Þýddar mangabækur
Höfundur
Sang-Sun Park
Útgefandi
Edda
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Þýddar mangabækur
Höfundur
Sang-Sun Park
Útgefandi
Edda
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

„Af hverju ertu með svona stór augu amma?“ spyr Rauðhetta litla úlfinn í ævintýrinu og augun eru eitt af því fyrsta sem fólk sem ekki þekkir japönsku myndasöguhefðina, manga, spyr um. Af hverju eru japanskar myndasögupersónur með svona stór augu? Svarið er bæði einfalt og flókið, einfalda svarið er „Bambi“, en myndasöguhöfundurinn sem hafði hvað mest áhrif á mótun hins sérstæða stíls mangans, Osamu Tezuka, var sérstakur Disney-aðdáandi. Tezuka hafði mikinn áhuga á kvikmyndum og því voru það ekki aðeins stóru augun heldur einnig myndmál kvikmynda sem rataði inn í myndasögur hans og með því voru línurnar lagðar fyrir þann teikni- og frásagnarstíl sem einkennir manga í dag. Stóru augun koma í ýmsum stærðum og gerðum og eru orðin að lykilatriði í því að lesa í táknfræði myndanna - er persónan ástfangin, óttaslegin, hamingjsöm eða sorgmædd? Frásagnarstíllinn kemur fram í því að teiknarinn gefur sér meira pláss til að sviðsetja atburði og skapa stemningu, sem gerir það að verkum að japanskar myndasögur eru almennt þykkari bækur en evrópskar Tinnasögur og bandarískar ofurhetjusögur.

Af hverju hefur manga orðið svona óskaplega stórt fyrirbæri? Því er erfiðara að svara. Ein ástæðan liggur hreinlega í gæðum sagnanna, í japönskum myndasögum er mikil áhersla lögð á það að segja áhrifaríka og skemmtilega sögu, auk þess sem persónusköpun (tákngerfð í stóru augunum meðal annars) er mikilvæg. Þannig fjalla manga-seríur um allt frá ódauðleika, á álíka heimspekilegan hátt og Simone de Beauvoir í Allir menn eru dauðlegir (1982), til endalausra átaka um tennis, og allt þar á milli. Þekktasta meistaraverk formsins er þó líklegast saga Tezuka um Búdda, sem kom út í enskri þýðingu fyrir fáum árum og hefur vakið athygli margra eldri lesenda á manga. Flest verkin eru í seríu-formi og þannig bindast lesendur persónum sterkum böndum og fylgjast með þeim þroskast og breytast í þeim margvíslegu átökum við ástir, líf og starf sem fjallað er um í bókunum. Vissulega er nokkuð um þunnildi inni á milli (bæði að umfangi og gæðum), en þó ekki eins mikið og ætla skyldi þegar um er að ræða vinsæla framleiðslu.

Vinsældir japanskra myndasagna hafa aukist gífurlega á allra síðustu árum og er nú svo komið að markaðslega hafa þær sterkari stöðu í Bandaríkjunum en innlend framleiðsla. Á hinn bógin hafa Japanir lítinn sem engan áhuga á bandarískum myndasögum. En það er ekki bara í Bandaríkjunum, heldur líka í Evrópu sem manga hefur hreiðrað um sig, sem dæmi má nefna að japanska er næstmest þýdda tungumálið (á eftir ensku) í Svíþjóð. Manga er orðið mikilvægt fyrir kynningu á japanskri menningu og hefur ýtt enn frekar undir ‘japaníseringu’ ungdómsmenningar því æ fleiri leggja leið sína til Japan eftir að hafa lesið manga. Og vegna þess hve margir lesa manga er Japan ekki eins framandi og áður.

Ekki má heldur gleyma þætti teiknimyndanna, eða anime eins og þær kallast á japönsku. Vinsælar manga-seríur eru gerðar að anime og þar með breiðast þær enn frekar út - til dæmis á netinu þar sem hægt er að fylgjast með uppáhaldsþáttum.

Orðið manga þýðir í raun bara myndasaga, þó að á vesturlöndum sé það notað eingöngu yfir myndasögur í japönskum stíl, en þetta form er nú ekki lengur bundið við Japan. Kóreanskir teiknarar hafa tileinkað sér formið með góðum árangri (dæmi um vinsæla kóreanska seríu er Ragnarök, sem vísar til norrænnar goðafræði), en Kóreubúar eiga sér reyndar sína eigin myndasöguhefð, skylda en þó ólíka þeirri japönsku. Bandaríkjamenn eru sömuleiðis farnir að framleiða eigið manga og ungt fólk í Evrópu er einnig farið að teikna í mangastíl, mögulega leynast þar væntanlegir manga-höfundar. Manga-æðið hefur einnig gripið um sig á Íslandi, sem dæmi um það má nefna að síðan myndasögudeild opnaði í aðalsafni Borgarbókasafns árið 2000 hefur magn manga þar aukist mjög mikið í takt við vaxandi vinsældir. Það sama hefur gerst í Nexus, einu bókabúðinni sem helgar sig myndasögum. Mangabækurnar hreyfast hraðar en aðrar bækur og útlánatölur á bak við þær eru háar, enda eru mangalesendur fljótir með hverja bók og koma iðulega vikulega að fá sér nýjan skammt. Þó ber þess að geta að ekki eru allir myndasögulesendur ánægðir með vinsældir japönsku myndasögunnar og óttast að hún sé að taka myndasöguheiminn yfir, bæði hvað varðar útgáfu og áhrif í stíl. Þessi áhyggjuefni virðast þó, allavega enn sem komið er, dálítið orðum aukin.

Vinsældir manga hafa nú síðast skilað sér í íslenskum þýðingum. Þrjár manga-bækur eru komnar út á íslensku og mun sú fjórða vera væntanleg. Gert er ráð fyrir að bækurnar séu fyrst og fremst seldar í áskrift sem hluti af manga-klúbbi bókaútgáfunnar Eddu, líkt og er með Galdrastelpurnar. Þetta er í sjálfu sér gott framtak. Myndasagan hefur ekki notið sannmælis hérlendis og þýðingar á myndasögum hafa næstum horfið síðan á gullaldartímanum á áttunda áratugnum þegar Tinni og Ástríkur, Goðheimar, Viggó Viðutan, Svalur og Valur, Strumparnir og Hin fjögur fræknu (svo nokkur dæmi séu nefnd) glöddu bæði börn og fullorðna. Fyrir um það bil áratug var gerð tilraun til að endurvekja þýðingar á myndasögum og þrátt fyrir að nú sé búið að lesa þær bækur í tætlur á bókasöfnunum náði framtakið ekki að endurlífga þann dvala sem myndasagan á Íslandi var lögst í. Nýlega voru tvær bækur um Þórgný þýddar og vonandi verður framhald á því.

Þrátt fyrir að ég fagni frekari útbreyðslu myndasagna verð ég að viðurkenna að viðhorf mitt til þeirra bóka sem eru hér til umfjöllunar er nokkuð blendið, því ég get ekki annað en undrast valið. Bækurnar eru fyrir það fyrsta ekki japanskar. Sang-Sun Park sem skrifar og teiknar tvær sagnanna, Englar arkarinnar og Tarot kaffihúsið, er kóreönsk, hinar bækurnar tvær, Draumar og Drekaveiðar (úr WarCraft seríunni) eru bandarísk framleiðsla (þó höfundur Drauma, Queenie Chan sé reyndar kínversk/áströlsk). Þannig er hæpið að auglýsa sögurnar með slagorðinu “Velkomin í heim japanskra teiknimyndasagna”, þrátt fyrir að síðar í textanum sé tekið fram að sögurnar séu í þeim vinsæla stíl. Og vissulega, eins og áður segir, nær manga nú yfir meira en japanskar myndasögur. Hitt vandamálið snýr að gæðum, sögurnar eru einfaldlega ekki nægilega góðar, miðað við hvað manga getur verið virkilega gott afþreyingarefni - og jafnvel góðar bókmenntir inni á milli.

En þetta er þó ekki alslæmt, til dæmis kom saga Queenie Chan, Draumar, mér nokkuð ánægjulega á óvart, en þar er sagt frá tvíburasystrum sem eru að hefja nám í afskekktum heimavistarskóla. Fljótlega kemur í ljós að eitthvað er dularfullt við skólann, og þó aðallega umhverfi hans, en hann er staðsettur í miðjum myrkum skógi. Sögur ganga um að margar stúlkur hafa horfið í skóginum og í lok bókarinnar bætist ein vinkona systranna í hópinn. Sagan er ágætlega skrifuð, sérstaklega miðað við bandaríska mangað sem er, enn sem komið er allavega, sérlega slæmt dæmi um þunnar eftirhermur, og Chan nær ágætlega að skapa stemningu, þó vissulega sé bókin langt því frá að vera frábær.

Samanburðurinn við hina bandarísku manga (kallað amerimanga) söguna, Drekaveiðar, eftir þá Richard A. Knaak og Jae-Hwan Kim, er þó mjög Draumum í vil, því þessi WarCraft saga er óttalega flöt. WarCraft sögurnar hafa notið gífurlega vinsælda, enda byggðar á mjög vinsælum tölvu- og hlutverkaleikjum. Drekaveiðar er fyrsta bindið í þríleik sem segir stutta sögu innan úr þessum heimi. Sagan er afskaplega dæmigerð hetjusaga af drekum og ungmeyjum, nema hér eru drekinn og hetjan sem bjargar meynni einn og hinn sami. Vissulega ekki alslæmt en vakti allavega ekki hjá mér áhuga á að lesa næstu bók - öfugt við Drauma sem ég ætla að fylgja eftir. Þýðingarnar eru í báðum tilvikum hráar, Trevor, strákur í Draumum er kvenkenndur (það getur vissulega verið erfitt að sjá mun á kynjunum í sumum manga-bókum, en vanur lesandi áttar sig þó strax, auk þess sem Draumar er það vinsæl sería að henni er hægt að fletta upp á Wikipedíu og þar er listi yfir persónur) og í Drekaveiðum er áberandi stirður þýðingablær yfir öllum textanum. Hér virðist því hafa verið kastað til höndum sem segir eitthvað um viðhorf til efnisins.

Englar arkarinnar eftir Sang-Sun Park er hinsvegar nokkuð dæmigert kóreanskt manga, með mjög flúruðum teikningum og er ætlað stelpum (shojo). Í dag eru konur í meirihluta meðal manga-lesenda og hefur mangað skipt sköpum í því að laða kvenkyns lesendur aftur að myndasöguforminu. Höfuðmunurinn á shojo manga og strákasögum (shonen) felst bæði í stíl og sögu, stelpu stíllinn er allur mun fegraðri og er eitt einkenni hans að augu persónanna eru enn stærri en annars. Strákasögur eru hinsvegar meiri hasar-sögur, stundum allofbeldisfullar, stundum fyndnar og krúttlegar. Til dæmis er Drekaveiðar nokkuð dæmigerð shonen-saga, en Draumar hins vegar meiri stelpusaga - þó reyndar sé þar dregið úr ýktustu shojo töktunum svo að hún getur vel höfðað til beggja kynja og gerir það. Reyndar má segja það sama um margar fleiri stelpu og strákasögur, aðgreiningin er ekki alltaf svo skýr.

Englar arkarinnar er umhverfis-geim-ævintýri sem segir frá þremur systrum utan úr geimi sem fá það hlutverk að bjarga dýrum í útrýmingarhættu og koma þeim fyrir í ‘örk’. Þær heita Shem, Hamu og Japheth, og til að sinna hlutverki sínu sem best ganga þær í skóla með öðrum krökkum á sínum aldri. Japheth er þar látin leika strák sem býður uppá skemmtileg ‘hinsegin’ samskipti við aðra stráka og þannig eru dregnir fram undirtónar hinsegin manga sem hefur verið gífurlega vinsælt (aðallega meðal kvenna) síðustu árin. Sagan er blanda af ævintýri, rómantík og gríni, en slíkar blöndur hafa gefist einstaklega vel. Helsta vandamálið er að allt er þetta einum of krúttlegt. Öllu minna krúttleg og meira dramatísk er önnur saga Sang-Sun Park, sem á ensku nefnist The Tarot Café og mun vera væntanleg í íslenskri þýðingu sem Tarot-kaffihúsið. Þar er sagt frá dularfullri Tarot-spákonu sem sér inní framtíð fólks. Sagan er sett saman úr mörgum smásögum sem saman mynda heildstæða sögu spákonunnar, en hún á sér heilmikla fortíð. Tarot-spil virka sérlega vel sem myndasaga, því það er einmitt það sem þau eru. Ég las fyrstu fjögur bindin á ensku og til að byrja með fannst mér gaman að sögunni, en þegar á líður dalar krafturinn nokkuð.

Í heildina séð er ekki annað hægt en að undrast valið á þessum bókum til þýðinga. Mér virðist sem það sé ekki byggt á mikilli þekkingu á heimi manga og að viðskiptahagsmunir hafi verið settir á oddinn, sem er þó undarlegt því varla eru það góð viðskipti að gefa út bækur sem ekki ná nægilegri sölu og dreifingu vegna þess að þær eru einfaldlega ekki nógu góðar. Einnig má spyrja hvort útgefendur séu að forðast lengri seríur, en það kemur þá einnig á óvart, því það er einmitt lengd seríanna sem gerir lesendur svo háða bókunum. Þrátt fyrir allt þetta get ég þó ekki annað en glaðst yfir því að verið sé að koma þessum heimi myndasagna til Íslendinga og vona að þetta sé aðeins upphafið að einhverju öðru og betra.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2008