Beint í efni

Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn

Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn
Höfundur
Peter Schössow
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn
Höfundar
Claire Freedman,
 Ben Cort
Útgefandi
Æskan
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn
Höfundar
Ian Whybrow,
 Adrian Reynolds
Útgefandi
Æskan
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn
Höfundur
Mario Ramos
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Nokkrar þýddar myndabækur fyrir börn
Höfundur
Chris Riddell
Útgefandi
Æskan
Staður
Reykjavík
Ár
2008
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Að vanda kemur nokkur fjöldi þýddra myndabóka fyrir börn út fyrir jólin. En hvar eru þýddu myndabækurnar fyrir fullorðna? Að vanda ber ekkert á þeim og því verða hinir fullorðnu bara að reyna að gleðjast með börnunum - sem ætti ekki að vera erfitt í ár.

Dúddi litli nefnist bók Peter Schössow og segir frá því að þegar dráttarbáturinn Drangey hrekst í óveðri uppá ókunnugt land finnur áhöfnin undarlegt egg í fjöruborðinu. Úr egginu kemur svo fremur sjúskaður ungi sem reynist vera af Dúdúfuglakyni og því næsta fáséður. Prófessor nokkur er reiðubúin að borga fundarlaun fyrir dýrið og þá hefur skipstjórinn loks efni á því að gera við bátinn - en svo fer hann að dreyma illa og „til að dreifa huganum las hann Moby Dick, Uppreisnina á Bounty og Strandið”, auk tímarita, en í einu þeirra sér hann að unganum Dúdda hefur nú verið komið fyrir í dýragarði og ákveður að láta til skarar skríða.

Þessi litla saga af þremur sjómönnum og ófleyga unganum sem þeir fóstra er ósköp ágæt og sæt, og myndirnar hæfilega krúttlegar, í teiknimyndastíl. Reyndar virkar sagan öll eins og atlaga að lítilli teiknimynd, með hæfilega ævintýralegu plotti og fyndnum aukaatriðum eins og leslista skipstjórans.

Geimverurnar vilja vera í brókum, eftir þau Claire Freedman og Ben Cort, er hinsvegar öllu klikkaðri saga, en hún er í bundnu máli sem nýtur sín vel í þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Þar er einfaldlega sagt frá geimverum sem koma til jarðar til að stela nærbuxum því það finnst þeim gaman. Og svo gengur bókin útá að sýna hvernig geimverurnar skemmta sér yfir nærbuxunum.

Bókin er sniðugt dæmi um hvernig það eru í raun myndirnar sem knýja sögurnar áfram, ljóðin eru fyndin en má segja algerlega óþörf og hér hefur hlutverkunum því verið snúið við - ljóðin eru skreyting við myndirnar. Þær eru síðan fullar af lífi: hoppandi og skoppandi litskrúðugum og frekar hnöttóttum og útlimamörgum geimverum í ýmiskonar nærbuxnaleikjum. Allt endar þetta svo á því að benda barninu á að skoða nú nærbuxurnar sínar vel - því í þeim gæti leynst geimvera. Boðskapurinn er því sá að búa til lítið ævintýri úr hversdeginum, því hvað er hversdagslegra en nærhald?

Myndir eru líka í aðalhlutverki í sögunni af Halla og fötufyllinni af risaeðlum eftir Ian Whybrow og Adrian Reynolds. Þar finna  amma og Halli rykugar risaeðlur uppi á háalofti sem Halli lagar og þvær og setur í fötu. Hann fer með þær á bókasafn og finnur út hvað þær heita og eftir það getur hann kallað á þær með nafni. Risaeðlurnar verða svo hans uppáhaldsleikfélagar þar til hann gleymir þeim í lest og verður óhuggandi. En amma hefur ráð undir rifi hverju og risaeðlurnar finnast meðal óskilamuna.

Hér er spilað á samspil mynda og texta á sérlega heillandi hátt, en meðan sagan heldur sig við frekar raunsæislega frásögn af litlum strák og plastleikföngum, þá gæða myndirnar risaeðlurnar iðandi lífi og gera þær að virkum þátttakendum.

Úlfurinn grimmi er aðalsöguhetjan í Hver er flottastur? eftir Mario Ramos. Sagan minnir nokkuð á hinar frábæru sögur af Gruffalóinum og músinni og hefst á titilsíðu þarsem úlfurinn dáist að sjálfum sér í spegli. Síðan röltir hann um skóginn með blátt bindi og hittir aðdáendur - Rauðhettu, grísina þrjá, dvergana sjö og Mjallhvíti. Hér er því spilað á kunn ævintýri og þau felld saman í eina sögu. Allir segja úlfinum að hann sé flottastur, enda þorir enginn annað. En svo hittir úlfurinn lítið drekabarn og þá fer gamanið að kárna.

Myndirnar bæta svosem ekki miklu við söguna, en falla hinsvegar sérlega vel að léttri tóntegund hennar og þeim litla leik með ævintýrið sem hún felur í sér. Sjálfumgleði úlfsins er greinileg, svo og smæð hinna nauðbeygðu aðdáenda, sem að lokum leynir á sér.

Í Verkstæði Villa eftir Chris Riddell er hinsvegar fjallað um vélmenni, en Villi byggir slíkt til að hjálpa sér að laga til. Eitthvað fer þó úrskeiðis og vélmennið er óþarflega klaufskt svo Villi hendir því út á ruslahaug og býr til nýtt. Ekki skánar ástandið þá því nýja vélmennið fyllist tiltektaræði og hendir Villa sjálfum út. En þar finnur hann gamla vélmennið og saman byggja þeir vélmennaher úr brotajárni af verkstæðinu og ráðst gegn brjálæðingnum.

Sagan er bráðskemmtilegt stef við klassískar sögur af tilbúnum aðstoðarmönnum sem reynast stjórnlausir og myndir Riddell eru ákaflega líflegar og hugmyndaflugið mikið þegar kemur að því að teikna upp hin fjölskrúðugustu vélmenni úr aðskiljanlegu dóti og drasli. Sömuleiðis er hér dálítill boðskapur um að endurnýta og koma vel fram við umhverfi sitt.

Þýðingarnar eru allar með ágætum og allir eru þessir gripir eigulegir og eiga svikalaust eftir að gleðja lesendur á öllum aldri.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008