Beint í efni

Sagnfræðingurinn

Sagnfræðingurinn
Höfundur
Elizabeth Kostova
Útgefandi
Jentas
Staður
Seltjarnarnes
Ár
2005
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Titillinn Sagnfræðingurinn hefur margar tilvísanir í skáldsögu Elizabeth Kostova (The Historian á frummálinu) um hinn (bókmennta)sögufræga Vlad Tepes, eða Drakúla. Í fyrsta lagi fjallar sagan um leit sagnfræðinga að þessari sögupersónu, aðallega þó gröf hans, í öðru lagi er gefið til kynna í skáldsögunni að sjálfur sé Drakúla sagnfræðingur, vel heima í fræðunum og í þriðja lagi er hann sem slíkur ekki aðeins fræðimaður heldur holdgerfingur sögunnar sjálfrar: maður sem hefur lifað marga tíma og mótað söguna. Því samkvæmt skáldsögunni Sagnfræðingurinn lifir Drakúla enn á meðal vor, skáldsaga Bram Stokers var ekkert annað en skáldskapur, söguleg skáldsaga um sögulega persónu og goðsagnir um ódauðleika hennar, en þær goðsagnir eru sumsé á rökum reistar.

Já það er ekki alveg auðhlaupið að lýsa sögu Kostova, því hún er svo samþáttuð ímynd vampýrunnar Drakúla í bókmenntum, kvikmyndum og þjóðsögum, að mér finnst ég þurfa að skrifa heila bók til að koma því öllu skikkanlega á framfæri.

En ég hef ekki bók heldur bara vefsíðu, og því mun ég reyna að halda aftur af mér. Eins og áður segir fjallar skáldsagan Sagnfræðingurinn um leit sagnfræðinga að Drakúla, sem þau telja vera á lífi. Þessi leit er í raun þrjár leitir sem fara fram á ólíkum tímum, en sagan er sögð af konu sem lýsir því hvernig hún sem ung stúlka frétti fyrst af Drakúla og leit föður síns að honum. Faðirinn segir henni sögu af undarlegri bók sem birtist á borði hans á bókasafninu í háskólanum þarsem hann nam sagnfræði og hvernig hann sýndi leiðbeinanda sínum bókina og hvernig sá átti þá álíka bók sem hafði leitt hann út í leit að Drakúla, leit sem hann hafði síðan hætt af ótta við afleiðingarnar. Hér kemur fyrst í ljós að Drakúla er enn á lífi og að dauði hans í sögu Stokers var bara skáldskapur. Eftir þetta hverfur leiðbeinandinn, og faðirinn (þáverandi nemandinn) elskar leiðbeinanda sinn svo heitt að hann leggur uppí hættuför í leit að honum, en hann vonar að ef hann finni hina réttu gröf Drakúla muni kennarinn vera þar, ekki að fullu vampýrískur. (Ég sé nemendur mína í anda sýna mér slíka ástúð og eftirfylgni.) Með honum í för er ung kona sem hann hittir á bókasafninu (ég meina það: bókasöfn eru heitasti staðurinn í þessari sögu), en hún reynist dóttir leiðbeinandans og rúmenskrar sveitastúlku. Já og hún verður síðar eiginkona og móðir, en mun vera látin þegar stúlkan, sú sem segir söguna, kemst að leyndarmáli föður síns. Faðirinn segir dótturinni þessa sögu í bútum, en hverfur síðan, greinilega í eigin leit að Drakúla og að sjálfsögðu hefur dóttirin leit, í félagi við ungan sagnfræðinema. Sér til aðstoðar í leitinni hefur hún bréf frá föður sínum, þarsem hann segir henni alla söguna af leit þeirra móður hennar...

Inn í þetta blandast svo hinir og aðrir sem hafa áhuga á Drakúla, meðal annars stjórnvöld í þeim þáverandi austantjaldslöndum sem foreldrarnir ferðast um í leit sinni, auk tyrkneskra sagnfræðinga og skjalafræðinga sem þau hitta í Istanbúl. Allar þessar frásagnir fléttast saman og minna ekki lítið á aðra þekkta skáldsögu sem einnig er sett saman úr frásögnum nokkurra aðilja sem ung kona fellir saman í eitt; já lesandi góður, ef þú hefur ekki giskað á hvaða bók það er skal ég bara segja það upphátt, á prenti: þetta er skáldsagan Drakúla eftir írska leikhúsmanninn Abraham Stoker (en sá dáði ákaft leikara nokkurn og hefði sjálfsagt lagt á sig svipaða leit að honum ef leikarinn hefði horfið). Kostova endurskapar strúktúr Drakúla á ótrúlega smart hátt með þessu sagnfræðingavafstri sínu, sem síðan er að sjálfsögðu byggt á heimildum þeirra fjölmörgu vampýru-fræðinga sem hafa í raun og veru lagt upp í leit að frekari heimildum um hinn sögulega Drakúla, Vlad Tepes, sem mun hafa verið fursti í Valakíu og vann það sér til frægðar að, a) hrekja veldi Ottómana af sér, allavega um stund og tryggja því kristni í þessum hluta Evrópu (allavega um stund), og (þetta er ekki fyrir viðkvæma) b) að stjaksetja óvini sína, helst hundruðum saman, helst þannig að oddurinn fór inn um endaþarminn og rann hægt og rólega í gegnum líkamann og út um munninn. Eftir því sem ég kemst næst eru það tveir sagnfræðingar sem hafa hvað helst helgað sig leitinni að Drakúla (þar á meðal vangaveltum um gröf hans, en eins og kemur fram í bók Kostova er Vlad alls ekki grafinn þarsem sagan segir að hann hafi átt að vera grafinn, og því er leyndarmálið með raunverulega gröf hans í fullu gildi), en það eru þeir Radu Florescu (sem einnig er sérfræðingur í sögu Rúmeníu), og Raymond T. McNally, en hann skrifaði meðal annars frábæra bók um hina frægu aðalskonu Elizabeth Bathory, en hún var einnig blóðþyrst með afbrigðum, fjarskyld Vlad, og mun vera ein af fyrirmyndum Stokers að Drakúla. Þriðji fræðimaðurinn á þessu sviði sem eitthvað hefur kveðið að er Harry A. Senn, en hann mun vera þjóðfræðingur eða mannfræðingur. Þó ekki telji ég líklegt að sambærileg réttarhöld og vegna Da Vinci lykilsins muni fara fram yfir Sagnfræðingnum, er ljóst að saga Kostovu byggir mikið á heimildum þessara, og annarra, vampýrufræðinga.

En hvað skal svo segja um bókina sjálfa? Var hún skemmtileg? Ég er oft spurð að því hvort það að vera sérmenntuð í hrollvekjum, bókmenntum, kvikmyndum og mynd- og menningarlæsi yfirleitt skemmi ekki fyrir ánægju minni af upplifun menningarafurða. Ég hef aldrei getað skilið þá spurningu, því ég skil ekki hvernig menntun getur unnið gegn ánægjulegri upplifun. Menntun er vissulega ekki forsenda þess að hægt sé að njóta skáldverks eins og Sagnfræðingsins, til þess er Kostova einfaldlega of flínk, en ég hef sjaldan fundið eins sterkt fyrir sérsviði mínu og við lestur þessarar sögu. Og sjaldan notið þess eins vel. Fyrir utan að vera dásamleg upprifjun á fræðum sem ég hef vanrækt skammarlega (og fæ væntanlega á baukinn frá Drakúla fyrir það, en samkvæmt sögunni vill hann að eftir honum sé tekið), þá var skáldsagan bæði skemmtileg og vel saman sett - þó vissulega hefði að ósekju mátt yfirfara þýðinguna betur. Sagnfræðingurinn er söguleg skáldsaga af því tagi sem fer með lesandann í langt og strangt ferðalag og skilar honum breyttum til baka, og enn á ný fékk ég nýja sýn á þennan fornvin minn, vampýruna, Drakúla.

Ég var skilin eftir með ótal vangaveltur og spurningar: eins og til dæmis tengsl vampýrunnar og Austur-Evrópu í pólitísku samhengi kommúnismans. Vampýran varð í bókmenntum Rússa táknmynd aðalsins sem saug blóðið úr alþýðunni og það er sem slík sem vampýran birtist sem myndhverfing í skrifum Karls Marx. En í sögu Kostovu eru það kommúnísk yfirvöld sem hafa óþarflega mikinn áhuga á ódauðleika vampýrunnar... Annað atriði er hómóerótíkin sem hefur alltaf loðað við vampýruna. Framanaf pirraði það mig hversu lítið var gert úr þeim þætti, og hvað þessi gagnkynhneigðu pör væru stöðugt að vasast - og hvergi var minnst á grafískar sögur um sódómískar hefðir Ottómana, sem samkvæmt einhverri útgáfu af sögunni af Vlad lögðu sitt af mörkum til stjaksetninga hans (en Vlad var um tíma fangi Ottómana, þegar hann var lítill strákur). En svo áttaði ég mig á hinni dásamlegu þrautsegju sem faðirinn / nemandinn sýndi í leit sinni að leiðbeinanda sínum og kennara...

Og síðast en ekki síst þá gladdi það lítinn vampýru-bókmenntafræðing og bókaverju linnulaust að uppgötva að samkvæmt Sagnfræðingnum eru helstu stuðningsmenn vampýrunnar rykfallnir bókaverðir...

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2006