Beint í efni

Silfurvængur og Úlfabróðir

Silfurvængur og Úlfabróðir
Höfundur
Kenneth Oppel
Útgefandi
Græna húsið
Staður
Garðabær
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Silfurvængur og Úlfabróðir
Höfundur
Michelle Paver
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Enn deilir fólk um hvort Harry Potter fyrirbærið hafi virkilega aukið bóklestur meðal ungs fólks, eða hvort bækurnar um galdrastrákinn hafi bara aukið lestur á tilteknum bókum Jóhönnu Rowling. Eða hvort þessar tilteknu bækur hafi bara gert það að verkum að fullorðnir lesi orðið barnabækur og séu orðnir hagvanir slíkum lestri, með tilheyrandi skorti á því að kunna annað að meta. Nýjasta greinin sem ég las um þetta mál var úr breska blaðinu Guardian og þar hafði pendúllinn aftur færst yfir á að almennur bóklestur meðal breskra ungmenna hefði virkilega aukist og nú bíð ég spennt eftir næstu frétt.

Mín niðurstaða af þessum vangaveltum hefur held ég ábyggilega komið fram hér á bókmenntavefnum áður, en hún er sú að hvað sem öðru líður hefur Harry Potter fyrirbærið haft afar hvetjandi áhrif á útgáfu - og íslenskar þýðingar - allskonar hnýsilegra fantastískra barna- og unglingabóka, og að þó ég telji mig enn kunna að meta bækur fyrir fullorðna, þá get ég ekki annað sagt en að mér finnst afar skemmtilegt að lesa þetta efni, enda af þeirri kynslóð sem ólst upp við skandínavískt félagslegt - og hrútleiðinlegt - raunsæi og ber þess sjálfsagt seint bætur.

Hér á eftir fylgir umfjöllun um tvær af þeim fantasíubókum sem jólabókaflóðið fleytir með sér þetta árið, umfjöllun um aðrar tvær fylgir síðar og svo vil ég minna á umfjöllun sem þegar er komin um bókina Eltingaleikinn: Leitin að Vermeer, en þó hún sé ekki beint fantasía eru hún vissulega ævintýraleg.

Úlfabróðir (Sögur útgáfa, 2005) Michelle Paver er fyrsta bókin í seríu sem mun verða sex bóka flokkur undir samheitinu Sögur úr myrkum heimi og er bókin auglýst með því að kvikmyndaleikstjórinn Ridley Scott (sem gerði meðal annars Gladiator, Blade Runner og Alien og er því vel kunnur myrkum heimum) hafi keypt kvikmyndarétt seríunnar. Paver sjálf á að baki fremur fjölskrúðuga ævi, fædd í Mið-Afríku, en uppalin í Englandi, menntuð sem lífefnafræðingur og starfaði á lögfræðiskrifstofu áður en hún hellti sér út í ritstörf. Hún er sögð hafa mikinn áhuga á fjarlægri fortíð og mannfræði og ber bókin þess skýr merki, en Úlfabróðir er saga sem gerist á forsögulegum tíma. Þetta er undirstrikað með kápumyndinni sem er í hellamyndastíl og skapar sögunni strax heilmikið andrúmsloft.

Sagan hefst á því að faðir hins unga Toraks er deyjandi eftir árás yfirnáttúrulega öflugs bjarnar. Faðirinn segir Torak að hann búi yfir einstökum hæfileikum og sendir hann á vit alheimsandans til að ráða bug á birninum. Torak leggur upp í þá löngu ferð og á leiðinni vingast hann við ylfing sem hann skýrir Úlf. Sjálfur er Torak af ættbálki sem kennir sig við úlfa, en ættbálkar svæðisins kenna sig allir við dýr. Torak og Úlfur eru handsamaðir af hrafnafólkinu, en sleppa þaðan með aðstoð unglingsstúlkunnar Renn og saman fara þau í hina miklu hættuför til fjalls alheimsandans. Inn í málið blandast dularfullar gátur og barátta við náttúruöfl, björninn og svo auðvitað aðra menn, en hrafnafólkið sendir leitarflokk á eftir þeim.

Paver kryddar söguna miklum upplýsingum um lífshætti og sérstaklega heimspeki veiðanna, öllum búnaði og trúarbrögðum er lýst nákvæmlega og þannig er dregin upp afar lifandi og áhrifamikil mynd af þessum forsögulega heimi. Á stundum íþyngja þessi atriði þó sögunni óþarflega, auk þess sem mér fannst vanta dálítið uppá húmorinn, en sagan tekur sig helst til alvarlega. Úlfurinn litli bjargar þó miklu með kómísktum athugunum sínum um þennan undarlega bróður, sem hvorki getur haldið á sér hita né hraða.

Krúsalegur dýrahúmor einkennir hinsvegar alla liðlanga bók Kenneth Oppel um leðurblökuna Skugga sem er af ætt Silvurvængja. Silfurvængur (Græna húsið, 2005) Oppels er fyrsta bókin af þremur og boðar útgefandinn, Græna húsið, næstu bók á heimasíðu sinni og býður lesendum að skoða fyrsta kaflann. Öfugt við Pavel á hinn kanadíski Oppel að baki afar hefðbundinn rithöfundaferil, þó vissulega hafi hann byrjað allungur. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir bækur sínar, sem kemur ekki á óvart því Silfurvængur er í stuttu máli sagt gersamlega dásamleg bók.

Skuggi litli er fyrirburi og því frekar smávaxinn en dreymir um að vera stór og valdamikill. Það sem hann vantar uppá í stærð bætir hann upp með forvitni og fróðleiksfýsn, sem auðvitað hefur alvarlegar afleiðingar, því þegar hann ákveður að kíkja aðeins á sólina reiðast fuglarnir, sérstaklega uglurnar, og brenna sumarathvarf og fæðingarheimili silfurleðurblökuflokksins, svo þau þurfa að drífa sig í vetrarhýðið. Svo er nefnilega mál með vexti að fuglar og leðurblökur skipta með sér sólarhringnum, fuglar eiga daginn, en leðurblökur nóttina. Og í kringum þetta er mikil mýtólógía, því leðurblökurnar eiga sér sína guði, auk þess sem í málið blandast umræða um hringa sem mennirnir hafa sett á sumar blakanna. En Skuggi litli verður viðskila við flokkinn sinn þegar flokkurinn lendir í óveðri og þá hefst mikil ævintýraför. Meðal annars hittir hann leðurblökustelpu af annarri ætt, Marínu sem er Skærvængur, og risastórar leðurblökur úr frumskógum Suður-Ameríku, þekktar sem blóðsuguleðurblökur (Vampyrum Spectrum), því þær eru kjötætur.

Líkt og í Úlfabróður eru hér á ferðinni kunnugleg minni úr barna- og unglingabókum; aðalsöguhetjan er foreldralaus á einhvern hátt (móðir Toraks er löngu dáin og faðir Skugga er týndur, talinn af). Þannig verður ungviðið að læra að standa á eigin fótum og afla sér upplýsinga um veröldina. Þetta eru því þroskasögur í fyllsta skilningi þess orðs, því þær vísa einnig til kynþroskans, en allar eru söguhetjurnar á barmi kynþroska, þó enn sé sakleysið í algleymi í samskiptum kynjanna.

Oppel dregur upp heilan heim byggðan leðurblökum og fuglum og tekst einstaklega vel að skapa þessum flugverum sínum persónuleika í bland við fróðlegar upplýsingar um lífshætti blaka. Eins og hann bendir á sjálfur er það nokkuð áhlaupsverk að gera dýr sem flestum stendur ógn af að sannfærandi og sympatískum persónum. Samúðin birtist strax í kápumyndinni sem sýnir litla stóreyga leðurblöku umvafða eigin vængjum. Lýsingarnar á samvinnu og samstöðu leðurblakanna eru sérlega fallegar, en rannsóknir hafa sýnt að leðurblökur eru mikil félagsdýr og halda þétt saman og hjálpast að. Skuggi og Marína halda til dæmis hita hvort á öðru með því að hjúfra sig saman og vefja vængjunum hvort um annað. Bókin er sömuleiðis full af húmor og kómískum sitúasjónum, ekki síst í tengslum við Skugga litla sem er afar ævintýragjarn en ætlar sér gjarna um of.

Þýðingarnar eru báðar vel gerðar, þó á stöku stað gæti stirfni í þýðingunni á Úlfabróður. Rúnar Helgi er vel þekktur þýðandi og sýnir hér glæsilega takta við það að koma þessum heillandi leðurblökuheimi til skila.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2005