Beint í efni

Skammdegisskuggar

Skammdegisskuggar
Höfundur
Alexander Dan
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir

Hrímland: Skammdegisskuggar er fyrsta bók í Hrímlands seríunni eftir Alexander Dan. Hún kom fyrst út á árið 2014 undir nafninu Hrímland en 2019 þýddi hann bókina fyrir útgáfu hjá breska fyrirtækinu Gollancz og umskrifaði að einhverju leyti. Sú útgáfa fékk nafnið Shadows of the Short Days og nú er hún komin út í íslenskri þýðingu. Það má því segja að hér sé þriðja endurholdgun sögunnar á ferðinni. Henni er lýst sem samtímafurðusögu sem á vel við því sagan flæðir yfir margar bókmenntagreinar og erfitt að koma henni fyrir á einum afmörkuðum stað. Í þessari bók sjá lesendur fantasíu, ólandssögu (dystopia), gufupönk, hrollvekju, þjóðsögu og margt fleira þó ekkert eitt þessara hugtaka nái fyllilega að lýsa henni. Furðusaga er nægilega vítt hugtak til að rúma sögur sem þessa og lýsir Skammdegisskuggum vel. Hún nær að vefa alla þessa þræði saman frekar en að enda sem bútasaumsteppi.

Sagan gerist að mestu innan borgarmúra höfuðborgar Hrímlands, sem heitir Reykjavík, og lesandinn áttar sig fljótt á því að Hrímland er hliðstæða Íslands í veruleika sögunnar. Í þessari Reykjavík er margt kunnuglegt en ekkert alveg eins og það á að sér að vera. Þar gnæfa turnar Haraldskirkju yfir háborginni á Skólavörðuholti og fínu frúrnar skarta skuggabaldurspelsum:

Garún leit upp að Haraldskirkju. Klofinn turninn gnæfði yfir lágri borginni. [...] Kirkjan minnti Garúnu alltaf á hræ klofið hálfvegis niður eftir miðju, eins og eitthvað úr blóðugum Hrímlendingasögum, klofin sprungan á milli turnanna eins og ljótt sár. (109)

Mannfólk, huldufólk, náskárar og marbendlar búa þar saman þó ekki sé það í fullkominni sátt og samlyndi. Hrímland er hersetið af Kalmarveldinu sem hefur lagt undir sig eyjuna til að nýta seiðmagnið sem þar kraumar í óvenju miklu magni, í stríðsrekstur sinn. Undir járnhæl þessa veldis eru ómennskir Hrímlendingar lægra settir en þeir mennsku og blendingar eru nánast réttindalausir. Þessu vill Garún, ein af aðalpersónum bókarinnar, breyta. Hún er byltingasinni og blendingur af huldukyni sem berst fyrir réttindum sínum og samlanda sinna og vill Hrímland úr Kalmar og herinn burt. Önnur aðalpersóna bókarinnar er fyrrverandi elskhugi hennar, Sæmundur. Hann er galdramaður sem fallið hefur í ónáð æðri menntavalda landsins og verið rekinn úr Svartaskóla. Hans markmið eru ekki síður háleit þó að þau séu fullkomlega eigingjörn. Hann er knúinn áfram af þorsta í meiri galdramátt og dýpri skilning á eðli hans. Drifkrafturinn í söguþræðinum er að mestu leiti Garún og barátta hennar fyrir frjálsu Hrímlandi. Saga Sæmundar og falli hans niður í hyldýpi galdranna er svo fléttuð inn í byltingarfrásögnina. Það er ekki fyrr en í seinni hluta bókarinnar að Garún fær hann til liðs við sig til að hrinda djörfustu áætlun sinni til þessa í framkvæmd með ófyrirséðum afleiðingum. Þau eru bæði tilbúin að fórna öllu fyrir markmið sín en hvert skref í átt að takmarkinu er það dýru verði keypt að spurningin vaknar hvort fórnirnar séu þess virði?

Skammdegisskuggar er rammpólitísk skáldsaga og vangaveltur um siðferðislegar spurningar og álitamál eru lykilþræðir í frásögninni. Sögur af þessu tagi eru góður vettvangur fyrir pólitíska ádeilu og mörg dæmi þess í bókmenntasögunni að höfundar klæði samfélagsgagnrýni í fantasíubúning. Hvort sem það er til að framandgera viðfangsefnið og vekja lesandann þannig til umhugsunar eða til að komast hjá ritskoðun þá hefur fantasíuforminu oft verið beitt í alvarlegum tilgangi. Þrátt fyrir það hefur lengi viljað loða við sögur af þessu tagi, fantasíur og furðusögur hvers konar, að þær séu bara fyrir börn og unglinga en ekki fullorðna lesendur. Þetta viðhorf hefur verið sérstaklega lífseigt í íslenskri bókaútgáfu. Hrímland fékk til dæmis ekki íslenskan útgefanda árið 2014 því þetta er fantasía fyrir fullorðna og það þótti ekki vænlegt til vinsælda. Þetta er sem betur fer að breytast og nú virðist meiri gróska í þessari bókmenntagrein á Íslandi.

Íslenskir fantasíuaðdáendur eru flestir orðnir vanir því  að lesa á ensku vegna þess hve lítið úrval hefur verið til af þessum bókmenntum á íslensku í gegnum tíðina. Þetta getur af sér vissa tortryggni í garð íslenskunnar í fantasíum, ótta við að tungumálið verði til trafala í lestrinum, jafnvel hjákátlegt á einhvern hátt. Það var því mikill léttir að sjá hvað tungumálinu er beitt skemmtilega í þessari bók. Þó svo að það taki nokkrar blaðsíður að setja sig inn í kjarnyrta íslenskuna þá gengur allt upp og flæðir vel. Það er til dæmis gaman að fá loksins góða útskýringu á orðum eins og krummafótur og glymskratti.

Náskárarnir umkringdu þau. Þeir sátu ofan á flutningagámum, járnklærnar grófust í ryðgað stálið eins og það væri mjúkt torf. Hver náskári var þrífættur, með stórar hrafnsklær á hverjum fæti. Miðjufóturinn var kallaður krummafótur í almennu tali. (71)

Málnotkunin spilar vel með sögusviðinu, staðsetur lesandann annars staðar en í hversdagslegri Reykjavík samtímans, nær þjóðsögunum og Íslandssögunni, nær ævintýrunum. Við lesturinn birtast margar og oft að því er virðist mótsagnakenndar vísanir í Ísland sem nýlendu, Kalmar og aðrar fortíðarmyndir, þjóðsagnaminni eins og Sæmund fróða og Svartaskóla. Þessu er teflt gegnt víddaflakki og framandi tækni eins og Loftkastalanum, fljúgandi virki knúnu af seiðvirkjuninni í Perlunni, sem vomir yfir borginni:

Loftkastalinn. Virkið fljúgandi. Risavaxin og silaleg ófreskja úr járni og reyk. Kraftaverk nútímaverkfræði, vél sem sveigðisjálf náttúrulögmálin undir vilja sinn. Framtíð hernaðarins og hið æðsta vopn, tákn einingar, öryggis og valds. (332)

Tímaskekkja (retrofuturism) af þessu tagi er eitt helsta einkenni gufupönk bóka, undirflokks fantasíubókmennta, sem notið hafa mikilla vinsælda undanfarin ár. Þar er algengt að sjá samfélög sem svipar til Englands viktoríutímabilsins eða villta vestursins í Norður-Ameríku nema að viðbættri furðulegri gufuknúinni tækni. Þessa óræðu tímasetningu sögusviðsins á Skammdegisskuggar sameiginlegt með gufupönkinu nema hér er það seiður sem er nýttur til að knýja tæknina. Það er því spurning hvort að kalla mætti þessa bók seiðpönk sögu?

Einn af frumlegustu höfundunum sem kenndir hafa verið við gufupönkið er hinn breski China Miéville og í markaðssetningunni á Skammdegisskuggum í Bretlandi var bókin oft borin saman við City and the City eftir hann. Þó svo að þessi samanburður eigi aðallega við um einn hluta Skammdegisskugga þá er alveg óhætt að mæla með henni fyrir aðdáendur Miéville og alla þá sem kunna að meta myrkar og pólitískar fantasíur. Þetta er virkilega góð lesning og ég bíð spennt eftir næstu bók, The Storm Beneath a Midnight Sun, sem því miður kemur ekki strax út á íslensku.

Nú er tíminn til að njóta myrkursins og sökkva sér í skammdegisskuggana.
 

Svanhvít Sif Th. Sigurðardóttir, nóvember 2020