Beint í efni

Skuggi Rökkva

Skuggi Rökkva
Höfundar
Jean Antoine Posocco,
 Sveinn Snorri Sveinsson
Útgefandi
Froskur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Myndasögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Jean Antoine Posocco er franskur að uppruna en hefur sinnt íslenskum myndasögum af miklu afli. Fyrir utan að halda myndasögutímaritinu Bleki gangandi um áraraðir, þá hefur hann sent frá sér ákaflega íslenskar myndasögur um jólasveina og tröll, sem eiga rætur í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum. Þær gaf hann reyndar út undir öðru nafni, Jan Pozok, og kannski er nafnbreytingin táknræn fyrir þær breytingar í stíl sem birtast í nýjustu myndasögu hans, Skuggi Rökkva.

Skuggi Rökkva er skrifuð af ljóðskáldinu Sveini Snorra Sveinssyni en Posocco gerir myndirnar. Sagan segir frá manni sem vaknar einn morgun og heldur að lífi hans sé lokið. Hann uppgötvar að hann hefur tapað skugganum sínum, dularfullir atburðir eiga sér stað en svo endurfæðist hann sem ofurhetjan Rökkvi, nær valdi á skugga sínum á ný og notar hann til að “sigrast á illþýði myrkursins.” En hvað verður um mann sem tengist skugga sínum of nánum böndum? Hann verður skuggalegur sjálfur. Rökkvi uppgötvar að fólk er hrætt við hann og hann yfirgefur borgina og finnur skjól í grafhýsi í niðurníddum kirkjugarði. Í næsta kafla sögunnar fer atburðarásin að skýrast og lesandi uppgötvar forsögu þess að Rökkvi vaknar upp í byrjun bókarinnar, auk þess sem ný persóna kemur við sögu, Anna, ung kona sem heimsækir grafhýsið reglulega gegnum leynigöng, því faðir hennar er jarðaður þar. Í þriðja hluta tekur Rökkvi til við hetjudáðir sínar, íklæddur skykkju, en illur eiginmaður Önnu setur strik í reikninginn.

Þannig fjallar sagan um sálarstíð, hetjur, glæpi og glæpagengi, ástir og örlög. Söguþráðurinn vísar jafnt til ævintýrs H.C. Andersen um Skuggann og amerískra ofurhetjusagna, en úr þeirri samfléttun verður til eitthvað alveg nýtt og dálítið dásamlegt. Myndir Posocco eru, eins og áður sagði, í öðrum stíl en fyrri myndasögur hans (og myndskreytingar, en hann er einnig þekktur fyrir að myndlýsa barnabækur). Hér notast hann aðallega við vatnsliti í bland við tölvutækni, en með því að skanna myndirnar í tölvu kemur fram grófleiki í pappírnum sem bætir við sérstakt andrúmsloft vatnslitanna. Fínlegar útlínur teikninganna og ýktur stíll (stór höfuð og litlir búkar) í bland við ofurtáknrænt myndmál (skuggarnir) og snúin sjónarhorn gera söguna ákaflega heillandi og skapa fullkomin bakgrunn fyrir þau margvíslegu viðfangsefni sem í sögunni eru. Þannig er stíllinn hæfilega ævintýralegur með óhugnanlegum undirtónum, en ákaflega langt frá ofurhetjustílnum, og saman skapar þetta sérlega vel heppnaða umgjörð um hrollvekjandi og ljóðræna ofurhetjusögu.

Íslenska myndasagan hefur verið í heilmikilli uppsveiflu síðustu árin og saga þeirra Sveins og Jean er gott dæmi um hvað myndasagan býr yfir margvíslegum blæbrigðum í tjáningu. Í Skugga Rökkva blandast saman sú listræna áhersla sem hefur verið nokkuð ríkjandi og viðfangsefni sem standa nær dægurmenningunni, í líki ofurhetjunnar. Þannig má vel segja að með þessari litlu bók sé brotið ákveðið blað í sögu myndasögunnar á Íslandi.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2008