Beint í efni

Örfok og Rökrétt framhaldslíf

Örfok og Rökrétt framhaldslíf
Höfundur
Eyvindur P. Eiríksson
Útgefandi
Lafleur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Skáldsögur
Örfok og Rökrétt framhaldslíf
Höfundur
Kristján Hreinsson
Útgefandi
Lafleur
Staður
Reykjavík
Ár
2005
Flokkur
Ljóð
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Bókaútgáfan Lafleur hefur á undanförnum þremur árum gefið út á annan tug ólíkra skáldverka eftir höfunda á ólíkum aldri og á ólíkum stað á rithöfundaferli sínum. Meðal þeirra má nefna Geirlaug Magnússon, en Lafleur gaf út hans síðustu ljóðabækur. Jafnframt hefur útgefandinn Benedikt Lafleur staðið fyrir svokölluðum skáldaspírukvöldum, en þar gefst áhugasömum færi á að hlusta á upplestur þekktra sem óþekktra skálda. Það er ljóst að grasrótarútgáfa og bókmenntakynning af þessu tagi er mikilvægur hluti bókmenntalandslagsins og útgáfur af þessu tagi löngum starfað sem einskonar hin hliðin á stóru forlögunum.

Hér á eftir verður fjallað um tvö ólík ritverk á vegum Lafleurs, en þau komu út fyrr á þessu ári (2005) og eru prósaljóðabókin Rökrétt framhaldslíf eftir Kristján Hreinsson og skáldsagan Örfok eftir Eyvind P. Eiríksson.

Kristján Hreinsson hefur sinnt ljóða og textagerð um árabil, auk annarra ritstarfa, svo sem greinaskrifum og nú nýlegast barnabókaskrifum. Ljóðabókin Rökrétt framhaldslíf er hluti af ljóðabókasyrpu þarsem fjallað er um stöðu ljóðsins, og gefur titillinn til kynna að í þessari bók sé að finna vangaveltur um nýja möguleika ljóðsins eða jafnvel það sem mætti kalla á viðskiptamáli, útrás ljóðsins úr því glerhúsi sem það virðist svo oft fangið í. Ljóðin bera merki þessa, en þau einkennast mörg af ýmiskonar tilraunastarfssemi. Eins og áður segir eru ljóðin öll prósaljóð og þegar nánar er að gáð eru margir prósarnir á mörkum þess að vera örsaga og prósi, sum eru í nokkrum erindum sem saman mynda einskonar söguþráð og önnur eru örstuttar frásagnir. Dæmi um þetta eru prósar eins og “Tímarnir breytast” sem segir frá sérlega sterkum hjónasvip brúðhjóna, og “Einlæg fyrirspurn” sem fjallar um fundi sem fjalla um fundi. Mörk prósaljóðs og örsögu eru illskilgreinanleg og kalla á vangaveltur um mun á bókmenntaformum sem er alltaf áhugaverður og hollur, en örsagan og prósaljóðið eru sérlega vel til þess fallin að trufla hentugar skilgreiningar á því hvað henti hvaða formi fyrir sig. Þetta er þó ekki eini leikur Kristjáns að ljóðinu, önnur syrpa ljóða fjallar um það að skrifa ljóð, eru einskonar lýsingar á því hvernig tiltekin ljóð eiga að vera og hvað þau eiga að gera. Þessi ljóð eru sömuleiðis í frásagnarstíl, en dæmi um slíkt er “Í báli dagsins”, en þar er byrjað á því að lýsa þeim forréttindum að hafa líkamsræktaraðstöðu í vinnunni og rúm á vinnustaðnum. Þessara forréttinda njóta slökkviliðsmenn. Næsta erindi hefst svo: “Í þessu ljóði ætlum við að skyggnast á bakvið tjöldin og komast að því hvað í raun og veru býr að baki starfi slökkviliðsmanns.”

Það er vissulega margt nokkuð skondið og sniðugt í þessari ljóðaleikfléttu Kristjáns, en þó vantar dálítið uppá að bókin nái virkilegum slagkrafti. Eitt sem virkar dálítið truflandi er hvernig skiptast á ólíkar tóntegundir, en skiptingar á milli upphafinna, næstum tilgerðarlegra mynda og öllu afslappaðri stíls virka á stundum klúðurslegar. Annað vandamál er einfaldlega magnið, ljóðin eru of mörg, og því miður, allt of misgóð. Of mikið af slöppum ljóðum dregur óneitanlega úr heildaráhrifum, sérstaklega þegar um er að ræða verk sem virkar þetta heildsteypt.

Það sama má eiginlega segja um skáldsögu Eyvindar P. Eiríkssonar, Örfok, en hún bæði of orðmörg og of hlaðin til að bera þá sögu sem þarna er sögð. Örfok er ástarsaga, eða saga um ást, nánar tiltekið ást karls á konu sem er að fjarlægjast hann. Sagan er tvöföld, annarsvegar virðist vera um táknsögu að ræða, en þar er tekið á kynjunum og kynjaátökum, og hinsvegar birtast í stuttum köflum inni á milli meira konkret lýsingar á samskiptum pars. Kynjaátök, kynin og karlmennska eru vissulega fyrirbæri sem ánægjulegt er að karlmenn taki til skoðunar og eitt af því sem er áhugaverðast við skáldsögu Eyvindar er hvernig hann tekst á við hefðbundnar táknmyndir kynja og náttúru, en táknheimur sögunnar er grundvallaður í náttúrunni. Það sem vekur eftirtekt er að hér er það karlmaðurinn sem er sýndur sem náttúruvera, en slík tákngerving virðist aftur vera að ná vinsældum, nýjasta dæmið er verk myndlistamannsins Matthew Barney, Hoist, sem sýnt var í Listasafni Akureyrar á Listahátíð nú í vor. Mótvægið við karlmanninn sem tákn náttúrunnar er síðan konan sem táknmynd menningar, en þetta andstæðupar var nokkuð algengt í sumum hámódernískum verkum á fyrstu áratugum síðustu aldar, til dæmis í Eyðilandi T.S. Eliot. Þetta andstæðupar er skemmtilega öfugsnúið við þá ríkjandi sýn að konan sé tengd náttúru og karlinn menningu, og er sem slíkt áhugavert, þó ekki væri nema til að minna á hversu tilbúin slík andstæðupör ævinlega eru, og háð menningarlegum og sögulegum straumum, en ekki algild og sjálfsprottin. Hinsvegar nær þessi mögulega ögrandi viðsnúningur ekki nógu langt, því samhliða honum birtast ægilegar kynjaklisjur, allt frá sýninni á nútímamenningu sem plastpakkaðari, en slík plastpökkun á sér samsvörun í vel til hafðri konu, til þemans um álfkonuna í steininum, sem virðist standa fyrir kvenímynd hinnar hreinu náttúru.

Í heildina séð er einsog það sé einhver undarleg kergja í textanum sem kemur í veg fyrir að hin áhugaverðu átök táknmyndanna fái að njóta sín. Að sama skapi er táknheimurinn hreinlega yfirdrifinn og hefði notið sín mun betur í knappara formi. Hin sagan, sú sem er öll áþreifanlegri, tengist svo táknsögunni æ meira eftir því sem á líður, og má segja að sá þáttur skáldsögunnar sé einna best unninn.

Úlfhildur Dagsdóttir, október 2005