Beint í efni

Þungi eyjunnar

Þungi eyjunnar
Höfundur
Virgilio Piñera
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

„Nóttin er mangó, hún er ananas, hún er jasmína“ (bls. 25)

Þetta er sá tónn sem við þráum í suðrænum kvæðum, ofgnótt ávaxta og framandi jurta á hlýrri sumarnótt. Við Íslendingar fáum nóg af grámyglu og hörku á okkar hrjóstruga skeri og vonumst því kannski eftir litríkum gróðri, fallegum ströndum og ljúfum sólargeislum þegar við lesum ljóð kúbanskra skálda. En Þungi eyjunnar er ekki skrifuð fyrir aðkomumenn, hún kryfur fallegu hitabeltiseyjuna til mergjar og sýnir að lífið er ekki eintómur dans á rósum á Kúbu. Fallegum sólarströndum og áhyggjulausu lífi er sópað burt og hulunni er svipt af lífinu í paradís. Í meðförum skáldsins verður paradísin einungis merkingarsnauð glansmynd en stormakennd saga eyjunnar kraumar undir.

Þungi eyjunnar er fyrsta verkið eftir kúbanska skáldið Virgilio Piñera (1912-1979) sem kemur út á íslensku. Piñera var fjölhæft skáld sem skrifaði leikrit, ljóð, smásögur og esseyjur ásamt því að taka þátt í tímaritaútgáfu. Hann var eitt þekktasta skáld Kúbu á sínum tíma en eftir að komast upp á kant við Castro féll hann hægt og rólega í gleymsku. Þrátt fyrir að vera á skjön við yfirvöld var Piñera aldrei sendur í fangabúðir. Hins vegar var lítið sem ekkert gefið út af verkum Piñera undir lok ævi hans og hann var að mestu sniðgenginn af menningarlífi Kúbu. Þungi eyjunnar er með þekktari ljóðum Piñera en verk hans hafa verið enduruppgötvuð í seinni tíð.

Í íslensku útgáfunni má ekki aðeins finna ljóðið sjálft, sem spannar rúmlega tuttugu blaðsíður, heldur einnig eftirmála ritaðan af þýðandanum, Kristínu Svövu Tómasdóttur. Kristín, sem er sjálf ljóðskáld, fer yfir sögu höfundarins, eiginleika ljóðsins og þýðinguna. Eftirmálinn er greinagóður án þess að verða of fræðilegur. Lesandinn fær skýrari mynd af því hvað liggur á bakvið textann og hvaða upphverfi hann spratt upp úr. Varpað er ljósi á jaðarstöðu Piñera í samfélaginu, jafnvel innan róttækari hópa, vegna kynhneigðar og trúleysis hans. Í Þunga eyjunnar afhelgar Piñera hið háleita og upphafna með því að svipta Kúbu hinni trúarlegu paradísarímynd og skrifar þess í stað með strípuðum stíl um hið holdlega og efnislega í tilvist Kúbverja. Hann neitar að taka þátt í að upphefja lífið á eyjunni með skrúðugu myndmáli og sýnir þess í stað sína raunverulegu upplifun af Kúbu.

Í eftirmálanum fjallar Kristín einnig fram vandkvæði þess að þýða titil verksins. Nafn ljóðsins á upprunalega tungumálinu er La isla en peso, sem Kristín bendir á að geti einnig útlagst sem Eyjan eins og hún leggur sig. Sumar þýðingar hafa frekar dregið fram þessa hlið verksins, líkt og þýðing Mark Weiss, The Whole Island (2010), sem Kristín hafði til hliðsjónar við sína þýðingu. Vissulega er það greinilegt að ljóðið eigi að ná utan um sögu Kúbu og draga fram kjarna hennar, en það getur seint talist vera sérkenni ljóðsins.

Nýjung og kraftur ljóðsins á sínum tíma, árið 1943, fólst í því hvernig Piñera nálgaðist söguna og tálgaði af henni flúrið. Eftir lestur bókarinnar er erfitt að sjá fyrir sér annan titil en Þungi eyjunnar þar sem sýn Piñera á samfélag Kúbu er þrúgandi. Piñera horfir á kúbanskt samfélag með gagnrýnum augum og sýnir fram á óréttlætið sem hefur litað sögu eyjunnar, ekki aðeins kúgandi stjórn Spánverja heldur einnig hvernig Evrópumenn rústuðu samfélagi innfæddra.

Í þessum hrærigraut óréttlætis dofnar fegurð kristaltæra Karíbahafsins og gjöful náttúra eyjunnar. Ljóðmælandinn í ljóði Piñera þráir ekkert heitar en að losna við hafið, fella endalausa múrinn sem lokar eyjarskeggja inni. Frjósemi og gjafir eyjunnar verða einnig birtingarmyndir óhófs og græðgi, allt frá upphafi ljóðsins:

Bölvuð nálægð alltumlykjandi vatnsins
þvingar mig til að sitja við borðið á kaffihúsinu.
Ef ég héldi ekki að vatnið umlykti mig eins og krabbi
hefði ég getað sofið eins og steinn.
Meðan strákarnir fóru úr fötunum fyrir sundið
dóu tólf manns í herbergi einu úr þrengslum.
Þegar betlikerlingin hrasar ofan í vatnið í dögun,
á sama andartaki og hún þvær aðra geirvörtuna,
venst ég óþefnum við höfnina,
venst ég konunni sem fróar varðmanninum undantekningalaust
nótt eftir nótt meðan fiskarnir sofa.
Kaffibolli megnar ekki að bægja frá þeirri meinloku
að áður hafi ég lifað í paradís.
Hvað olli umskiptunum?
(bls. 7)

Náttúrunni hefur verið spillt af græðgi og neyslu mannsins að mati ljóðmælandans. Tær eyjan er flekkuð af óhófinu sem fylgir breyskleika mannsins. Sólskin, sem ætti að teljast jákvætt, skellur einnig á eyjunni með offorsi og birtan tekur eyjuna yfir með valdi. „Heil þjóð getur dáið úr ljósi rétt eins og plágu“ (bls. 20). Það er flókið að ná utan um hugmyndir ljóðmælandans um náttúru eyjunnar. Stanslausar upptalningar úr fjölskrúðugu gróðurlífi eyjunnar ýta undir draumkennda ímynd en um leið er frjósemi eyjunnar tröðkuð niður í svaðið. Það er líkt og ljóðmælandinn trúi á hreinleika birtu og náttúru, en álasi þeim um leið fyrir að ýta undir og taka þátt í græðgi mannsins. Þrátt fyrir svartsýni sem virðist umlykja ljóðmælandann má sjá glitta í von, þegar nóttin skellur loks á.

Nóttin er mangó, hún er ananas, hún er jasmína,
nóttin er tré sem stendur andspænis öðru tré án þess að hreyfa greinarnar,
nóttin er ilmandi löðrungur á kinn skepnunnar;
dauðhreinsuð nótt, nótt án villuráfandi sálna,
án minninga, án sögu, Vestur-Indíanótt;
nótt sem Evrópumaðurinn truflaði,
aukapersónan óumflýjanlega sem skilur eftir sig sinn víðkunna skít,
staldrar við í mesta lagi í fimmhundruð ár, eitt andvarp á vegferð
vesturindísku næturinnar,
æxli sem lýtur í lægra haldi fyrir lykt vesturindísku næturinnar.
(bls. 25)

Á nóttunni er eyjan, og um leið þjóðin, örugg fyrir hömlulausri athafnasemi mannskepnunnar. Á nóttunni losnar einnig ilmurinn úr læðingi sem fyllir heita og raka karíbaloftið, endurreisn þess sem aðkomumenn eyðilögðu.

Þungi eyjunnar öflugt kvæði sem dregur fram kjarnann í sögu lands og þjóðar með áhrifamiklum hætti. Grípandi lýsingar lita, lykta og trega erta öll skynfæri og hrífa lesandann með sér í kæfandi mollu eyjunnar. Þýðingin og eftirmálarnir eru vel heppnuð og veita ljóðinu aukið líf ásamt því að gera það aðgengilegra lesendum. Þungi eyjunnar mun án efa kveikja áhuga margra á skáldskap Piñera og vonandi verður það fyrsta verkið af mörgum sem við munum fá að njóta á íslensku.

Már Másson Maack, mars 2017