Beint í efni

Sofðu ást mín

Sofðu ást mín
Höfundur
Andri Snær Magnason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Guðmundur Vestmann

Höfundaverk Andra Snæs er kannski ekki stórt, enn sem komið er, en það er fjölbreytt og einstaklega frjótt. Hann hefur látið frá sér skáldsögur, ljóð, skapandi greinaskrif, barnabókmenntir og smásögur og hvert verk er eiginlega öðru sterkara. Sofðu ást mín er annað smásagnasafn Andra, en það fyrra, Engar smá sögur, kom út árið 1996 og er eitt eftirminnilegasta safn smásagna í seinni tíð. Það má segja að höfundurinn hafi svolítið enduruppgötvað sig í hverju nýju verki. Þannig kveður líka nýjan tón í þessari nýjustu bók Andra og er raunar fátt skylt með henni og fyrri verkum höfundar.

Það hefur alltaf verið ákveðin pólitískur undirtónn í verkum Andra og djúp ádeila á samtímann. LoveStar og Sagan af bláa hnettinum taka hressilega á markaðsöflunum og svo er auðvitað Draumalandið hápólitískt þótt það sé kannski þverpólitískt. En þennan undirtón er sjaldan ef nokkurtíma að finna í Sofðu ást mín. Í þessu samhengi mætti helst nefna sögurnar „Rex“ og „Wild Boys“. Þar er dregin upp mynd af lífsstíl góðærisáranna hjá ákveðnum hópi fólks sem einkennist helst af bruðli og afkáralegum glamúr. Ádeilan er þó frekar fyrirsjáanleg en styrkur sagnanna liggur ekki þar, það er frekar persónustúdían og tilfinningalegir þættir frásagnarinnar sem hreyfa við lesandanum.

Frásögnin er gjarnan svolítið tregafull, enda bjóða umfjöllunarefnin upp á það. En á sama tíma má finna fegurð í sögunum og þær verða aldrei þunglyndislegar. Andri virðist vera meðvitaður um þetta, enda skrifar hann eina „Hamingjusögu“ í bókina sem lýsir brennandi logum ástar á miðjum aldri og alsælunni sem henni fylgir. Ekki er þó allt sem sýnist og hér tekst Andra að koma lesanda skemmtilega á óvart.

Ekki þekki ég til Andra persónulega, en sem lesandi kemst ég þó ekki hjá því að upplifa skrifin sem afskaplega persónuleg. Hér er miðlað frá af næmni og tilfinningu. Í sögum eins og „Randafluga“ og „Lególand“ liggur greinilega persónuleg reynsla undir og tilfinningarnar eru einhvern veginn ekta og hreinar. Sögurnar segja okkur hvað það er að vera manneskja, og þá helst þessi nokkurra barna faðir úr Árbænum sem fæst við skriftir. Þessi nýi tónn fer Andra vel, enda er hann manneskjulegur og hlýr.

Titilsaga bókarinnar „Sofðu ást mín“ er að mínu mati sterkasti textinn í bókinni. Þar er fjallað um kulnandi glóðir ástarinnar á sama tíma og höfundur leitar orða sem miðla þessum tilfinningum sem oft á tíðum eru ofsafengnar. Í sögulok útbýr höfundur skemmtilega eyðu sem lesandi nýtur þess að velta sér upp úr. Og lengi lifir jú í gömlum glóðum. Á köflum leikur tungumálið í höndunum á Andra og á hann frábæra spretti hvað stílinn varðar. Í fyrrnefndri sögu á hann einmitt ógleymanlegar línur um orðið „ást“ og notkunina á því. Ég vil síður skemma þennan lestur fyrir lesendum, en ég er viss um að þeir kveikja á þessum kafla þegar að honum kemur.

Að undanskyldum „Rex“ og „Wild Boys“, þar sem sömu persónurnar koma fyrir, má ekki sjá neinar beinar tengingar á milli sagnanna. Þær mynda þó sannfærandi heild með umfjöllunarefnum sínum og persónulegri nálgun. Þær eru svolítið tilvistarlegar, þær spyrja spurninga um tilgang og lífsfyllingu og Andri kemur því umfjöllunarefni einstaklega vel frá sér. Ekki það að hann sé endilega að sannfæra lesanda um sýn sína á lífið, frekar má segja að hann sé að rökstyðja hlutina fyrir sjálfum sér. Þannig rúmar þetta annars litla safn bernskuna, ungdóminn, föðurhlutverkið, ástina og dauðann.

Sofðu ást mín er virkilega vel heppnað smásagnasafn sem ég tel muni auka hróður Andra enn frekar. Hver saga í safninu ber sinn eigin svip og býr yfir eigin styrkleikum en þær hreyfa allar við lesandanum af næmni og sleppa síðan takinu á hárréttu augnabliki.

Guðmundur Vestmann, desember 2016