Beint í efni

Saffranráðgátan og Hringavitleysa

Saffranráðgátan og Hringavitleysa
Höfundar
Martin Widmark,
 Helena Willis
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Saffranráðgátan og Hringavitleysa
Höfundar
Sigurrós Jóna Oddsdóttir,
 Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson (Simmi)
Útgefandi
Bókabeitan
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Lilja

Glæparáðgátur, flakk milli heima og ævintýraleg atburðarás eru allt eitthvað sem sannarlega getur átt heima í góðri bók. Hér á eftir verður fjallað um tvær nýútkomnar barnabækur sem báðar fjalla um tvo vini sem þurfa að leggjast á eitt til að leysa úr flóknum málum og bjarga deginum.

Bækur Martins Widmark um spæjaratvíeykið Lalla og Maju hafa fyrir löngu stimplað sig inn hjá íslenskum lesendum en nýjasta bókin, Saffranráðgátan, er sú 11 sem kemur út í íslenskri þýðingu Írisar Bjarnadóttur. Bækurnar, sem eru sænskar, eru orðnar yfir 30 talsins og einnig hafa Lalli og Maja ratað á hvíta tjaldið og fjalir leikhúsanna þar í landi. Að þessu sinni þurfa Lalli og Maja að láta til sín taka þegar öllu saffrani í bænum er stolið rétt fyrir jól og ekki hægt að baka fleiri saffranbollur, en þær eru ómissandi við jólahald í Svíþjóð.

Þó að bækurnar um Lalla og Maju séu ætlaðar börnum sem eru byrjuð að lesa sjálf og bókin sé of löng til að lesa í einum rykk, er hún engu að síður ríkuleg myndskreytt af Helenu Willis og eru myndirnar skemmtilegar og litríkar. Á myndunum er margt í gangi og oft eru stuttar setningar á myndunum, til dæmis á skiltum í verslunum sem nýlega læs börn hafa gaman af að reyna sig við þó það sé einhver fullorðinn sem les aðaltextann upphátt. Þegar börnin eru orðin aðeins sterkari í lestrinum er bókin tilvalin til að spreyta sig á að lesa sjálf. Fremst í bókinni er líka að finna yfirlit yfir helstu persónur og kort af Víkurbæ, sögusviði bókarinnar. Með þessu ná börnin betur að staðsetja atburði og persónur sögunnar sem getur verið afar hjálplegt þegar um ráðgátubækur er að ræða.

Ráðgátan í bókinni fjallar eins og titillinn gefur til kynna um saffranstuld en líklegt verður að teljast að verðmæti saffrans séu frekar á vitorði sænskra barna en íslenskra, en það kemur ekki að sök því verðmæti kryddsins gula er vel útskýrt í sögunni. Eins og efnistökin benda til, gerist sagan rétt fyrir jólin og snemma í bókinni byrjar að snjóa.

- Þetta er fullkomið spæjaraveður, segir Maja glaðlega.

- Hvað meinarðu? spyr Lalli og horfir inn í dimman bakgarð bakarísins.

- Líttu niður, segir Maja. Við getum rakið fótspor allra í snjónum. (26)

Síðar í sögunni reynist svo mikið kappsmál fyrir ungu spæjarana að rekja slóð fótspora saffranræningjans í snjónum áður en það snjóar yfir þau á nýjan leik. Líkt og í öllum góðum ráðgátum eru nokkrir grunsamlegir sem gætu hafa haft ástæðu til verknaðarins en að lokum er það afar ólíkleg persóna sem reynist sökudólgurinn. Spæjararnir Lalli og Maja eru hugrökk og útsjónasöm og mjög gott teymi, þau láta bæði til sín taka og leggja sitt á lóðarskálarnar til að leysa ráðgátuna. Hvorugt þeirra gæti leyst málið eitt síns liðs.

Saffranráðgátan, líkt og hinar bækurnar um Spæjarastofu Lalla og Maju, er frábær bók fyrir börn í yngstu bekkjum grunnskóla, hún er spennandi og fyndin og það sannast enn og aftur að það er ekkert sem heldur lesendum jafn spenntum að bóklestri og ráðgátubækur, sama hvaða aldri þeir eru á.

Góða samvinnu tveggja aðalpersóna er einnig að finna í seinni bókinni sem hér verður fjallað um, Hringavitleysu eftir Sigurrós Jónu Oddsdóttur. Bókin er fyrsta bók Sigurrósar sem samkvæmt baksíðunni er kennari, móðir og sagnakona en sögusvið bókarinnar er svo sannarlega þjóðsagnakennt.

Lárus og Fjóla hafa verið bekkjarsystkin sen rsta bekk nar sem hsanda. pp m heru hugrökk og  og franstuld en l ratað þannig að annað styðji hitt. Bækurnar sem hsanda. pp íðan í fyrsta bekk en nýlega hefur samband þeirra breyst eftir að foreldrar þeirra hófu sambúð og Lárus og pabbi hans fluttu inn til Fjólu, mömmu hennar og litlu systur. Fjóla er mjög ósátt við þennan ráðahag, ekki vegna þess að henni líki illa við nýja stjúppabba sinn heldur er það Lárus sem henni líkar enn verr við en áður, en þeim hefur aldrei komið vel saman. Það er svo í vettvangsferð á Þjóðminjasafnið að Lárus og Fjóla festast inni í forngrip og ferðast yfir í annan heim, heim þar sem ævintýrin “Hlini kóngssonur”, “Búkolla”, “Gilitrutt” og “Átján barna faðir í Álfheimum” eiga sér öll stað. Ekki nóg með það heldur hefur eitthvað farið úrskeiðis svo sögupersónurnar eru í miklum vandræðum.

Lárus og Fjóla verða að nýta þekkingu sína á sögunum til að koma öllu í lag og freista þess að komast heim. Atburðir sögunnar verða svo til þess að samband þeirra breytist og í lokin eru þau bæði orðin sátt og glöð með návist hvors annars. Sagan er falleg þroskasaga barnanna tveggja sem læra að skilja hvort annað og meta, eftir því sem sögunni vindur fram og þau lenda í ótrúlegum ævintýrum trekk í trekk. Bókin er afar spennandi og þó að lesendur þekki ævintýrin sem Lárus og Fjóla lenda í er hringavitleysan slík og hefðbundin framvinda ævintýranna orðin svo langt frá upprunalegu fléttunni að aðstæður krakkanna verða æsispennandi.

Sigurrós leikur sér einnig að því að snúa út úr ævintýrunum og knýja þannig framvindu sögunnar. Signý hefur til dæmis engan áhuga á að bjarga Hlina kóngsyni frá skessunum því hann er bæði fordekraður og snobbaður, hún vill heldur giftast Sveini, syni hjúanna sem týndu Búkollu en hann hefur engan áhuga á að sækja kýrina fyrir foreldra sína sem alltaf hafa komið mjög illa fram við hann. Lárus og Fjóla verða því að taka málin í sínar eigin hendur og bjarga bæði Búkollu og Hlina. Börnin þurfa að beita frumlegum aðferðum við að láta ævintýrin fá rétt sögulok og verða atburðirnir oft alveg stórkostlega fyndnir. Lárus notar til að mynda símann sinn til að bregða álfinum sem húsfreyja telur vera barnið sitt og kemur hann þá upp um sig með því að segja:

Nú er ég svo gamall sem á grönum má sjá, átján barna faðir í Álfheimum, en aldrei hef ég séð svo lítinn kassa gefa frá sér slík óhljóð og myndir. (75)

Þó það sé ekki óþekkt í barnabókmenntum að senda sögupersónur inn í sígild ævintýri og stokka aðeins upp í vel þekktum söguþræðinum tekst Sigurrós mjög vel til og bókin er stórskemmtileg lesning fyrir breiðan aldurshóp. Lárus og Fjóla eru í sjöunda bekk en bókin hentar bæði töluvert yngri lesendum og eldri. Sjö ára sonur minn hlustaði spenntur og við nýttum tækifærið og endurlásum ævintýrin sem Lárus og Fjóla lenda inn í og upp úr því spunnust skemmtilegar umræður. Bókin getur vel hentað eldri lesendum og sjálf skemmti ég mér konunglega við að lesa um hringavitleysuna sem Lárus og Fjóla þurftu að takast á við.
 

Kristín Lilja, desember 2021