Beint í efni

Svínshöfuð

Svínshöfuð
Höfundur
Bergþóra Snæbjörnsdóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

 

Fyrstu dagana eftir atvikið með strákinn var eins og náttúruhamfarir hefðu átt sér stað, eins og ofsafenginn stormur hefði gengið yfir bæjarfélagið og rifið í sundur hvert einasta hús. Þögn lagðist yfir þorpið. Sama óbærilega, nagandi þögnin og Svínshöfuð mundi eftir úr eyjunni þar sem hann ólst upp, dagana áður en þau fluttu í land. (9)

Svínshöfuð vaknar í svitakasti í skítugu og óreiðukenndu húsinu sínu með nafn stráksins á vörum. Enn eitt árið hefur mjakast áfram og strákurinn á afmæli, en með hverju árinu verður minna og minna eftir af honum. Þrátt fyrir háan aldur og bæklaðan fót dregur Svínshöfuð illa lyktandi líkama sinn á fætur og fer með afmælisköku á spítalann, þar sem strákurinn hefur legið í dái allt frá ,atvikinu’.

Þannig hefst Svínshöfuð, fyrsta skáldsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, en áður hefur hún gefið frá sér textasafnið Dagar undrabarnsins eru á enda (2013) og ljóðbækurnar Daloon dagar (2011) og Flórída (2017) sem tilfnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Svínshöfuð er gamall og þjakaður maður sem hefur greinilega gengið í gegnum margt og þegar við lesendur kynnumst honum virðist ekkert nema sársaukinn vera eftir. Strákurinn mun aldrei vakna aftur og María móðir hans og ástin í lífi Svínshöfuðs er látin, en hún gaf honum viðurnefnið sem hann endaði með að halda svo mikið upp á. Í upphafi verksins er erfitt að ráða í samband þeirra en smám saman kemur í ljós hvernig María og sonur hennar fluttust frá Kína og enduðu í litlu þorpi á Íslandi, hjá óþrifalegum manni með vanskapaðan fót og gríðarstórt höfuð.

En áður en samtíminn og aðstæður í upphafi sögunnar eru útskýrðar að fullu stekkur Bergþóra langt aftur í tímann og segir frá erfiðu lífshlaupi Svínshöfuðs og fjölskyldu hans á lítilli eyju í Breiðafirði, allt frá fæðingu til hans eldri ára. Ég verð að viðurkenna að sögusviðið kom mér á óvart í fyrstu. Eftir sprengikraftinn sem Bergþóra sýndi í Flórída, sem segir frá kynnum ljóðmælandans og fyrrum rokkstjörnu í Berlín, var mér brugðið að hún skyldi byrja fyrstu skáldsögu sína á að draga mig með í för út í einangraða sveit fyrir seinna stríð. Ég leita ósjálfrátt til nýrri og yngri höfunda til að segja nýjar og ferskar sögur — eins og í Flórída — eða lýsa samtímanum og upplifunum sem standa mér nær. En enginn getur verið vonsvikinn með skrif Bergþóru í Svínshöfði sem eru víðsfjarri því að vera leiðingjarn og langdreginn texti um hrúta og vosbúð. Lífróður fjölskyldu Svínshöfuðs út í eyjunni er vissulega erfiður og þau þurfa að stunda sjálfsþurftarbúskap og sjómennsku til að þrauka, en ég hef sjaldan lesið jafn grípandi lýsingu á þessum sterku íslensku bókmenntaminnum. Eins og þegar því er lýst hvað bræður Svínshöfuðs þurftu að þola þegar þeir byrjuðu að fara á sjóinn, aðeins sjö ára gamlir:

Þeir krossuðu sig áður en þeir renndu stakknum yfir höfuðið, runnu til á blautum klöppum á leið niður í bátinn, laumuðust til að sjúga blautan ullarvettling á meðan mótorinn malaði, muldruðu sjóferðabænina sem pabbi þeirra heimtaði að þeir færu með, enn með stírur í augunum, hölluðu sér í átt frá sjónum sem sleikti andlit þeirra, reyndu að hugsa ekki um sjóndeildarhringinn og hvað biði þar. Kúguðust og kúguðust í ölduganginum, hræktu ælunni út í sjóinn, stungu sig á önglunum svo blæddi úr fingrum þeirra, horfðust í augu við glansandi svartar perlur sem féllu úr gapandi augntóftum fiskanna. (25-26)

Hraði og áfergja einkenna textann og myndrík orð á borð við augntóftir, ælu og blóð skjóta oft upp kollinum og stuða lesandann mátulega. Þrátt fyrir að þrá ekkert heitar fékk Svínshöfuð aldrei að fara á sjó með bræðrum sínum vegna fótarins, en það er einmitt eitt af dæmum þess hversu mikill snillingur Bergþóra er þegar kemur að því fjalla um og draga fram sársauka. Að lesa um endalaus áföll gæti verið þreytandi, en Bergþóru tekst ótrúlega vel til við að leyfa lesandanum að finna fyrir nístandi eymd án þess að lama hann eða gera hann fráhverfan verkinu.

Svínshöfuð vissi frá fyrstu tíð að hann væri gallað barn. Meira að segja mamma hans hafði næstum því dáið af því einu að hafa hann í kvið sínum. Hann var eitur. Skömmin var eins og gall í kokinu á honum. Allir aðrir en Ingibjörg voru sannfærðir um að Svínshöfuð væri vanviti. Hann var með afbrigðilega stórt höfuð og fékk ekki hár á það af neinu viti fyrr en á fjórða ári. Hann gat ekki hlaupið. Svínshöfuð var misheppnuð tilraun. (34)

Að fylgjast með vanmætti Svínshöfuðs vegna fötlunar sinnar og máttleysi fjölskyldunnar gagnvart heiminum fyllti mig sérkennilegri lotningu. Röð áfalla sem dynja á persónum bókarinnar eru átakanleg en ríghalda líka í lesandann af slíkum krafti að það er varla hægt að leggja bókina frá sér. Þrátt fyrir hráslagalegt yfirborð Svínshöfuðs og fráhrindandi eiginleika hans var auðvelt að verða heltekinn af lífi hans — en svo skipti sagan skyndilega um sjónarhorn.

Í seinni hluta verksins fáum við sjónarhorn tveggja annarra persóna sem tengjast Svínshöfði en eru gjörsamlega ólíkar honum. Líkt og hjá Svínshöfði fáum við að kynnast lífshlaupi þeirra og upplifa sársaukann sem þær verða fyrir, en smám saman fær lesandinn betri mynd af því hvernig atburðirnir tengjast og hvert ,atvikið’ var. Þegar þungamiðja frásagnarinnar færist sést færni Bergþóru bersýnilega, þar sem hún viðheldur sama krafti og í fyrra hlutanum um Svínshöfuð. Hún er ótrúlega næm á persónusköpun og það er unun að lesa glefsurnar úr lífshlaupi persónanna sem hún raðar saman til að mynda djúpa og heilsteypta mynd af þeim. Sagan er langt frá því að vera létt lesning en Svínshöfuð er frábærlega vel heppnað verk sem skrifað er af leiftrandi snerpu. Bergþóru tekst að draga fram gífurlega sterkar upplifanir af óréttlæti lífsins á listilegan máta sem veldur því að það er varla hægt að sleppa takinu af sögunni fyrr en henni er lokið. Það er enginn byrjendabragur á bók Bergþóru og ég ætla biðla til hennar að skrifa fleiri skáldsögur — allir sem komast í kynni við þessa bók munu vilja meir.

 

Már Másson Maack, nóvember 2019