Beint í efni

Norrænar goðsagnir

Norrænar goðsagnir
Höfundur
Neil Gaiman
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2017
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Rósa María Hjörvar

Breski rithöfundurinn Neil Gaiman vakti fyrst athygli fyrir myndasöguna The Sandman, sem kom út í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar og hefur notið mikilla vinsælda síðan. Sagan fjallar um fyrirbærið Draum, sem gengur meðal annars undir nafninu Sandman, og þar kemur dauðinn við sögu í ógleymanlegri útgáfu Gaimans. Hin sérstaka blanda af hryllingi, fantasíu og húmor hefur síðan verið einkennandi fyrir höfundinn. Hann hefur skrifað meðal annars The Graveyard Book (2008), Coraline (2002, Kóralína í íslenskri þýðingu 2004), American Gods (2001) og Good Omens (1990) í samstarfi við Terry Prachett heitinn. Hann hefur tekið þátt í ótal samstarfsverkefnum, gert myndasögur og sjónvarpsþætti og hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín.

Í þessu verki tekur Gaiman fyrir norræna goðafræði, þetta er ekki hefðbundið skáldverk heldur endursögn af þekktum goðsögnum fyrir nútímalesanda. Í inngangi segir höfundur frá því hvernig hann hafi ungur hrifist af sagnaheimi norrænna manna. Hann kynntist þessum heimi gegnum myndasögur Jack Kirby Tales of Asgard, sem kveiktu áhuga hans og síðan las hann allt sem hann komst yfir um hetjurnar og lífið í Ásgarði, þar á meðal Snorra Sturluson. Bókin ber þess vitni að höfundur búi yfir miklum áhuga og mikilli þekkingu á sagnaheiminum, nógu miklum til þess að gera hann að sínum án þess þó að fjarlægjast um of upprunann.

Stíll höfundar hentar einkar vel til endursagnar á þessum sögum. Hann er knappur, kaldhæðinn og dregur upp lifandi myndir af þessum þekktu hetjum í stuttu máli og af mikilli hlýju.

Sögurnar eru okkur vel kunnugar og hafa birst reglulega í nýjum búningum undafarna áratugi. Þetta eru til að mynda sögur af börnum Loka, dauða Baldurs og brúðkaupi Freyju. Höfundur er trúr upprunanum og breytir engu hvað varðar framvindu en bætir við samtölum, eigin lýsingum á aðstæðum og hugarástandi hetjanna svo þær birtast ljóslifandi á síðum bókarinnar.

Í sögunni um hið óvenjulega brúðkaup Freyju fá lesendur til að mynda innsýn í hugsanir Þórs. En þrumuguðinn Þór er í meðförum Neil Gaiman ekki eins klár og hann er sterkur. Þegar hann vaknar einn morgun og uppgötvar að sjálfur Þórshamarinn er horfinn segir höfundur: „Þór gerði ævinlega ákveðna hluti þegar eitthvað fór úrskeiðis. Það fyrsta sem hann gerði var að spyrja sig hvort það sem gerst hefði væri Loka að kenna. Þór íhugaði málið. Hann trúði því ekki að Loki hefði þorað að stela hamrinum. Svo hann gerði það næsta sem hann gerði venjulega þegar eitthvað fór úrskeiðis, sem var að spyrja Loka ráða.“ (93) Hér sést glitta í stíl og orðfæri bandarískrar myndasagnahefðar. Það er unnið með veikleika og styrkleika hetjanna á sama hátt og þekkist hjá DC Comics. Þannig er Loki mjög lævís og brögðóttur, en líka meðvitaður um það og þannig verður til metatexti sem þykkir frásögnina.

Bókin er tilvalin lesning fyrir þá sem vilja rifja upp kynni við þennan sagnaheim, eða fyrir þá sem eru að kynnast honum í fyrsta sinn. Textinn er léttur og skemmtilegur, og þó að það beri á hryllingi og ofbeldi eins og við er að búast þegar þessir aðilar eiga í hlut þá ætti textinn samt að henta flestum aldurshópum. Bókin er búin orðasafni sem gerir hana enn aðgengilegri.

Þýðingin er frumraun Urðar Snædal og tekst henni vel til. Léttleiki enska textans varðveitist vel í íslenskri þýðingu hennar og það er full ástæða til þess að hlakka til að sjá meira frá henni. Hún er, eins og kemur fram á bókarkápu, mikill aðdáandi Neil Gaiman og hefur mikinn áhuga á goðafræðinni. Það hefði því verið tilvalið að fá eftirmála frá henni þar sem lesendur gætu fengið innsýn inn í störf þýðanda og einstakt ferðalag textans frá Snorra Sturlusyni yfir á nútíma ensku og svo aftur á íslensku.

Bókin er falleg og umbrotið vandað og hefur kápuhönnuði Ólafi Unnari Kristjánssyni og útgáfunni Benedikt tekist vel til. Það er hinsvegar missir af því að bókin skuli ekki vera fáanleg sem rafbók samhliða hefðbundni útgáfu.

Rósa María Hjörvar, nóvember 2017