Beint í efni

Sögur úr Síðunni

Sögur úr Síðunni
Höfundur
Böðvar Guðmundsson
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Það er eins og að leggjast í tímaflakk að lesa nýjasta verk Böðvars Guðmundssonar, ekki eingöngu vegna þess að hér er fjallað um liðna tíma, heldur virðist frásagnarmátinn líka tilheyra fortíðinni. Tími sagnanna sem hér um ræðir er ekkert gífurlega fjarlægur, 60 ár eða svo, en þjóðfélagið sem lýst er engu að síður löngu horfið, eins og sögumaður kemst svo áþreifanlega að í fyrstu sögunni, ‘Umskiptingnum’, þegar hann fer á fornar slóðir en tekst ómögulega að finna réttu túnin og bæina – endar óboðinn gestur á golfvelli.

Verkið skiptist í þrettán sögur, sem kallaðar eru myndir og á það ágætlega við. Hér eru birtar svipmyndir úr sveitinni, sögur af börnum, bændum, hundum, minkum, sveitaskólanum, veiðum og smalamennsku. Hér er fortíðinni haldið til haga, sett í sögur, fest á blað; fólk og staðir, sagnir, vísur og tilsvör. Það er greinilegt að hér er byggt á bernskuminningum höfundar, en frásögnin er ekki sett fram á þann hátt, nöfnum er breytt og eflaust fleiru og sjónarhornið ekki bundið einni persónu fremur en annarri, nema helst í fyrstu og síðustu sögunni þar sem drengurinn Kári er í forgrunni. Þessum lesanda fannst þær sögur bera nokkuð af öðrum í bókinni, þar sem sjónarhornið er skýrt og drengurinn/unglingurinn þarf að kljást ofurlítið við sjálfan sig. Þær sögur urðu því áleitnari en sögur af skólaflutningum, afmælisveislum og brúargerð.

Þetta er nostalgísk frásögn um horfinn heim og horfna bernsku sem sögumaður viðurkennir í síðustu sögunni að erfitt sé að endurheimta. Fornlegur frásagnarhátturinn færir þennan heim ekkert endilega mikið nær manni, virðist einmitt frekar sönnun þess að hann sé endanlega horfinn.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2007.