Beint í efni

Stormviðvörun

Stormviðvörun
Höfundur
Kristín Svava Tómasdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Ég iðaði af spenningi þegar ég frétti af því að Kristín Svava Tómasdóttir væri að gefa út sína þriðju ljóðabók Stormviðvörun. Ég kolféll fyrir stíl Kristínar Svövu fyrir átta árum þegar fyrsta ljóðabók hennar Blótgælur (2007) kom út og svo aftur í Skrælingjasýningunni (2011). Ljóðin einkenndust af frelsi, ádeilu og orðtaki ungu kynslóðarinnar. Þetta kann að hljóma klisjukennt en Kristín Svava skrifar án tilgerðar og orðaflúrs. Djammið, misheppnaðar unglingauppreisnir, stefnuleysi nýrrar kynslóðar, stórmennskubrjálæði Íslendinga og tilgerð aktívismans var meðal umfjöllunarefna Blótgæla.

Í fyrri ljóðabókum Kristínar Svövu mátti greina vísi af gegnumgangandi ljóðmælanda, rödd sem er endurtekin í gegnum verkið. Ljóðmælandinn er stúlka eða kona sem tekur þátt í óhófi neyslumenningarinnar en er um leið meðvituð um innihaldsleysi þess. Röddin er sterk og notar tungutak „netkynslóðarinnar“. Þegar ég fékk Stormviðvörun í hendurnar var það þessi persóna sem ég gat ekki beðið eftir að endurnýja kynni mín við – og ég varð ekki fyrir vonbrigðum.

Upphafsljóð Stormviðvörunar, „Böbblí í Vúlvunni“, hefst á tilvitnun í Eið Svanberg Guðnason, fyrrverandi sendiherra og alþingismann. Þar hneykslast hann á orðum kvenkyns fréttamanns sem segir fólk hafa skálað í böbblí. „Líklega átti stúlkutetrið við kampavín eða freyðivín“ (bls. 5). Ljóðmælandinn grípur hneykslun Eiðs á lofti og staðsetur sig með „stúlkutetrinu“. Ljóðmælandinn tilheyrir þeim sem segja „böbblí“ – þeim sem kynslóð Eiðs hneykslast á. Átök milli kynslóða eru því undirstrikuð strax í upphafi og ljóðmælandinn gengur enn lengra. Það er ekki bara böbblíið sem skilgreinir hana, hún byrjar að lofsyngja pizzur og súkkulaði-, osta-, kanil- og nutellagott frá dómínós sem öll íslensk ungmenni þekkja vel. Ljóðmælandi hafnar gildum fyrri kynslóða og upphefur óhófið, þrátt fyrir að vita að sú hamingja er fallvölt: „elskum þessa ofgnótt / elskum þessa siðmenningu og frumstæðar hvatir hennar / v(ið)erum ekki hreinlynd / vonum að heimurinn tortímist í neistaflugi frá millistykkinu“ (bls. 8). Mottóið virðist vera að fá allt sem við getum úr deginum í dag en skítt með morgundaginn. Mér hlýnaði um hjartaræturnar við að vera kominn aftur í samband við þennan hispurslausa ljóðmælanda.

Mörg ljóðanna í Stormviðvörun eru í þessum sterka stíl Kristínar Svövu, en þó ekki jafn mörg og í fyrri bókunum. Ljóðin „Það sem ekki má“ og „Ég dreg mörkin“ eru meðal þeirra sem gætu talist vera í þessum „sterka“ stíl en í heildina litið virðist Stormviðvörun vera rólegri og yfirvegaðri en fyrri ljóðabækur Kristínar Svövu. Þessi breyting vekur án efa blendar tilfinningar hjá aðdáendum Kristínar Svövu en þó skal tekið fram að fyrri bækur hennar voru langt frá því að vera einungis um hispurslausa ljóðmælandann. Sem dæmi um nýja strauma hjá Kristínu Svövu er hægt að skoða fortíðarljóðin „Passé“, „Passé 2: Tímarit.is“, „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista foríðarinnar“ og „Passé 4: Vér sigurvegarar“. Þessi ljóð hjálpa okkur að koma auga á breidd ljóðanna í Stormviðvörun. Þrátt fyrir að titlarnir vísi til samhangandi heildar milli ljóðanna er ósamræmið milli þeirra greinilegt.

Fyrsta ljóðið, „Passé“, virðist tilheyra nýjum röddum í ljóðum Kristínar Svövu. Í ljóðinu eru viðhorf fortíðarinnar sett í táknrænt samhengi við löngun mannsins til að komast til tunglsins árið 1969. „Passé“ sker sig út úr höfundarverki Kristínar Svövu að mínu mati þar sem það er mun ópersónulegra en flest ljóð hennar. Það vantar upp á tilfinninguna að það sé rödd á bakvið ljóðið, það virðist glata þeim krafti sem er eitt af einkennum Kristínar Svövu. „Passé 3: Rómantískt ljóð um kapítalista fortíðarinnar“ fer milliveginn og heldur í kraftinn en glatar einnig örlítið af persónuleika ljóðanna í fyrri bókum Kristínar Svövu. Ljóðin í Stormviðvörun eru afar misjöfn að mínu mati í gæðum. Það verður þó að hafa í huga að þetta er smámunaleg gagnrýni aðdáanda sem vill að höfundurinn standi í stað og reyni ekki að feta nýjar slóðir. Sannleikurinn er hins vegar sá að breytingar eru oft af hinu góða og það sama á við um nýjungarnar í ljóðum Kristínar Svövu.

„Stormviðvörun“, titilljóðið sjálft og síðasta ljóð bókarinnar, er hluti af þessum nýju og yfirvegaðari ljóðum. Ljóðmælandinn er nálægur og lesandinn finnur fyrir persónunni sem talar til manns. Þessi nýi ljóðmælandi á hins vegar við fyrstu sýn lítið skylt við öfgafulla og  óheflaða ljóðmælandann sem réði ríkjum í ljóðum Kristínar Svövu áður fyrr. Í „Stormviðvörun“ nær Kristín að búa til myndræna sviðsetningu af kaldri íslenskri inniveru þar sem „fatahrúgur eru með hæsta móti“ og ljóðmælandinn fylgist með skammdeginu taka yfir íbúðina þegar „perurnar springa ein af annarri“ (bls. 34). Eini ókosturinn við „Stormviðvörun“ að mínu mati er að það skuli vera síðasta ljóð verksins. Í ljóðinu virðist felast áhugavert upphaf og því er synd að fá ekki framhald af rödd eða tilfinningu ljóðsins. Í ljóðinu nær Kristín Svava að slá á persónulega strengi en á ólíkan máta en í „hispurslausu“ ljóðunum.

Það er spurning hvort að Stormviðvörun verði álitin sem þáttaskil í ferli Kristínar Svövu í framtíðinni. Mikil breyting virðist eiga sér stað milli upphafsljóðsins „Böbblí í Vúlvunni“ og lokaljóðsins „Stormviðvörun“. Í stað þess að fálma eftir afþreyingu í ölvaðri örvæntingu er ljóðmælandinn sestur niður í dimmri íbúðinni og tekst á við melankólíuna og ræktar hana „eins og hjartfólgna plöntu“ (bls. 34). Er persóna ljóðmælandans að einhverju leyti að þroskast?

Hvað nýjungar varðar þarf ég víst að leyfa Kristínu Svövu að þroskast sem ljóðskáldi og ég get ekki staðið í vegi fyrir breytingum. Mér finnst samt sem áður greinilegt að skáldskapur Kristínar nær hæstum hæðum þegar nærvera ljóðmælandans er áþreifanleg í ljóðunum. Þegar hún dregur sig til baka og víkkar myndina glatast eitthvað af þeim töfrum sem felst í hreinskilnum athugasemdum á lífið og tilveruna. Kristín Svava heldur þar með áfram stefnu sinni í skemmtilegum og lifandi ljóðum í Stormviðvörun en opnar um leið á fleiri möguleika hvað varðar yrkisefni. Ég bíð spenntur eftir næstu bók.

Már Másson Maack, nóvember 2015