Beint í efni

Sólskinsfólkið

Sólskinsfólkið
Höfundur
Steinar Bragi
Útgefandi
Óskráð
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Aftaná bókakápu stendur: "Steinar Bragi er einn efnilegasti rithöfundur þjóðarinnar og vakti verðskuldaða athygli fyrir skáldsögu sína Áhyggjudúkkur." Þetta get ég alveg tekið undir og myndi jafnvel bæta inn lýsingarorði, skipta ''efnilegasti'' út fyrir ''áhugaverðasti'', Steinar Bragi er að mínu mati höfundur sem er meira en bara efnilegur. Bækur Steinars Braga skera sig um margt úr skrifum annarra (yngri) höfunda með sinni þéttofnu blöndu af ofur-raunsæi og furðulegri fantasíu, en slíkur vefnaður togstreitu milli þessara tveggja forma einkenndi einmitt áðurnefnda skáldsögu, Áhyggjudúkkur, og einkennir einnig þessa nýju. Nú er ég vonandi búin að gefa nógu jákvæðan tón til að geta lýst því yfir að ég er enn að bíða eftir að þessi áhugaverði og meira en efnilegi höfundur sendi frá sér verulega ''góða'' skáldsögu. Eða ætti ég að segja ''vel heppnaða?'' (Hann hefur sent frá sér góða bók, það var ljóðabókin Ljúgðu Gosi Ljúgðu.) Því mitt vandamál við prósaskrif Steinars Braga er að þrátt fyrir að þau sýni mikinn metnað, færni og hæfileika, þá finnst mér þau aldrei alveg ganga upp. Og nú er ég búin að flækja mig í vandasama umræðu um gildismat sem óvíst er að ég nái að gera ''góð'' skil.

Best að segja aðeins meira frá bókinni fyrst.

Ari er nýkominn til landsins eftir námsdvöl erlendis. Hann er svo heppinn að fá að vera stundakennari við Háskóla Íslands, í heimspeki, og að auki hefur hann fundið sér íbúð í blokk í vesturbænum. En þar endar heppnin (hafi hún þá verið nokkur), því allt er einhvernveginn ekki að ganga nógu vel. Hann nær illa sambandi við nemendur sína, utan eina stúlku, Þorgerði Öglu, en ekki er alveg ljóst hvernig sambandi þeirra er háttað. Enn verra sambandi nær hann þó við nágranna sína, sem virðast allundarlegir. Versta sambandinu nær hann þó við lífið á Íslandi, en hann er bæði utangátta og ráðvilltur og tilraunir hans til samskipta eru óttalega misheppnaðar eitthvað. Heiða, hin aðalpersónan, lifir líka einskonar hálfu lífi. Eiginmaður hennar liggur í dái á sjúkrahúsi og hún heimsækir hann reglulega og les fyrir hann ævintýri. Þó hafði hún ætlað að skilja við hann og hefur litlar tilfinningar til hans. Hún vinnur í búningaleigu og er myndlistarkona, eða nemi, það er ekki ljóst, en hún fer allavega á sýningaropnanir og talar þar um myndlist við fólk. Umræða sú er, líkt og umfjöllun Ara um heimspeki, óttalega eitthvað hol, og minnir dálítið á þá áhugaverðu menningar-umræðu-úttekt sem einkenndi Áhyggjudúkkur. (Reyndar gæti þessi bók fullt eins heitið Áhyggjudúkkur líka, en titillinn Sólskinsfólkið er skemmtilega írónískur, eins og ljóst má vera af þessari lýsingu.)

Í síðari hlutanum tekur fantasían svo alveg yfir, Ari vaknar einn daginn eins og Palli var einn í heiminum, einn á Íslandi, utan að nokkru síðar er Heiða einnig þar. Þetta er bara nokkuð skemmtilegt plott og hér eru ýmis áhugaverð temu, einmanaleiki og allsleysi, tómleiki og botnleysi einhverskonar, þ.e. hvorugt þeirra nær að botna í tilveru sinni og umhverfi. Segja mætti að hér sé komið fínt innlegg í umræðuna um ''Ísland í dag'', samtímasaga sem tekst á við veruleika yngra fólks í borgarlífinu. Síðari hlutinn setur þetta svo allt í nýtt samhengi, og knýr lesandann til að velta fyrir sér hvert höfundurinn ætli með þetta alltsaman: hvað er hér eiginlega á seyði?

Vandamálið er hinsvegar að það vantar eitthvað lím í söguna, eitthvað sem gæti virkað sem vegvísir, án þess þó endilega að vera það. Ég vil taka það fram að ég er ekki að kvarta yfir þeirri spennu milli hversdagslegs veruleika og fantasíu sem Steinar Bragi byggir upp, og æskja þess að hann finni á þessu einhverja ''lausn'', þvert á móti, þessi togstreita er það besta við bókina, og hann nær ítrekað að magna upp sterkan óhugnað, eða jafnvel ókennileika að hætti Freuds. Hinsvegar langaði mig í meira, meira kjöt á beinin, sérstaklega í seinni hlutanum, en mér fannst botninn dálítið detta úr fantasíuhlutanum (og nú lendi ég í vandræðum með að mega ekki gefa of mikið upp) og þrátt fyrir magnaða byrjun vantar einhvern slagkraft undir lokin. Í gagnrýni í Fréttablaðinu (9.11.) ber Melkorka Óskarsdóttir upplifunina af Sólskinsfólkinu saman við myndir kvikmyndaleikstjórans David Lynch. Samanburðurinn er ekki fjarri lagi, en í myndum Lynch er einmitt að finna þann fjarræna tón sem einkennir skrif Steinars Braga, auk álíka samflots og átaka milli raunsæis og fantasíu. Hinsvegar hefur Lynch náð taki á þessum leik, með tilheyrandi slagkrafti og kjöti. Og ég efast ekki eitt andartak um að Steinar Bragi eigi eftir að ná þangað líka.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2004