Beint í efni

Náttbál, Hinir dauðu og Myrkraslóð

Náttbál, Hinir dauðu og Myrkraslóð
Höfundur
Johan Theorin
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Náttbál, Hinir dauðu og Myrkraslóð
Höfundur
Vidar Sundstøl
Útgefandi
Uppheimar
Staður
Akranes
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Náttbál, Hinir dauðu og Myrkraslóð
Höfundur
Åsa Larsson
Útgefandi
JPV
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Sumarið er tíminn sem margir hafa til að lesa - allt það sem ekki hefur gefist tími til. Hvíldardagar sumarleyfisins kalla beinlínis á bækur og þá er ekki úr vegi að hverfa um stund frá fjölskylduamstri, garðhúsgögnum og veðuráhyggjum og hverfa inn í heim myrkraverka. Sumar þeirra gerast að vetrarlagi, sem sjálfsagt virkar kælandi í sumarhitunum.

Hvarfið eftir Johan Theorin var ein af áhugaverðustu glæpasögum síðasta árs enda hlaut hún norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn. Nú er komin út ný bók eftir sama höfund, Náttbál, en þar koma persónur fyrri bókarinnar við sögu án þess þó að um framhald sé að ræða. Aðalpersónurnar eru spánnýjar, hjónin Katrín og Jóakim sem flytja um miðjan vetur til eyjarinnar Ölands sem var einnig sögusvið Hvarfsins. Þau hafa fest kaup á stóru gömlu húsi utan við bæinn sem á sér heilmikla sögu, sögu sem tengist Katrínu að nokkru leyti, en móðir hennar, þekkt listakona, hafði búið þar um skeið með móður sinni sem einnig var þekkt listakona. En fljótlega eftir að þau flytja í húsið drukknar Katrín óvænt og svo virðist sem mögulega gæti verið um morð að ræða. Inn í söguna fléttast svo hópur ungra smákrimma sem stunda innbrot í sumarhús, sem nú standa auð því það er komið haust. Saga eyjarinnar, hússins og ýmissa persóna er svo uppistaða sögunnar og að lokum fléttast þetta allt saman á sérlega athyglisverðan og áhrifamikinn hátt. Yfir og allt um kring er umræðan um veðrið, náttbálið sjálft, sem er magnaðasti vetrarstormurinn. Hæglátur en þó hæfilega mystískur stíll Theorin skilar sér vel í þýðingunni.

Hinir dauðu eftir Vidar Sundstøl er bók sem í raun væri best að geyma sér þar til þriðja bókin í sagnaflokkinum um afkomendur Norðmanna í Vesturheimi kemur út. Hún er dæmigerð millibók, en fyrsta bókin, Land draumanna, kom út í fyrra og sú síðasta mun væntanleg í haust. Sagan gerist að miklu leyti úti í skógi, en þar eru bræðurnir að veiðum og undirtónninn er sá að lögreglumanninn grunar bróður sinn um morðið sem framið var í fyrstu bókinni. Til hliðar við þessa sögu er svo áframhaldandi upprifjun á sögu forföður þeirra, en sá komst við illan leik í skjól ættingja sinna. Hann hafði verið á ferð um hávetur og í sögunni ríkir veturinn og frostið ágerist þegar á líður. Að öðru leyti er meginstef bókarinnar kunnuglegt þema um veiðar, veiðimenn og bráð og hvernig þau hlutverk geta verið breytileg. Þýðingin skilar vel þessari einföldu stemningu og sérstaklega eru lýsingarnar á frosthörkunum áhrifamiklar.

Myrkraslóð er þriðja bók Åsu Larsson sem þýdd hefur verið á íslensku. Hún er sömuleiðis þriðja bókin um lögfræðinginn Rebecku Martinsson, en í fyrstu bókinni er hún send til æskuslóðanna í norðurhluta Svíþjóðar, Kiruna, vegna starfs síns. Þar lendir hún í miklum hrakningum, rifjar upp erfið æskuár og endar á því að lenda í lífshættu. Í annarri bókinni er hún enn í Kiruna, að því er virðist án þess að vita vel hversvegna og lendir enn á ný í hrakningum. Í þessari bók er hún sest að um sinn, farin að starfa sem saksóknari og virðist vera að ná sér eftir öll áföllin. Hún blandast í einkennilegt morðmál, en konulík finnst frosið í veiðikofa, ljóst er að konan hefur verið myrt annarsstaðar. Hin myrta tengist ríkum manni sem meðal annars á námur í Afríku og málið teygir anga sína víða. Á stundum fannst mér Larsson reyna óþarflega mikið á sig við að vinna með táknmál hins smáa - Kiruna - sem reynist hluti af hnattrænu samhengi, en í heildina er sagan spennandi og þá ekki síst vegna flottrar persónusköpunar. Vetrarumhverfið gerir sitt til að skapa andrúmsloft, en þrátt fyrir að bókin gerist í mars er enn hávetur og harðafrost. Þótt atburðirnir minni stundum um of á hasarmynd dregur látlaus stíllinn úr og þýðingin er ágætlega unnin.

Úlfhildur Dagsdóttir, júlí 2011