Beint í efni

Norwegian Wood

Norwegian Wood
Höfundur
Haruki Murakami
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Ef ég hefði mátt velja, þá hefði Norski skógurinn verið síðasta bókin eftir Haruki Murakami sem ég hefði lesið aftur. Ekki svo að skilja að þessi skáldsaga sé léleg, mér finnast hinar sögurnar hans bara svo miklu betri. En þó, þegar ég var komin af stað í ágætri þýðingu Ugga Jónssonar þá átti ég erfitt með að láta bókina frá mér og sem fyrr, þegar tækifæri gefst til vandlegs endurlesturs, uppgötvast alveg nýir hlutir og hliðar og ég fylltist gleði yfir því að til eru höfundar eins og Murakami. Norwegian Wood, eins og bókin heitir í íslenskri þýðingu, kom fyrst út árið 1987 í Japan undir nafninu Noruwei no mori og gerði höfundinn frægan, næstum á einni nóttu, auk þess að auka söluna á bítlaplötunni með samnefndu lagi, „Norwegian Wood„. Fram að þessu hafði Murakami ekki notið neinna sérstakra vinsælda í heimalandi sínu eins og hann lýsir í einni smásögunni í nýútkomnu smásagnasafni, Blind Willow, Sleeping Woman. „The Rise and Fall of Sharpie Cakes“, eða Ris og hnig Sharpie smákökunnar segir frá undarlegri samkeppni um að baka nýja gerð af sérstakri tegund smáköku sem á að bæta hnignandi sölu slíkra. Sögumaður tekur þátt og uppgötvar að það eru sérstakar krákur sem dæma um gæði kökunnar og þær eru afar ósammála um gæði köku hans. Sjálfur segir Murakami í formála að sagan sé augljós dæmisaga um viðtökur gagnrýnenda við verkum hans í Japan, áður en Norski skógurinn kom til sögunnar. En sumsé, með Norwegian Wood fór þetta allt að ganga betur, enda segir Murakami að hann skipti rithöfundaferli sínum í fyrir og eftir Norwegian Wood. Enn er þó höfundurinn ekki fyllilega sáttur við heimaland sitt og heldur áfram að dveljast langdvölum erlendis, mig minnir að nú síðast hafi hann sest að í London.

Skáldsögunni hefur verið líkt við Bjargvættinn í grasinu eftir J.D. Salinger, en hún er einskonar ungmennasaga, segir frá ungum manni, Toru Watanabe og samskiptum hans við tvær stúlkur og barningi hans í bókmennta- og leikhúsfræðanámi sem hann virðist aldrei hafa neinn sérstakan áhuga á, þó honum finnist gaman að lesa. Hann býr á heimavist og þarsem bókin gerist seint á sjöunda áratugnum er heilmikill órói meðal stúdenta, uppreisnir og læti. Murakami sinnir þó þeirri hlið lítið, bókin snýst öll um snúin sambönd Toru við stúlkurnar, Naoko og Midori, og vin sinn Nagasawa. Í upphafi bókarinnar kemur í ljós að Toru þekkir Naoko sem kærustu vinar síns, en sá hafði framið sjálfsmorð sautján ára gamall. Bæði tvö eru þau illa slegin eftir þetta og flytja til Tokyo þarsem þau hittast fyrir tilviljun og taka upp einskonar samband, þó ekki ástarsamband, því þó Toru sé ástfanginn er Naoko það ekki, auk þess sem hún er veik á geði og endar á heilsuhæli. Þó ná þau að eiga saman eina nótt. Toru hittir síðan Midoru, afar sérstaka unga stúlku og tekur upp einskonar samband við hana, en það er líka afskaplega undarlegt því hann álítur sig bundinn Naoko. Og svo er það samband Toru við vininn Nagasawa sem er einskonar staðgengill vinarins sem dó, en þó ekki því Nagasawa er svallari og flagari og Toru getur ekki gert hann að trúnaðarvini sínum. Samband þeirra felst í því að þeir fara saman út á kvennafar og skiptast jafnvel á stelpum, ef svo ber undir. Þó á Nagasawa kærustu, og enn lendir Toru í einskonar sambandi við hana. Hér er því mikið af flækjum í samskiptum og yfir öllu hvílir sú sérstaka einsemd og tregi sem oft er fylgifiskur verka Murakamis, og tekur hér á sig þessa kunnuglegu ungmenna-‘angst’ og á sjálfsagt sinn þátt í að gera verkið svona vinsælt meðal ungmenna; Murakami til mikillar undrunar, því hann segist ekkert vita um ungt fólk og neitar því að verkið sé byggt á eigin endurminningum.

Það sem gerir söguna svo heillandi er stíll Murakami og ekki síst sköpun aðalpersónunnar, Toru, sem er auðvelt að samsama sig með, sérstaklega þessum flóknu samskiptum hans við ástvini og vini. Toru gerir sitt besta í samskiptum við fólk, þó hann sé einfari og virðist frekar hlédrægur. En hann vill vel og reynir að halda þessu öllu saman gangandi, þó vissulega tapi hann þræðinum annað slagið. Ekki einfaldast málið þegar hann kynnist konu sem Naoko býr með á heilsuhælinu, Reiko, og þau verða vinir líka. Það verður fljótlega ljóst að þessi ástarsambönd eru að einhverju leyti kynslóðabundin, en ást Toru til Naoko er að hluta tengd æsku hans og vináttunni við vininn sem dó og að fyrir honum er hún ídelísk kona, næstum meiri hugmynd en raunveruleiki. Þetta er undirstrikað í atriði þarsem hann heimsækir þær á heilsuhælið og Naoko kemur til hans um nóttina og sýnir honum nakinn líkama sinn. Og Toru dáist að því hvað líkami hennar er ofur-fagur, mun fegurri en hann man eftir. Midoru er hinsvegar kona af holdi og blóði eins og hún minnir hann stöðugt á.

Það sem sló mig hvað mest við að lesa bókina aftur er hversu fallega erótísk hún er. Kynlífi og kynfærum þessa unga fólks er lýst á bæði fallegan og erótískan hátt, en þarsem sagan fjallar um ungmenni skipar kynhvötin heilmikinn sess í sögunni. Þetta birtist á ýmsan hátt, allt frá blátt áfram lýsingum á samförum til ýmisskonar undirliggjandi strauma sem meðal annars eru litaðir hinsegin tónum, eins og ætti að vera ljóst af þessum samskiptum Toru við karlkyns vini sína, ástin til Naoko sem er að einhverju leyti blandin þrá til vinarinns horfna og svo kvennafar þeirra Nagasawa sem er einskonar grundvöllur samskipta þeirra. Hér næst eitthvað hárfínt jafnvægi, lýsingarnar eru aldrei klúrar, né nokkurntíma ofur-sexý, heldur ilma af erótík eins og hún gerist best.

Eins og áður sagði er titill Bítlalagsins látinn halda sér á ensku í þessari íslensku þýðingu á skáldsögunni og finnst mér það dálítið öfugsnúið, þarsem titillinn er þýddur bæði á upprunalegu japönskunni, og eftir því sem ég kemst næst, almennt á öðrum málum. Að auki vantar upplýsingar um úr hvaða máli sagan er þýdd, en þó má gera ráð fyrir að það sé úr ensku. Svo vill til að það eru til tvær enskar þýðingar á Norska skóginum, önnur eldri er gerð af fyrrum þýðanda Murakami, Alfred Birnbaum, og svo þýðing nýja þýðandans Jay Rubin frá 2000, en hún er samþykkt af Murakami sjálfum. Það skiptir því nokkru máli að vita hvaðan þessi íslenska þýðing kemur og enn verð ég að undrast vinnubrögð hins ágæta bókaforlags Bjarts í því að skýra hreinlega frá þegar þýtt er úr öðrum málum er frummálinu.

Þetta þýðir þó ekki að þýðingin sé eitthvað slæm, þvert á móti þá tekst Ugga Jónssyni sem fyrr að endurskapa heim Murakamis á íslensku og ég gat ekki fundið nokkra hnökra né misfellur í þessum fallega texta, sem við fyrstu sýn virðist kannski einfaldur og skýr, en býr yfir ótrúlega miklum átökum og spennu.

Úlfhildur Dagsdóttir, ágúst 2006.