Beint í efni

Sólkross

Sólkross
Höfundur
Óttar Martin Norðfjörð
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Björn Unnar Valsson

Sólkross Óttars M. Norðfjörð kemur fast á hæla Hnífs Abrahams, og hefur verið kölluð sjálfstætt framhald hennar. Böndin milli bókanna eru þó lítil sem engin, nema að báðar eru spennusögur sem byggðar eru á einhverjum fræðilegum grunni sem lesendur eru hvattir til að íhuga. Skyldleiki Hnífs Abrahams við sögur Dan Browns var ljós og nokkuð tíundaður, Sólkross er á sömu línu en að þessu sinni eru leyndarmál fortíðarinnar grafin á Íslandi, nánar tiltekið á Suðurlandsundirlendinu.

Fornleifafræðingurinn Embla Þöll er kölluð á vettvang þar sem skrifstofu fornleifafræðingsins Baldurs Skarphéðinssonar hefur verið umturnað, þjónustustúlka hans myrt og Baldur sjálfur numinn á brott (að því er virðist). Leitin að morðingjanum berst austur á land, þar sem Sæmundur, bóndi á Hofi, leitar dyrum og dyngjum að fornu hofi Óðins. Þar ætlar hann að framkvæma fórn til að bjarga Íslandi frá innflytjendum, en það þarf að gerast fyrir sólsetur.

Sólkross er sem sagt steyptur í sama mót og Hnífur Abrahams. Ungir og uppveðraðir sérfræðingar leita bæði morðingja og Sannleika með því að lesa sig í gegnum ráðgáturnar. Þeir eru tveimur, þremur skrefum á undan lögreglunni, sem er fín til síns brúks en svo ósköp illa að sér í fræðunum. Og þeir eru á hælum trúarlegra samtaka sem ætla sér að breyta framgangi sögunnar. Í Sólkrossi bætast svo við tveir fréttamenn frá Stöð 2 í leit að skúbbi.

Fréttamennirnir elta Emblu, sem eltir Sæmund, sem eltir sólina og hundinn sinn. Frásögnin heldur dampi með stuttum köflum og síbreytilegu sjónarhorni, auk þess að leiknum skal lokið áður en dagurinn er úti. Leitin þróast áfram eftir því sem nýjar vísbendingar og nýir sökudólgar koma í ljós, en það sem heldur henni gangandi eru sögurnar og fræðin, allt það sem Embla og Sæmundur dæla í viðmælendur sína. Hins vegar reynist heldur erfitt að samþætta þetta tvennt: eltingaleikinn og fræðin, hasarinn og einræðurnar. Sagan gengur áfram í rykkjum þar sem þessi fræðilega kjölfesta fær ekki tóm til að anda, heldur er hún látin hrynja í takt við eltingaleikinn. Og það er fátt minna spennandi en tvær manneskjur að skiptast á upplýsingum til glöggvunar lesandans. Úr verður drafandi lognmolla með sprettum af hjákátlegu melódrama, þegar æsa á leikinn eftir einhverja langlokuna.

Ekki bætir úr skák að allar persónurnar tala frekar stirt og bóklegt mál sem er oft og tíðum klisjulegt og laust við alla tilfinningu, hversu hátt sem þær hrópa eða gleitt þær glenna augun. Þetta á hvergi eins vel við og þegar Vilborg greinir frá hrikalegri lífsreynslu undir lok bókarinnar, en hljómar líkt og hún sé að lesa upphátt úr fréttatilkynningu um málið. Sögumaðurinn kemst litlu betur frá leiknum, þar sem hann leiðist allt of oft út í skýringar og útlistanir sem annað hvort koma sögunni ekki við eða ættu frekar að ráðast af samhengi sýnilegra atburða. Þar finnur hann sig t.a.m. knúinn til að útskýra hvers vegna Nikulásargjá er kölluð Peningagjá („vegna allrar smámyntarinnar sem ljómaði á botninum“) og hvers vegna lögreglumennirnir Grímur og Hörður ganga ekki í skrokk á þeim sem þeir handtaka („Þótt [hann] væri grunaður um morð var ástæðulaust að beita hann ofbeldi. Þeir bjuggu ekki lengur á miðöldum, heldur í nútímanum, við lög og rétt“).

Sólkross á nokkra góða spretti þar sem enginn segir neitt eða fáir segja lítið, og atburðir ná fram að ganga án of mikilla útskýringa. Byrjunin er líka nokkuð sterk, kenningarnar sem Óttar leggur út af eru forvitnilegar og fléttan sjálf hefði getað skilað ágætis reifara að öðru breyttu. Stærsta ráðgátan er þó hvers vegna höfundurinn hendir fornleifafræðinni út um gluggann undir lok bókarinnar og klárar síðustu metrana á fjölskyldudrama sem hefur varla komið við sögu þangað til. Viðsnúningurinn í bláenda sögunnar bítur síðan höfuðið af skömminni með því að vera bæði fyrirsjáanlegur og merkingarlaus.

Óttar er nú búinn að gefa frá sér tvær „fræða-spennusögur“ á jafnmörgum árum en það er nokkuð ljóst að Sólkross hefði þolað talsvert meiri yfirlegu og yfirlestur, og er í raun skref aftur á bak frá Hníf Abrahams.

Björn Unnar Valsson, desember 2008