Beint í efni

Sér grefur gröf

Sér grefur gröf
Höfundur
Yrsa Sigurðardóttir
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2006
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir

Sér grefur gröf er önnur glæpasaga Yrsu Sigurðardóttur en sú fyrri, Þriðja táknið, kom út fyrir síðustu jól. Þrátt fyrir aukið framboð á íslenskum glæpasögum undanfarin ár hafa sögur eftir konur ekki verið áberandi í þeim flokki. Birgitta Halldórsdóttir sendi lengi vel frá sér spennublandna ástarsögu á hverju ári og Súsanna Svavarsdóttir sendi frá sér glæpasögu í fyrra, en ef við gefum okkur að Stella Blómkvist sé karlmaður (krimmaklúbbsvinkonur mínar vilja meina að hún sé karlmaður á sextugsaldri) eru þær einu konurnar sem skrifa í þessum anda. Það er forvitnilegt að velta þessu fyrir sér, sérstaklega þar sem margir af frægustu glæpasagnahöfundum heims eru konur. Má þar nefna höfunda eins og bresku skáldkonurnar Minette Walters og P.J. James og ameríska kollega þeirra, Sue Grafton og Söru Paretski auk norrænna höfunda á borð við Anne Holt og Karin Alvtegen sem hlaut Glerlykilinn, norrænu glæpasaganaverðlaunin, árið 2001.

Lögfræðingurinn Þóra Guðmundsdóttir er aðalsöguhetjan í þessari bók Yrsu, eins og hinni fyrri. Auk hennar kemur þýski vinurinn Matthew, sem hún kynntist í Þriðja tákninu, aftur til Íslands og aðstoðar hana við lausn gátunnar og börnin hennar tvö og þeirra mál koma hér einnig við sögu.

Þó Þóra sé lögfræðingur þá er ekki hægt að flokka bækur Yrsu sem lögfræðidrama í líkingu við bækur Grishams og Lisu Scottoline, svo dæmi sé tekið, en söguhetjur í þessum bókum heygja sína baráttu að stórum hluta í réttarsalnum. Þóra kemur reyndar að málinu sem lögfræðingur en hennar hlutverk er að upplýsa glæpinn, ekki að leiða hinn seka fyrir dómara. Kannski er ástæðan einfaldlega sú að íslenskt réttarkerfi býður ekki uppá æsandi senur úr réttarsalnum, við höfum t.d. enga kviðdómendur sem hægt er að höfða til, kúga eða þá múta. Sagan hefst á stuttum kafla frá 1945 þar sem sagt er frá einhverju sem lítur út fyrir að vera morð á barni. Í nútímanum hefst sagan hins vegar á því að viðskiptavinur Þóru biður hana að koma vestur á Snæfellsnes þar sem hann hefur nýlega opnað hótel þar sem áhersla er lögð á heilbrigði sálar og líkama í anda nýaldarfræða. Hlutverk Þóru á að vera að finna út hvort að sögusagnir um draugagang á bænum séu á rökum reistar og ef svo er, hvort kaupandinn eigi ekki rétt á skaðabótum frá seljendunum.

Um svipað leyti og Þóra kemur vestur er arkitekt nýja hótelsins myrtur og grunur fellur fljótlega á skjólstæðing hennar sem biður hana að finna þann seka og sanna þannig sakleysi sitt. Þetta er kunnuglegt þema úr sakamálsögum, Þóra tekur að sér hlutverk einkaspæjarans og sem lögfræðingur hins grunaða hefur hún ástæðu til að fylgjast með rannsókn lögreglunnar og spyrja menn út úr. Sagan gerist á nokkrum dögum í júní síðastliðið sumar (2006), sem er það sama og Ævar Örn gerir í bók sinni Sá yðar sem syndlaus er sem einnig kom út núna í nóvember. Öfugt við Ævar notfærir Yrsa sér hins vegar ekki þessa tímasetningu til að vísa til atburða sem áttu sér stað á þessum tíma, nema ef vera skildi vísanir í rigningu og leiðindaveður.

Yrsa er flínkur höfundur þegar kemur að því að skapa spennu og búa til flókinn söguþráð þar sem fyndnar uppákomur blandast hroðalegum og hugvitssömum morðum. Hún veitir lesandanum örlitla innsýn í heim fórnarlambanna, nægilega mikla til þess að hann fær samúð með þeim, sérstaklega barninu í upphafi sögunnar.

Veikleiki sögunnar liggur hins vegar í stílnum sem er óþarflega stirður, sérstaklega í samtölunum en ég stóð sjálfa mig stundum að því að endurraða orðum í setningum meðan á lestrinum stóð. Það hefði líka verið gaman að fá meiri upplýsingar um einkamál persónanna, jafnt þeirra sem lágu í valnum og aðalsöguhetjanna, Þóru og Matthews. Það kemur til dæmis fram að Matthew er styrktarforeldri barns í Afríku en síðan er ekkert gert meira úr því. Börn Þóru koma til hennar vestur en ferðalag þeirra skortir trúverðugleika og ég hefði viljað sjá meira gert úr samskiptum fjölskyldunnar. En nóg um það sem ekki er, þrátt fyrir þessar aðfinnslur er sagan skemmtilegur reyfari og vonandi eigum við lesendur eftir að fá að sjá meira af þessum skötuhjúum og fjölskyldum þeirra í framtíðinni.

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, desember 2006