Beint í efni

Óvissustig

Óvissustig
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Hver er ég og hvað er ég að gera hér? er þekkt lýsing á heimspeki sem kennd er við tilvist og varð nokkuð ríkjandi eftir síðari heimstyrjöld. Tilvistarstefnan birtist ekki einungis í fræðilegum heimspekiskrifum heldur einnig í skáldskap og þá iðulega í formi tilvistarkreppu, angistar um hvort einstaklingurinn hefði einhvern tilgang eða sjálfræði. Slíkar vangaveltur voru að sjálfsögðu ekki nýjar af nálinni, til dæmis gengur fræg skáldsaga Tolstojs, Anna Karenina (1873-1877), að hluta til út á einmitt þessa angist um tilgang mannsins – og konunnar. Tilvistarstefnan er um margt skyld annari tegund heimspeki, verufræðinni, sem segja má að lýsi sér í svipuðum spurningum en með öllu minni angist.

Tengingunum er kastað (1947) nefnist skáldsaga eftir einn þekktasta fulltrúa tilvistarstefnunnar, Jean-Paul Sartre og lýsir lífi eftir dauðann á þann hátt að andar hinna dauðu fylgjast með hinum lifandi, án þess að hafa nokkra möguleika til að grípa inn í eða hafa áhrif. Angistin er meginþráðurinn og niðurstaðan er ‚tilgangsleysi allra hluta‘ – sem er einmitt titill bókar sem Bísamrottan les í Múmínálfabókunum, en hún er heimspekingur. (Múmínálfabækurnar eru skrifaðar á svipuðum tíma og saga Sartre).

Tove Jansson skemmti sér vel við að gera grín að þeim heimi gáfumenna og listaspíra sem hún var sprottin upp úr og hin heimspekilega bleksvartsýna ró Bísamrottunnar er gott dæmi um hvernig hún greip stefnur og strauma og fléttaði inn í verk sín. Mér hefur oft fundist Þórdís Gísladóttir vera á svipuðum slóðum og höfundur Múmínálfanna, enda veit ég að hún er mikill aðdáandi. Þannig er það kómísk sýn Tove á tilvistarstefnuna sem einkennir bækur Þórdísar frekar en angist Sartre, en það kemur ekki í veg fyrir að þær fjalli á ýmsan hátt um þær spurningar sem tilvistarstefnan setti fram á sínum tíma.

Titillinn á nýjustu ljóðabók Þórdísar, Óvissustig, felur beinlínis í sér tilvísun í tilvistarlega angist, eða það sem gæti verið tilvistarleg kreppa, en reynist meira í ætt við ruglingslegt og afslappað hversdagslíf múmínálfanna en draugagang Sartres, þó vissulega sé hann ekki alls fjarri. Tilvistarstefnan er færð í heimilislegt form bilaðra rafmagnstækja, umhverfisvænna túrtappa og kaffipoka með lopapeysumynstri.

Hér er ort um lífið sjálft, tilvistina, tilveruna og þó ekki sé endilega spurt um tilgang, eru þær vangaveltur undirliggjandi og óhjákvæmilegar. Óvissan kemur strax fram í ljóðinu „Skilaboð til embættismanns“, en þar bendir ljóðmælandi á að þó yfirvöld aflétti óvissustigi almannavarna þá viti hún betur:

Í lífi okkar ríkir samfellt óvissustig;
fannfergi í höfðinu,
éljahraglandi í hjartanu,
óveður í maganum.

Hún lætur því ekki blekkjast „þótt flestir virðist / sigla lygnan sjó.“

Ljóðið er gott dæmi um þann ísmeygilega húmor sem einkennir ljóð Þórdísar og þá færni hennar til að halda hárfínu jafnvægi alvöru og kómíkur. Kómíska hliðin er sú sem blasir við en bakvið hana skín iðulega í alvarlegri undirtóna sem skapa ljóðunum fjölbreytt blæbrigði.

Sem fyrr er það hversdagurinn sem er ríkjandi, eitt ljóð lýsir uppskrift að notalegu kvöldi, annað um skrifstofukonu sem nennir ekki á núvitundarnámskeið en fer í staðinn „ein á happy hour á hótelbar“ og svo eru það samtalsbrotin, prósaljóð sem segja örstuttar sögur úr lífi starfsmanns hjá sendiráði sem horfir á myndir Woody Allen, stráks sem passar páfagauk fyrir stelpu sem hann er heitur fyrir og aldraðs manns sem leggur sig allan fram til að hafa eitthvað „að skrifa um á Fésbókina.“

Þessar hversdagslýsingar eiga margt skylt með verufræðinni því þær fjalla um stöðu mannsins í heiminum, eða réttara sagt konunnar, því sem fyrr er það ‚reynsluheimur‘ konunnar sem er í fyrirrúmi. Ljóðið „Líf“ lýsir þessu líklegast allra best:

Það er vandaverk
að fylgjast með
fletta vefsíðum
kaupa inn
stilla lífið þannig af
að allt líti út fyrir að virka
að við höfum fullkomna stjórn
og fljótum hægt
í rétta átt.

Það smellur í bréfalúgu
og spjöld frá Hjartavernd
og Krabbameinsfélagi
detta á dyramottu.

Við dagslok
þegar mest er ógert og meira ósagt
horfumst við í augu
snertumst
og hunsum
seiðingu undir öxl
sting í brjósti
flöktandi hugsanir
um annað líf.

Lífið er fullt af kröfum um allskonar meðvitund sem er bæði virk og óvirk, það þarf að fylgjast með og taka inn magn af upplýsingum en það þarf líka að bregðast við og ganga í að gera allskonar og þannig erum við samtímis bæði frjáls og heft. Þetta kemur líka vel fram í einu prósaljóðinu en þar vill ljóðmælandi vera áhugaverð og póstar því ýmsu á Facebook og segir sögur sem ekki eru alveg sannleikanum samkvæmar.

Þessi heimilislega tilvistarangist eða hið verufræðilega jafnvægi sjálfræðis og ósjálfræðis birtist á hvað skemmtilegastan hátt í þeim ljóðum sem lýsa ‚meðvirkni‘, en þar hefur ljóðmælandi áhyggjur af afskaplega mörgu. Í „Áhyggjum“ hefur hún áhyggjur af „ólaghentu fólki án innbústrygginga“, og „þeim sem eru utan við sig“, því þeim er hætt við slysum. „Vor“ lýsir andvökunóttum sem fara í vangaveltur um skáldskap og ævintýri, ljóðmælandi hugsar um prinsinn í Þyrnirós, fimmtíu gráa skugga og fólk sem á „sjúkdóma við öllum lyfjum.“ En svo vaknar hún einn morgunn við söng svartþrastar, „óboðin sól smaug á milli gluggatjalda / og rándýrshjarta í seilingarfjarlægð.“ Rándýrshjartað gæti vísað til annarrar ævintýraprinsessu, Mjallhvítar, sem lá í dvala þar til hún var vakin upp af prinsi og þannig fléttast ævintýrið áfram inn í andvökurnar. En svo gæti það líka haft aðrar og skuggalegri tilvísanir.

Kvenleikinn kemur því fram í ýmsum myndum. Ljóðið „Sannleikur“ má vel lesa sem dæmisögu um samskipti kynjanna, en þar er sagður sannleikur „um líf manneskju / sem er lokuð inni í gluggalausri vistarveru / með flokki kvefaðra stórgripa.“ Þeir eru frekir og ágengir og hún má ekki kvarta og ekki gráta né hlæja, „hún á að vera volgur og mjúkur hitapoki / og ekki tala of mikið.“

En Þórdís skilur ekki við okkur í þessum tilvistarlegu vangaveltum allslaus. Hún arfleiðir okkur að hinu og þessu í „Erfðaskrá“, eigin afglöpum og „hálsfesti úr rafi“:

Ég arfleiði ykkur að lífsreynslu
sem þig vanþakkið
að líkindum án íhugunar
en gæti forðað ykkur frá vandræðum
ef þið tækjuð henni fagnandi.

Einnig fáum við slatta af sársauka („drjúgt til skiptanna“) og loks „nokkra vonarneista / og handfylli / af tilefnislausri bjartsýni.“

Þannig stendur lesandi uppi með heilmikið í höndunum eftir að hafa lesið sig í gegnum hin margvíslegu óvissustig.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2016