Beint í efni

Óþekkta konan

Óþekkta konan
Höfundur
Birgitta Halldórsdóttir
Útgefandi
Skjaldborg
Staður
Reykjavík
Ár
2004
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Já, hún er mætt aftur til leiks eftir að hafa tekið sér frí í fyrra – átti enda 20 ára útgáfuafmæli og kannski bara full ástæða til að halda uppá það með því að slappa svolítið af! Birgitta H. Halldórsdóttir ætlaði sér þó greinilega aldrei að hætta, þvert á móti, því með Óþekktu konunni mætir hún tvíefld til leiks, er farin að breyta til og móta nýjan stíl. Sá stíll er öllu harðsoðnari en fyrri bækur hennar og þó ekki sé hægt að segja að hér séu nein umskipti á ferðinni má merkja áherslubreytingu. Því hér er nefnilega tekinn upp þráðurinn frá síðustu bók, Tafl fyrir fjóra, en þar sagði frá rannsóknarlögreglukonunni Önnu sem þrátt fyrir erfiða fortíð hefur tekist að koma sér í óskadjobbið. Og þar er hún enn í Óþekktu konunni, í rannsóknarlögreglunni, að þessu sinni að rannsaka dauðdaga aldraðrar konu og morð á ungri erlendri stúlku, en fljótlega kemur í ljós að þessir, að því er virðist óskyldu atburðir, eiga sitthvað sameiginlegt.

Samnefnarinn er Geirmundur nokkur, sonur gömlu konunnar og vinnuveitandi ungu stúlkunnar, en hún er súludansari og Geirmundur er bókmenntafræðingur (!) sem rekur súlustað, og reyndar sitthvað fleira. Birgitta hellir sér hér útí átakamál og hikar ekki við að taka afstöðu sem ekki myndi hugnast femínistum vel, súlustaðseigandinn er bara ágætisnáungi, vill stúlkunum sínum vel og er að fara að giftast einni þeirra. Vissulega er eitthvað vændi með í bland, og jafnvel eiturlyf, en myrkari hliðar þessarar starfsemi eru ekki undirstrikaðar, án þess þó að hér sé á ferðinni eitthvað ''glaða hóran'' dæmi. Frekar er þessu lýst sem illri nauðsyn og einhverju fremur óskemmtilegu í bland við einmanaleika viðskiptavinanna. Ég var ekki alveg viss um hvað mér ætti að finnast um þessi tök Birgittu á þessu hitamáli, en held þó að ég sé komin niður á það að það sé bara ágætt hjá henni að taka þetta svona, því þó hún fordæmi ekki starfsemi súlustaðanna, þá upphefur hún þá ekki. Rödd Önnu er hæfilega gagnrýnin, án þess þó að fordæma nokkuð – hvorki reksturinn né sjálfar stúlkurnar. Athyglin beinist í raun fremur lítið að þessari starfsemi þegar kemur að morðmálunum sjálfum. Áður en varir er Anna sjálf komin á lista morðingjans, en þar eru bara konur sem standa nærri Geirmundi. Lesanda fer því fljótlega að gruna að einhver kvenleg hefnd og heift liggi þarna að baki, þó vissulega komi ýmsir möguleikar til greina. Hér er semsagt hasar, heitar ástir og drama, allt að hætti glæpasagnadrottningarinnar!

Sem glæpasaga er Óþekkta konan fimlega samansett og mest gaman hafði ég af harðsoðnu töktunum, en kvenhetja Birgittu lendir í heilmiklum hremmingum, er næstum keyrð niður af morðingjanum og sonna, en bítur á jaxlinn og heldur rannsókninni áfram, hölt og marin. Þetta er svosem ekki nýtt hjá Birgittu, kvenhetjur hennar lenda iðulega í hremmingum og blandast í málin á einhvern hátt, lausnin er oft nær en álitið er og sömuleiðis hefur hún áður gert tilraun með að láta persónur birtast aftur í bókum. En hér hefur hún fært þetta í nýtt form, tekið það skrefinu lengra og virðist albúin að henda sér útí glæpaseríuskrif. Mér líst vel á það og vil gjarna lesa meira um Önnu og sæta víetnamska manninn hennar.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004