Beint í efni

Múrinn

Múrinn
Höfundur
Sif Sigmarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2013
Flokkur
Ungmennabækur
Höfundur umfjöllunar
María Bjarkadóttir

Þótt dystópískar bókmenntir séu vissulega ekki nýjar af nálinni hafa nýlegar bækur eins og Hungurleikarnir fært ungum lesendum innsýn í þessa oft mögnuðu og hrollvekjandi bókmenntagrein. Í dystópíum er oftast fjallað um ímyndaðan framtíðarheim þar sem allt hefur farið á versta veg. Oft eru afturhvarf, drungi og fátækt einkennandi. Fólk býr við ofríki valdhafa, sjálfstæð hugsun er bönnuð og tortryggni allsráðandi. Upphafinn leiðtogi kúgar fólk undir því yfirskini að veita því vernd gegn utanaðkomandi ógn, fólki er haldið í skefjum með hræðilegum refsingum og hræðsluáróðri. Upplýsingar eru skammtaðar og bækur eru bannaðar. En yfirleitt þarf ekki nema einn uppreisnargjarnan og hugrakkan borgara sem ekki vill sætta sig við valdbeitingu til að rífa sig lausan og kollvarpa kerfinu sem er oft meingallað og rotið. Múrinn er á mjög sannfærandi hátt skrifuð inn í þessa hefð en lítið hefur farið fyrir dýstópíum í íslenskum unglingabókum fram að þessu. Hér eru notaðar ýmsar aðferðir til að tengja við íslenskar hefðir og menningu sem lesendur ættu að kannast við.

Aðalpersóna sögunnar er Freyja. Hún er í níunda bekk, foreldralaus og hefur alist upp hjá ömmu sinni. Hún er ólík mörgum öðrum því hún er ævintýragjörn og réttsýn og hugsar meira en henni er hollt. Hún sækir í minjar frá horfinni tíð, gula converse strigaskó og „Sölku Völku eftir einhvern gaur sem heitir Laxness“. Sagan gerist í ekki svo fjarlægri framtíð á Íslandi þar sem allt er breytt. Freyja býr í borginni Dónol, sem er ein af borgunum níu, en heimurinn utan borgarmarkanna er aðalpersónum lítt þekktur. Þó er vitað að landflutningar hafa átt sér stað og Ísland er nú heimsálfa, þeir staðir sem við þekkjum af landakortinu eru horfnir. Utan um borgina hefur einvaldurinn Zheng látið reisa múr sem heldur hættum úti, en heldur líka fólkinu inni.

Sagan hefst í dögun þar sem Freyja hefur mælt sér mót við Baldur vin sinn. Þau ætla að fara saman á ólöglegan svartan markað þar sem eru seldar ýmsar lúxusvörur svo sem sykur, kjöt og bannaðar bækur. Lífvarðasveitir Zheng hafa hins vegar fengið veður af markaðnum og gera áhlaup og Freyja og Baldur rétt sleppa. Seinna þann sama dag stendur til að Freyja, Baldur og bekkjarfélagar þeirra fái úthlutað framtíðarstörfum sínum við hátíðlega athöfn í skólanum. Hér fær enginn að velja framtíð sína heldur er hún ákveðin fyrirfram fyrir hvern og einn, sá sem ekki hlýðir hlýtur verra af. En atvikið á svarta markaðnum og athöfnin í skólanum hrinda af stað atburðarrás í lífi Freyju sem ekkert fær stöðvað. Í ljós kemur að ekki er allt sem sýnist og engum má treysta, Freyja virðist vera miðpunkturinn í einhverju sem er í aðsigi en er erfitt að henda reiður á. Heimsmynd hennar er algerlega snúið á hvolf og múrinn, Zheng og vinir Freyju leika stór hlutverk í því sem á eftir fer.

Þær aðferðir sem notaðar eru til að tengja söguna veruleika íslenskra lesenda eru nokkuð sniðugar. Meðal annars eru vísanir í gamla Ísland fyrir landflutningana svo sem staðar- og götuheiti sem minna á Reykjavík nútímans og kalla fram skarpar andstæður þegar lesandinn reynir ósjálfrátt að tengja við staði sem hann þekkir sjálfur. Hlutum eins og ORA-baunadós og Ipod er lýst og eru Freyju svo framandi en hversdagslegar lesandanum. Ég hefði reyndar alveg verið til í að sjá ítarlegri bakgrunn og fleiri lýsingar á samfélaginu eins og það er orðið í þessu Íslandi framtíðarinnar, því eins og mér fannst lýsingarnar vel gerðar var stundum eins og eitthvað vantaði uppá. Önnur leið til að tengja söguna íslenskri menningu er með nöfnum aðalpersóna sem eru vísanir í ásatrú. Meðal þeirra eru Freyja sjálf, bræðurnir Höður og Baldur og fleiri. Þessi tenging verður til þess að við lesturinn læðist að manni illur grunur um það sem koma skal þegar örlög persónanna fara að taka á sig mynd en þrátt fyrir það verður sagan ekki fyrirsjáanleg.

Múrinn er spennandi bók, heimurinn sem þar er lýst er heilsteyptur og gleypir mann algerlega. Ég átti oft erfitt með að stilla mig um að lesa endinn fyrst eða blaða aðeins áfram til að sjá hvernig færi. Freyja er ástríðufull persóna og lesandinn fær strax áhuga á henni og afdrifum hennar. Dystópíur hafa alltaf einhverskonar skilaboð fram að færa og í þeim er fólgin ádeila. Hér mætti tína til ýmislegt. Gagnrýni á doðann sem einkennir hversdagsleikan og áhuga- og sinnuleysi, eða á það hvað við erum alltaf fljót að fórna réttindum okkar fyrir (ímyndað) öryggi. Einnig er áberandi áhersla á mikilvægi þess að verða ekki svo samdauna öllu að maður hætti að taka eftir smáatriðunum. Ég vona að næsta bók verði jafn spennandi og ég vona að lesendur þurfi ekki að bíða fram að næstu jólum til að fá framhaldið.

María Bjarkadóttir, desember 2013