Beint í efni

Sykur

Sykur
Höfundur
Katrín Júlíusdóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Höggið var svo þungt. Alveg firnaþungt. Svo komu spörkin. Hvað voru þau eiginlega mörg? Ég verð að komast héðan og laga þetta. Ég hef oft kallað fram reiði annarra. En aldrei svona. Þessi reiði var yfirnáttúrleg. Hatursfull.
Mér finnst birtan á himninum minnka. Hún minnkar ekki vegna þess að það dragi úr sólinni heldur lífinu. Mínu lífi. (6)

Lík finnst í fjörunni austan við Stokkseyri. Berfættur maður í jakkafötum liggur á bakinu í grjótinu við fjöruborðið. Lögreglumennirnir sem eru fyrstir á vettvang eru fljótir að bera kennsl á líkið: Óttar Karlsson, umsvifamikill starfsmaður í fjármálaráðuneytinu. Málið mun vekja mikla athygli, svo lögreglan þarf hafa hraðar hendur að finna morðingjann.

Þannig hefst fyrsta skáldsaga Katrínar Júlíusdóttur, Sykur, og fljótlega hrekkur af stað snörp atburðarás. Sigurdís Hölludóttir, 29 ára lögreglukona, hefur verið föst í pappírsvinnu síðan hún gekk of langt í handtöku á manni sem hafði gengið í skrokk á kærustunni sinni. Hún ólst sjálf upp við slæmt heimilsofbeldi og missti stjórn á sér og hélt fantinum í kyrkingartaki og kýldi hann af öllum kröftum í andlitið. Sálfræðingur lögreglunnar hefur loks útskrifað hana og hún tekur þátt í morðrannsókninni. Hún finnur falið öryggishólf í íbúð fórnarlambsins sem inniheldur fjölda skjala um leyndardómsfullt líf fórnarlambsins og leiðir rannsóknina á óvæntar slóðir.

Glæpasögur standa oft og falla með tveimur meginatriðum: aðalpersónu og fléttu. Aðalpersónan gefur fléttunni lit og ákvarðar með hvaða hætti vísbendingar málsins eru kynntar fyrir lesendum, hvað kryddar kaflanna milli skrefa í lausn ráðgátunnar og hversu spenntur lesandinn er fyrir mögulegu framhaldi. Sykri tekst vel til með þessa meginstoð glæpasögunnar. Í stað stereótýpunnar um fúllyndan, fráskilinn rannsóknarlögreglumann sem man sinn fífil fegurri (reyndar nýverið nokkuð á undanhaldi), er aðalpersóna Katrínar hin bráða en jafnframt næma Sigurdís. Faðir hennar beitti hana ofbeldi í æsku en hann komst allt of lengi upp með ódæðisverk sín vegna stöðu sinnar innan lögreglunnar. Fortíð Sigurdísar og hvernig hún litar störf hennar sem lögreglukonu er sett fram á afar skýran hátt og blandast lipurlega við fléttu verksins eftir því sem á líður. Það er líka skemmtilegur töggur í Sigurdísi sem anar áfram og hugsar ekki of mikið út í reglurnar ef hún trúir því að það sem hún er að gera sé hið rétta í stöðunni. Þetta er kannski ekki nýstárlegt minni í glæpasögum en fær skemmtilegan blæ í meðför Katrínar þar sem Sigurdís er reynslulítil og valdalaus innan lögreglunnar. Hún þarf því ekki aðeins að leysa glæpinn, heldur líka sanna sig fyrir samstarfsmönnum sínum. Hennar helsta vopn til að komast að sannleikanum með sínum eigin leiðum er að nýta sér samviskubit yfirmanns síns og lærimeistara, Garðars, sem vann áður með ofbeldisfullum föður hennar. Reynsluleysi og óbilandi trú Sigurdísar gefur frískandi sjónarhorn og á stundum skemmtilega mikið sameiginlegt með lesendum glæpasagna. Mörg okkar eru vafalaust farin að trúa því eftir ofneyslu glæpaþátta og spennusagna að við myndum standa okkur prýðilega sem rannsóknarlögreglumenn (ekki samt láta á það reyna) og Sigurdís ber vott af því þegar hún hefur sína fyrstu rannsókn — þó hún eigi töluvert meira erindi en við meðaljónarnir.

Til að mynda tekur hún eftir snyrtilegum fataskáp fórnarlambsins sem er fullur af fínt upprúlluðum bindum og dýrum skyrtum í plasti. Hún dregur ályktanir sem falla ekki alveg í kramið á sjóaðri lögreglumönnum sem eru gjarnir að minna hana á að hún sé nýgræðingur í rannsóknum:

   „Ætli hann hafi nokkurn tíma notað þvottavél, maðurinn?“
   Garðar leit á hana. „Hvernig sérðu það?“
   „Nú, ég get ekki ímyndað mér að hann hafi haft tíma til að strauja allt og brjóta svona saman. Hef sjálf nokkrum sinnum prófað svona þvottaþjónustu áður en ég keypti mér þvottavél og þetta er sama lykt og sami frágangur.“
   „Það er nú samt varla það sem drap hann. Ég ætla að kíkja á skrifstofuna hans. Kannski er eitthvað af pappírum þar sem gætu komið okkur á sporið,“ sagði Garðar og gekk út.
   Sigurdísi hitnaði í kinnunum yfir þessari athugasemd, en sat á sér og sagði ekkert. Líklega hafði hún horft of mikið á Criminal Minds þar sem allt gekk út á að nota smæstu atriði til að skapa skýra mynd af fórnarlambinu og síðan gerandanum. Garðar var greinilega ekki á þeim buxunum og kannski var það að fenginni reynslu af morðmálum sem hann hafði unnið að. (52)

Stundir sem þessar innan verksins létta stemninguna milli átakanlegri atburða og vekur meiri samkennd hjá lesandanum með Sigurdísi. Þrátt fyrir að bókin sé langt frá því að vera bundin við persónu Sigurdísar — endurlit og frásagnir ýmissa persóna sem tengjast málinu koma fyrir og lesandinn fær að fylgja öðrum en Sigurdísi í mörgum köflum bókarinnar — þá er viðhorf hennar og baksaga án efa einn af styrkleikum verksins. Fjölskyldusaga Sigurdísar verður meira áberandi eftir því sem líður á verkið og myndar spennandi atburðarás samhliða morðrannsókninni. Þeirri sögu er langt frá því að vera fulllokið og gerir lesandann spenntan fyrir mögulegu framhaldi.

Grípandi aðalpersóna er mikilvæg í glæpasögum, sérstaklega í heilum bókaflokkum, en fyrir einstaka verk er fléttan aðalmálið og Katrínu gengur prýðilega upp með hana í Sykri. Úrlausn morðsins er að stórum hluta byggð á því að kafa ofan í dularfullt líf fórnarlambsins og persónu þess. Óttar er fyrir flestum framúrskarandi manneskja. Hann er bráðsnjall og heillandi og á tímabili kallaði stór hluti þjóðarinnar eftir að hann færi í framboð vegna ötullar baráttu fyrir gagnsæi eftir hrun. En í stað þess að sækjast eftir glamúr pólitíkunnar og fór hann óvænta leið með því að gerast starfsmaður hjá fjármálaráðaneytinu, í raun að glíma við sömu vandamálin án þess að fá opinberlega viðurkenningu fyrir. Óþægilega fullkomin íbúð Óttars með sínum upprúlluðu bindum á aftur á móti margt sameiginlegt með lífi hans, þar sem ýmislegt getur leynst undir fallegu yfirborðinu. Fljótlega kemur í ljós að saga Óttars teygir anga sína í ólíka kima íslensks stjórnkerfis, fjármálalífsins og nær alla leið til Bandaríkjanna

Þegar ég las kaflana sem snéru að störfum Óttars í ráðuneytinu komst ég ekki hjá því að hugsa til innsýnar Katrínar sjálfrar sem fyrrverandi ráðherra og þingmanns. Vitandi það að höfundurinn þekkir kerfið út og inn veitir þeim köflum meiri vigt, en samt sem áður er ljóst að skemmtanagildi og hvernig sú innsýn þjónustar heildarplottið er í fyrirrúmi. Eins og góðri spennusögu sæmir koma þræðir verksins saman með ófyrirsjáanlegum — en samt sem áður fullnægjandi — hætti í lokin, en áður en ráðgátan er leyst eiga þó nokkrar óvæntar vendingar sér stað. Eftir að klára bókina má sjá örlitla hnökra í plottinu og kannski eilítið stílbrot hvað varðar hvaða upplýsingar eru kynntar, en á heildina litið er lesandinn ekki afvegaleiddur með ósanngjörnum hætti og uppbygging verksins heldur háu og hrífandi tempói allt fram á lokasíðu.

Ekki er mikið lagt í að reyna vekja ákveðna stemningu eða andrúmsloft í verkinu, þess í stað fær atburðarásin að tala sínu máli. Jákvæð aukaafleiðing þessarar nálgunar Katrínar er að hún fellur ekki í gryfju „sjálfs-exótíseringar“ norrænna rökkursagna. Í stað þess að velta sér upp úr drunga skammdegisins, einmanalegum eyðifjörðum eða blóðrákum í snjónum fjallar Sykur um morð að sumri til — án þess að miðnætursólin sé allsráðandi — og gerist mestmegnis í Reykjavík. Panama-skjölin og aðstæður eftir hrun veita líka smá bakgrunn fyrir hluta bókarinnar án þess þó að taka yfir frásögnina. Öll þessi atriði saman gera það skýrt að þetta er einfaldlega spennusaga fyrir Íslendinga og það getur verið ákveðin léttir að vera loks lesandinn sem bókin er ætluð.

Sykur er prýðileg frumraun, þrátt fyrir að vera ekki algjörlega gallalaus. Til viðbótar við smávægilegar misfellur í fléttunni stuðaði orðfærið mig á köflum, eins þegar og Sigurdís lýsir ofbeldisfullum föður sem sínum eigin „Voldemort“ og vísar til óhefðbundins framtaks síns í rannsókninni ítrekað sem „flippi“ í sömu andrá og að nota stirð orð eins og „þrákelkni“. En á heildina litið er Sykur fínasta verk og góð afþreying. Þegar ég teygi mig í krimma sækist ég eftir því að kjammsa á góðri afþreyingu, eins og að stelast í nammipoka, og Sykur ætti að vera mörgum nammigrísum að skapi. Í lok bókarinnar er gefinn möguleiki á framhaldi og auðvelt er að sjá fyrir sér bókaseríu með Sigurdísi í fararbroddi, styrkta af djúpri þekkingu Katrínar á íslenskum valdastrúktúr ásamt hugmyndaflugi í fléttugerð.

 

Már Másson Maack, nóvember 2020