Beint í efni

Rödd í dvala

Rödd í dvala
Höfundur
Dulce Chacón
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Gunnþórunn Guðmundsdóttir

Hvað verður um sögur sem lífshættulegt er að segja? Breytast þær í bælt öskur, þögn brjálseminnar? Eða geta þær átt sér framhaldslíf, vaknað úr dvala?

Undir lok 20. aldar sprakk svokölluð ‚minnissprengja‘  víða um hinn vestræna heim. Hvarvetna spruttu upp söfn og minnismerki og vitnisburðir um atburði aldarinnar birtust á ýmsu formi í miklu magni. Spánn var hér ekki undanskilinn, þótt staða landsins sé um margt sérstök vegna sögu sinnar. Það hefur reynst gríðarlega flókið að gera upp borgarastyrjöldina og þar liggja fjölmargar ástæður að baki, en ekki síst var það Franco-tíminn og hvernig var staðið að lýðræðisvæðingunni sem stuðlaði að gleymsku og þöggun um þessa skelfilegu tíma. Uppúr aldamótum varð hins vegar mikil sprenging í umfjöllun um þessa erfiðu fortíð, ekki síst í bókmenntunum. Skáldsaga Javiers Cercas Soldados de Salamina (2001, Stríðsmenn Salamis 2005), sem fjallar um eitt augnablik í borgarastyrjöldinni, varð metsölubók og í kjölfarið hafa fylgt fjölmargar þar sem tekið er á ýmsum þáttum stríðsins á margvíslegan máta. Eða eins og fræðimaðurinn Paco Ferrandiz hefur orðað það: hér  voru ‚barnabörn stríðsins‘ komin og vildu láta í sér heyra. Svo stórfelld varð þessi sprengja og titlarnir svo margir að einn af höfundunum sem lét sig málið varða, Isaac Rosa, skrifaði eins konar meta-skáldsögu um efnið sem hann kallaði Önnur fjandans skáldsaga um borgarastyrjöldina! (¡Otra maldita novela sobre la guerra civil! 2007).

Þessar skáldsögur eru margvíslegum toga og misjafnar að gæðum, en þær bestu hafa allar það markmið af rjúfa þögnina sem umlukti atburðina, að hafna hefðbundnum og útjöskuðum skýringum, að líta öðrum augum á fortíðina og gefa henni rödd. Ein af þeim er bókin sem hér er til umræðu og vísar titill hennar einmitt í þessa þögn gleymskunnar; La voz dormia frá 2002 sem María Rán Guðjónsdóttir hefur þýtt svo fagurlega sem Rödd í dvala. Bókin er tileinkuð „þeim sem sáu sig tilneydda til að þegja“. En það er einmitt þessa þögn, þögn sem einkennist af kúgun, utanaðkomandi þrýstingi og ógn valdsins, frekar en þögn sorgar eða sátta, sem á að rjúfa. Ein af fremstu skáldkonum og bókmenntafræðingum Spánar á 20. öld, Carmen Martín Gaite, hefur lýst kröfunni um þögn eftir borgarastyrjöldina á þennan máta:  „Við áttum ekki eingöngu að þegja um afleiðingar stríðsins, þótt ummerkin væru auðsjáanleg í fjölmörgum sundruðum fjölskyldum, brenndum þorpum, troðfullum fangelsum, hefndaraðgerðum, atvinnuleysi, hungri, útlegð og skelfilegu efnahagsástandi. Nei, það var ekki nóg að þegja, við áttum að þegja af ákefð” (Pido la palabra, 2000, s. 170).

Rödd í dvala fjallar einmitt um rödd kvenkyns fórnarlamba stríðsins, en sú rödd átti sér ekkert athvarf, ekkert skjól, engan hlustanda svo áratugum skipti. Fyrrnefnd Martín Gaite hefur fjallað um hlutskipti kvenna í borgarastríðinu og á Franco-tímanum og hefur sýnt hvernig konan sem varð til með Öðru lýðveldinu (1931-1936), sú sem fékk kosningarétt í fyrsta skipti, rétt til eigna, rétt til skilnaðar, o.s.frv. var markvisst barin niður eftir stríðið. Spænska konan átti að verða ‚engill heimilisins‘ og þjóna Spáni, kirkju og Franco, og ekkert pláss var fyrir konur sem féllu ekki að þessum kröfum. Þetta hafði margskonar afleiðingar í för með sér og í þessari áhrifamiklu bók, Rödd í dvala, segir frá samfélagi kvenna sem af ýmsum ástæðum lenda uppá kant við fasistastjórnina og lenda í fangelsi, eru teknar af lífi, missa frá sér börnin sín og fleira og fleira. Við fylgjumst með atburðum í gegnum Pepitu, unga konu, sem þarf að fóta sig í algjörlega nýjum heimi ógnar og dauða.

Höfundurinn, Dulce Chacón, fæddist 1954 og lést fyrir aldur fram einungis ári eftir að bókin kom út. Hún var mikil baráttukona og barðist meðal annars gegn heimilisofbeldi og stríðsrekstri. Bókin byggir á sögum kvenna sem hún safnaði einmitt til þess að þær fengju framhaldslíf, til þess að þær mættu lifa, og þessi þörf fyrir að segja sögu kvennanna er sviðsett á ýmsan máta í verkinu. Í fangelsinu spyrja konurnar sig til hvers þær eigi að lifa af: „Til hvers í fjandanum eigum við að lifa af? – Til þess að segja frá“ (116).  Ein þeirra, Tomasa, er sett í einangrun fyrir óhlýðni við yfirboðarana. Viðbrögð hennar eru að öskra, öskra til að rjúfa þögnina, til að gleyma ekki eigin sögu: „Hún öskrar til þess að fylla þögnina með sögunni, með sinni sögu, sinni eigin“ (201). Þannig hrópar hún úr einangrunarklefanum eigin sögu, barnmissi og hörmungar, „öskrar til að vekja rödd sína [...] rödd í dvala til hliðar við munninn. Rödd sem vildi ekki segja frá því að allir hefðu dáið“ (203). Eins og fram hefur komið byggir bókin á vitnisburðum, bréfum og ýmiss konar öðrum heimildum sem færð eru í búning skáldsögunnar, en þetta er einmitt það sem margir af höfundunum í þessari bylgju takast á við, mörk skáldskapar og sagnfræði.

Meðal kvennanna sem koma við sögu í skáldsögunni eru fræg fórnarlömb fasistanna, las trece rosas (rósirnar þrettán) sem voru bráðungar konur teknar af lífi ásamt fleiru ungu fólki eftir lok stríðsins. Þessum hóp hefur verið minnst á margvíslegan máta og til dæmis gerð um hann kvikmynd (Las trece rosas, 2007). Ungu konurnar eru nú orðnar að tákni um frelsi, kvenleika, ungdóm og fegurð sem fasisminn drap og í verkinu er vísað í bréf einnar þeirra, Juliu Conesa, til móður sinnar þar sem hún segir: „látið nafn mitt ekki gleymast“ (187). Í þessu skáldverki er hlutskipti annarra kvenna og stúlkna í forgrunni en aftaka ‚rósanna‘ er bakgrunnur og viðmið þeirra atburða, og hér er bætt við nafnalista þeirra sem ekki eiga að gleymast.

Rödd í dvala  er mikilvæg bók, pólitísk skáldsaga, sem segir sögu kvennanna á sérlega áhrifamikinn hátt og því er mjög ánægjulegt að hún skuli koma út á íslensku. Sumt spænskt orðalag og ákveðin setningagerð er eins og gefur að skilja flókin í þýðingu og auðvitað komast ekki allir orðaleikir til skila, en þýðingin er (eftir stuttan og alls ekki tæmandi samanburð við frummálið) ákaflega vel unnin og fór vel á því að hún væri tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, desember 2013