Beint í efni

Strá og Sjálfsstýring

Strá og Sjálfsstýring
Höfundur
Birnir Jón Sigurðsson
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Smásögur
Strá og Sjálfsstýring
Höfundur
Guðrún Brjánsdóttir
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Vera Knútsdóttir

Nýjar raddir er heitið á nýlegri handritasamkeppni Forlagsins en samkeppnin fór fram fyrst á tíu ára afmæli útgáfunnar árið 2017. Í fyrstu var um að ræða rafbókasamkeppni en síðar hafa verðlaunabækurnar einnig komið út á prenti. Tilgangur keppninnar virðist vera að draga nýja höfunda fram í dagsljósið en þátttakendur mega ekki hafa gefið út „fleiri en eitt prósaverk áður hjá atvinnuforlagi“. Þá er beðið sérstaklega um styttri texta, safn smásagna eða skáldsögu í styttri kantinum, það sem oft hefur verið kallað nóvella. Einnig er tekið fram að sagan eigi að vera fyrir fullorðna. Vinningshafinn hlýtur samning við útgáfuna, fyrirframgreiðslu upp á 100.000 kr, ritstjórn og kynningu. Ekki er annað hægt en að hrósa Forlaginu fyrir gott framtak og þarft, en um leið má líka velta fyrir sér hvort samkeppnin sé ekki einnig tilvalin leið fyrir útgáfuna til að halda sér ferskri, hleypa nýju blóði í húsið og verða ekki meginstraumi útgáfubransans með öllu að bráð. Hingað til hafa ungir óþekktir höfundar fengið verk sín frekar gefin út hjá grasrótarútgáfum sem hafa skotið upp kollinum á undanförnum árum. Þetta eru lítil forlög eins og Tunglið, Meðgönguljóð og Una útgáfuhús sem fylgja fordæmi hins ógleymanlega Nýhil sem starfaði um árabil.

Árið 2018 hlutu þrjár bækur hnossið: Undir yfirborðinu eftir Tönju Rasmussen, Tinder Match eftir Hörð Andra Steingrímsson og Allavega eftir Ernu Agnesi Sigurgeirsdóttur. Hér ætla ég að fjalla um verðlaunaverk síðustu tveggja ára en það er annars vegar smásagnasafnið Strá eftir Birni Jón Sigurðsson, frá 2019, og skáldsagan Sjálfstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur sem er verðlaunasaga þessa árs.

Strá eftir Birni Jón Sigurðsson

„Döggin þykknar á grasinu og ég sé för eftir sporin mín í því. Ég blotna í fæturna. Ég geng niður að læk og horfi á dalalæðuna læðast eftir honum í átt til mín. Hún hefur beðið eftir mér. Það fer kunnuglegt kitl niður eftir hryggjarsúlunni. Bakið er sterkt, hugurinn skýr. Ég sest á döggvotan lækjarbakkann, loka augunum og hlusta á fuglana syngja við undirspil lækjarins.“ (112)

Smásögusafnið Strá eftir Birni Jón Sigurðsson geymir sögur af fólki en hver saga minnir á karakterstúdíu þar sem lesendur kynnast einni miðlægri aðalpersónu og horfa á söguheiminn með hennar augum. Titill verksins vísar í þessar sögupersónur sem eru eins og strá í vindi sem undirstrikar fallvaltleika og varnarleysi mannlegs lífs. Að sama skapi vísar titillinn einnig í þá miklu umhverfisáherslu sem skynja má í sögunum, þar sem athyglin beinist oft að manninum eða konunni andspænis náttúrunni, en einnig náttúrunni í manninum eða konunni.

Í fyrstu sögunni kynnumst við Sóleyju, húsgagnasmið eða viðgerðakonu, sem býr með eiginmanni sínum, fræðimanni, í húsi sem hún erfði eftir afa sinn. Húsið verður að skemmtilegri myndlíkingu fyrir samlífi ólíkra eiginleika og einstaklinga, þar sem ólíkir lífshættir koma saman og mynda einhvers konar fullkomna heild jarðtengingar og um leið upphafinnar visku; fræðimaðurinn stundar fræðimennskuna uppi á loftinu en viðgerðakonan vinnur í kjallaranum. Saman sinna þau grunnþörfunum á miðhæðinni, snæða í eldhúsinu og sofa í svefnherberginu - því fræðimenn og handverksmenn þurfa jú báðir (bæði) að nærast og hvílast.

Þá spegla sumar sögurnar hvora aðra eða kallast á. Þetta á við um „Fossbúann“, sem fjallar um náttúruverndarsinna annars vegar, og „Stingur“ sem segir frá virkjanasinna hins vegar. Sá fyrrnefndi heldur einn og óstuddur upp á hálendi til að trufla vinnuvélar með nærveru sinni, hann upplifir sig reyndar vanmáttugan gagnvart þeim en tengist náttúrunni sterkum böndum. Í seinni sögunni fylgjumst við með manni sem kallast Hector og „er forstjóri fyrirtækis sem sérhæfir sig í virkjunum á orku“ og þrátt fyrir að ímynd fyrirtækisins sé góð á markaðnum, og það flokkað sem umhverfisvænt og sjálfbært, finnur Hector fyrir sting í hjartanu, sem breiðir hægt og rólega úr sér og breytir honum að því virðist að lokum í stein.  Sagan minnir um margt á ógleymanlegt absúrdleikrit Eugene Ionesco, Nashyrningana (1959), en þó með íslensku náttúruverndar-tvisti. Í leikriti Ionesco var það ómennska sögupersónanna sem breytti þeim í nashyrninga, sá fyrsti sem breyttist var dæmigerður kerfiskarl sem lifði fyrir vinnuna og hélt á stresstösku allan daginn og alla daga, en sá sem varð síðastur nashyrningur var drykkfelldi iðjuleysinginn í hópnum sem vildi helst sitja á kaffihúsum og fylgjast með mannlífinu allan daginn, var alltaf í ástarsorg, þunnur og illa upplagður. Í sögu Birnis hefnist virkjanasinnanum fyrir að hafa fjarlægst ræturnar, náttúruna, og fyrir að meta umhverfið út frá gróðasjónarmiðum  og hagsmunum hins kapítalíska markaðar.

Tilvitnunin í upphafi er úr síðustu sögu safnsins sem nefnist „Garðyrkja“. Hún fjallar um garðyrkjumann sem hugmyndalega er staðsettur einhvers staðar á milli verndunarsinnans og virkjunarsinnans. Hann lætur sér fátt finnast um pólitík og gróða, flýtur bara áfram með straumnum en nýtur þess að vinna úti undir beru lofti, stinga höndunum í moldina og fylgjast með ormunum. Og hann er hamingjusamur; lifir í sátt við og með náttúrunni sem gefur til kynna að ef til vill er það líf, þar sem bæði manninum og umhverfinu er gert hátt undir höfði, farsælast?

Sögurnar í smásagnasafninu eru misjafnar, flestar skemmtilegar, sumar dálítið stefnulausar og minna á ritæfingar en það er viðbúið þegar um ræðir handritasamkeppni ungra höfunda. Það sem heillaði þennan lesanda var náttúru- og umhverfisþemað, sem skírskotar sterkt til brýnna málefna samtímans, en einnig frásagnargleðin, gáskinn og galsinn í textanum – höfundur skemmtir sér vel og örugglega flestum lesendum sínum í leiðinni.

Sjálfstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur

„Um nóttina dreymir mig prelúdíu og fúgu í d-moll úr fyrsta hefti eftir Jóhann Sebastían Bach. Prelúdían er glóandi hraunkvika sem flæðir yfir heilt land og ég er undir henni. Fúgan er yndislegt algleymi flóttans sem segir mér að allt sé eins og það eigi að vera.“ (29)

Verðlaunasaga ársins 2020, Sjálfstýring eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, er löng smásaga eða stutt skáldsaga, og afar samtímaleg, með sterka vísun í #metoo-byltinguna, en einnig önnur mál sem eru ofarlega á baugi í samtímanum eins og vegan-sörubakstur fyrir jól. Hún er vel skrifuð, áhugaverð og á brýnt erindi við samfélag okkar, og myndi því sóma sér vel á leslistum nemenda í efstu bekkjum grunnskóla eða fyrstu bekkjum framhaldsskóla. Sagan segir frá ungri konu í Reykjavík samtímans sem verður fyrir kynferðisofbeldi, er nauðgað, en er lengi að átta sig á atburðinum og áhrifum eða afleiðingum hans. Hér er mikið lagt upp úr því að gera aðalpersónuna sem „eðlilegasta“, til að lesendur tengi auðveldlega við hana og skilji umfang vandans; það getur öllum verið nauðgað, líka ofurvenjulegum stúlkum sem búa í Vesturbæ Reykjavíkur, eru nýlega byrjaðar í íslensku í Háskóla Íslands og stunda nám í klassískum söng.

Vísanir í klassíska tónlist, eins og í textabrotinu hér að ofan, eru allmargar og stýra uppbyggingu sögunnar sem minnir á tónverk og skiptist í prelúdíu, fúgu, kantötu og tokkötu. Á einum stað eru þessar vísanir útskýrðar að hluta til: „Á ítölsku er toccata lýsingaháttur þátíðar í þolmynd, kvenkyni, eintölu af sögninni „snerta“ og fúga þýðir „flótti““ (40). Aðalsöguhetjan kemur úr tónlistarfjölskyldu þar sem allir eru klassískt menntaðir, foreldrarnir hlæja eins og trompet og víóla, og við lesendur fylgjum henni þegar hún fer í inntökupróf í óperusöng til Kaupmannahafnar.

Þeim sem ekki eru innvígðir í heim klassískrar tónlistar gæti þótt nóg um þessar vísanir, en fyrir utan að skapa sögunni stemmningu og ramma, þjóna þær þeim tilgangi að staðsetja sögupersónuna í tíma og rými og ekki síst í stétt – hún er eins og hún segir sjálf „forréttindaseggur“ úr menntaelítunni í Vesturbænum, sem kemur þó ekki í veg fyrir að hún verði fyrir barðinu á kynferðisofbeldi.

En hvað er nauðgun? Í fyrstu er stúlkan ekki viss hvort hún geti kallað það ofbeldi sem hún varð fyrir nauðgun en áhrif ofbeldisins eru ótvíræð; hún hefur orðið fyrir áfalli og er í sjokki, er eins og á sjálfstýringu því tilfinningarnar eru allar í hnút. Hún upplifir vanlíðan, ótta og kvíða og álasar sjálfri sér. Eftir tímabil óvissu og vafa er hún tilbúin til að stíga skrefið og takast á við vandann, segja frá og leita réttlætis. Hér fylgjumst við með söguhetjunni vinna úr sínum málum, greina það sem gerðist, greina gerandann sem geranda og átta sig á að ábyrgðin liggur hjá honum, ekki henni, segja sínum nánustu frá, fara með systur sinni, sem einnig hefur upplifað kynferðisofbeldi, að hitta ráðgjafa hjá Stígamótum, mæta gerandanum augliti til auglitis og segja honum til syndanna í fylgd með góðri vinkonu. Sagan fylgir því ákveðnu frásagnarmynstri, sem hugtökin úr tónlistinni lýsa, og gæti í fljótu máli útlagst á eftirfarandi hátt: tráma – afneitun og flótti – horfst augu við vandamálið – lausn, sem við fyrstu sýn gæti virkað ákveðin einföldun, auðvitað er ekki hægt að takast á við öll kynferðisofbeldismál með sama hætti, en hér er mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að takast á við svona mál, koma þeim í ákveðinn farveg og leita réttlætis.

Fyrsta skrefið er að segja frá en aðalsöguhetjan veltir til dæmis fyrir sér hvort að ömmu hennar, sem deyr í hárri elli í sögunni, hafi verið nauðgað en aldrei fengið uppreisn æru og sagt frá. Kannski þess vegna sem hún var eins og hún var – bitur, erfið í samskiptum, reið, ófyrirsjáanleg og í sífelldum átökum og árekstrum við sína nánustu. Ólíkt ömmunni, sem tók sín leyndarmál með sér í gröfina, búum við í dag í samfélagi sem vill vera upplýst og réttlátt – sagan sýnir umfram allt að til þess að uppræta þennan vanda, ógn og viðbjóð í samfélaginu, þarf að mæta honum, tala um hann upphátt, ákæra og sækja til saka – láta þá sem bera ábyrgðina svara fyrir hana. Aðgerðaleysi og þöggun viðhalda annars status quo og ekkert breytist. Þetta eru mjög mikilvæg skilaboð til allra, óháð kyni og aldri, og þess vegna endurtek ég að bókin myndi sóma sig vel á leslistum í menntakerfinu því hún á bæði erindi við nemendur OG kennara.

Sambandsleysi er mikilvægt þema í sögunni, þá sérstaklega í upphafi þegar söguhetjan upplifir ákveðið rof á milli sín og umhverfisins, fólksins í kringum hana. Hún getur ekki talað um það sem gerðist og upplifir sig einangraða. Sambandsleysi er afar sterkt einkenni á nútíma samfélagi þar sem samfélagsmiðlar, sem eiga að færa fólk nær hvert öðru, hafa þveröfug áhrif, sundra fólki og dreifa athyglinni, gera það að verkum að við erum með athyglina á of mörgu í einu og jafnvel helst á einhverju sem er einhvers staðar langt í burtu og kemur okkur í raun lítið við. Þetta skapar þær aðstæður að við meðtökum ekki neitt af alvöru og gleymum að líta okkur nær; horfa í augu þess sem situr fyrir framan okkur og spyrja: hvernig hefur þú það? Og ekki aðeins spyrja af alvöru heldur einnig að hlusta á svarið og láta okkur það varða.

Sjálfstýring er saga sem ber vott um mikla hæfileika Guðrúnar Brjánsdóttur, hún er vönduð og sannfærandi, og vonandi líður ekki á löngu þar til við fáum aðra bók í hendur með hennar nafni.


Vera Knútsdóttir, október 2020