Beint í efni

Sólstjakar

Sólstjakar
Höfundur
Viktor Arnar Ingólfsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2009
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Eitt af því sem gerir bækur Viktors Arnars Ingólfssonar alltaf svo ánægjulegar aflestrar er hversu vel hann hugar að smáatriðum. Vissulega er það kostur góðra bókmennta almennt, en það sem kitlar mig við skrif Viktors er að hann er naskur á að kalla fram óvenjuleg smáatriði, smáatriði innan smáatriðanna ef svo má segja. Þetta kallast svo á við það hvernig Viktor Arnar fjallar um fortíðina, en það er einmitt í slíkum köflum sem stíll hans virkilega nýtur sín og hann opnar upp heilu sögusviðin, allt frá yfirlitssýn til, einmitt, smáatriða. Og það eru þessi smáatriði sem gera það að verkum að sagan heldur áfram að sitja um lesandann, löngu eftir að lestri er lokið.

Viktor Arnar Ingólfsson er einn þeirra höfunda sem ýttu hinni svokölluðu glæpasagnabylgju af stað og sýnir með þessari nýju bók sinni, Sólstjökum, að hann er enn meðal bestu krimmahöfunda hér á landi. Hvað sem segja má um uppgang glæpasögunnar (en honum hefur vissulega fylgt slatti af slæmum bókum), þá ber að þakka fyrir að þessi vinsæla bókmenntagrein hefur gefið nýjum höfundum færi á að koma sögum sínum á framfæri, sögum sem svo sannarlega var þörf á inn í íslenskst bókmenntalandslag, eins snautt af söguþræði og ofurupptekið af persónustúdíum og stílbrögðum og það hefur lengst af verið. Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti persónustúdíum og flottum töktum í stíl - það verður bara dálítið einhæfur kostur til lengdar, eins og hafragrauturinn.

Sólstjakar gerist að hluta til í Berlín, en í sendiráði Íslands finnst illa útleikið lík. Í ljós kemur að sá myrti er ekki aðeins í slæmu formi líkamlega heldur hafði hann einnig verið illa innrættur, þekktur bæði fyrir vafasama viðskiptahætti og enn vafasamari samskipti við unga drengi. Lögregluteymið úr Aftureldingu, þau Birkir, Gunnar og Anna eru mætt hér á ný og eru strax send til Berlínar (þarsem Gunnar fær að njóta sín og síns þýska uppruna), en stærsti hluti sögunnar fer þó fram á Íslandi, enda liggja rætur málsins þar. Hinn myrti var gestur í sendiráðsboði (og stutt úttekt Viktors á pólitískum hliðum utanríkisþjónustunnar er verulega falleg), með hópi af að því er virðist ólíkum listaspírum, hönnuði, leirlistamanni, uppgjafa-skáldi og félögum þeirra. Í ljós kemur að þetta fólk á allt sameiginlegan bakgrunn, en það hjálpar þó lítt við að upplýsa drápið á perranum og ljóst er að málið á sér aðrar hliðar.

Þegar Viktor Arnar kom (aftur) fram á sjónarsviðið fyrir rúmum áratug með Engin spor sýndi það sig að hann hafði lítinn áhuga á að skrifa ‘hefðbundnar’ glæpasögur og vildi frekar kenna bækur sínar við ‘gátusögur’ (e. mystery). Afturelding, sem fellur í flokk hefðbundinna löggusagna, meira að segja með hasaratriði í lokin, var því nokkuð frábrugðin þessu, en hér tekst Viktori að sameina þessar tvær hliðar sagna sinna, annarsvegar heldur hann löggusöguþræðinum með sama teyminu og hinsvegar nær hann að snúa uppá morðmálið á sinn sérstaka hátt. Eins og í góðum krimmum eru því í raun tvær sögur, tveir glæpir í gangi, sem tengjast á lúmskan hátt. Það eina sem ég er ósátt við er aðkoma einnar persónu að málinu, en sá hluti finnst mér ekki nægilega undirbyggður - en ég get ekki sagt frá hver það var, það myndi skemma allt, enda skiptir það ekki svo miklu máli þegar upp er staðið.

Að mörgu leyti finnst mér Sólstjakar því vera Aftureldingu fremri, bæði vegna þeirrar fortíðarsögu sem skiptir miklu máli fyrir plottið og svo vegna þess að hérna njóta sérstæð tök Viktors Arnars á glæpasögunni sín betur. Hann heldur áfram að vinna með aðalpersónur sínar, aðallega þó þá tvo félaga, Víetnaman Birki og átröskunarsjúklinginn Gunnar, og ýkir andstæðuna milli þeirra enn. Lýsingin á Birki er ljúf og mild í takt við hans frekar einræna og yfirvegaða persónuleika, en Gunnar ýkist enn í stöðugu áti sínu og nú bætast eilíf hrakföll ofaná. Þau ná hámarki í alveg stórkostulegri lokasenu, sem rambar á barmi þess að verða hrein paródía en sleppur, einmitt vegna þess hversu vel er á öllu haldið.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2009