Beint í efni

Mundu, líkami

Mundu, líkami
Höfundur
Ýmsir höfundar
Útgefandi
Partus
Staður
Reykjavík
Ár
2016
Flokkur
Íslenskar þýðingar
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Aftur skekur mig þráin sem losar limi –
ljúfsárt, ósigrandi skriðdýr.

(Saffó, „130“, bls. 17)

Mundu, líkami (2016) er samansafn óritskoðaðra gríska og rómverskra ljóða, sem hafa verið valin og þýdd af Þorsteini Vilhjálmssyni. Í verkinu má finna úrval ljóða sem dreifast yfir síðustu tuttugu og sex aldir eftir sjö lýrísk skáld: Saffó (7/6. öld f.Kr.), Þeognis (6. öld f.Kr.), Catullus (1. öld f.Kr.), Ovidius (43 f.Kr.-17/18 e.Kr.), Martialis (38-104 e.Kr.), Straton (1.-2. öld e.Kr.) og Konstantínos Kavafís (1863-1933). Auk ljóðanna er inngangur eftir Þorstein ásamt stuttum kynningartextum um hvert skáld. Segja má að verkið sé eins konar forréttur að frekari lestri, aðeins örfáir munnbitar af ljóðum eftir hvert skáld, sett saman til að koma lesendum á bragðið með fornan kveðskap.

Hvort það takist ræðst einna helst af því hvort ljóðin nái að hrista af sér heimildagildi sitt fyrir fornöld og birtast lesendum fyrst og fremst sem skáldskapur. Sem sagt, er listrænt gildi ljóðanna í fyrsta sæti eða er sagnfræðilegt virði þeirra listinni yfirsterkari? Það er ekkert algilt svar við þessari spurningu, þar sem upplifun lesenda getur verið afar ólík, en í kynningartextum Þorsteins er mikils jafnvægis gætt. Sögulegt samhengi og helstu einkenni kveðskapar á fornöld gefa lesandanum hugmynd um samfélagið sem skáldskapurinn spratt úr, en Þorsteinn gætir þess að fræðileg umfjöllun skyggi ekki á listrænt gildi ljóðanna.

Í inngangi verksins útskýrir Þorsteinn að mikill tilfinningahiti sé í lýrískum ljóðum og eftir lestur verksins er ljóst að ljóðin í Mundu, líkami eru engin undantekning. Ljóðin eru gjarnan í fyrstu persónu og lýsa eldheitri þrá, yfirgengilegum losta og hatrammri fyrirlitningu. Þrátt fyrir að eiga tilfinningahitann sameiginlegan eru ljóð skáldanna jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ljóð Saffóar, elstu kvenrödd Vesturlanda, eru persónuleg og fáguð ástarkvæði samin til kvenna. Kvæði Þeognisar eru einnig um ást, en samin til drengsins Kýrnosar og búa yfir líkamlegri losta. Sum ljóðanna ganga enn lengra og eru hreinlega sóðaleg, líkt og frægt ljóð Catullusar:

Ég mun ríða ykkur í munn og rass,
Aurelius undirlægja og Furius rassálfur,
sem hélduð, út frá ljóðunum mínum –
því þau eru eitthvað væmin –
að ég væri einhvers konar pervert.
Vissulega ber hinu trúfasta skáldi
að vera hreint sem mjöll, en það
þurfa ljóð þess alls ekki að vera.
Þvert á móti öðlast þau fyrst hnyttni og sjarma
ef þau eru hamslaus og ósiðvönd
og geta æst upp í manni gredduna.
Þá er ég ekki að tala um unglinga, heldur
loðna karla sem skortir allt líf í lendum.
En þið lesið um „mörg þúsund kossa“
og haldið að ég sé ekki sannur karlmaður?
Ég mun ríða ykkur í munn og rass!

(Catullus, „16“, bls. 25-26)

Catullus hræðist ekki að segja það umbúðalaust hvað honum finnst um gagnrýnendur sína, en því miður áttu teprulegir þýðendur fyrri alda erfitt með að tjá það. Fyrsta lína ljóðsins á sér aldalanga ritskoðunarsögu samkvæmt Þorsteini, sem kemur varla á óvart þar sem hún er jafnvel groddaleg í samhengi okkar tíma. Þorsteinn lætur það ekki á sig fá og ber virðingu fyrir upprunalegu sköpunarverki höfundarins, enda er Mundu, líkami sérstaklega skilgreind sem „óritskoðuð grísk og rómversk ljóð“.

Ljóð Catullusar er ekki aðeins dæmi um heiðarleika Þorsteins gagnvart frumtextanum, það sýnir líka hve létt og leikandi þýðing hans er. Hann lætur ekki aldur kvæðanna aftra sér í að færa þau nær nútímalesendum. Það er óvænt að á undan virðulegri og hefðbundinni línu — á borð við „Vissulega ber hinu trúfasta skáldi“ — komi „að ég væri einhvers konar pervert“. Ljóðið verður afdráttarlaust og skemmtilega óformlegt við þessa blöndu, sem maður á ekki von á við lestur rúmlega tvöþúsund ára gamals ljóðs. Þannig fær ljóð Catullusar að standa sem það sjálft og við lesendur komumst nær því að losa okkur við gleraugu sagnfræðinnar og einfaldlega njóta skáldskaparins.

Það þýðir aftur á móti ekki að sagnfræðin hafi neikvæð áhrif á list. Skrif fræðimanna um það hvernig menningarheimar fornaldar skynjuðu hugtök og tilfinningar geta gefið ljóðum aukið líf. Í inngangi Þorsteins útskýrir hann til að mynda hugmyndir Grikkja og Rómverja um ástina, eros og amor. Í augum þeirra kom eros/amor ekki að innan, heldur var tilfinningin utanaðkomandi afl sem réðst inn í líkama fólks. Þó ástin sé í eðli sínu fljótandi hugtak er þessi sýn framandi fyrir lesendum í dag. Sagnfræðilegt fróðleikskorn um skynjun fólks til forna breytir ekki merkingu ljóðanna en það veldur því að maður staldrar örlítið lengur við hvert ljóð og tekur sér tíma í að velta upp spurningum um tilfinningar sem maður tekur sem gefnum.

Ljóðin í Mundu, líkami sýna breidd lýrískra ljóðskálda og sanna að kveðskapur til forna var langt frá því að vera einsleitur. Sum ljóðanna, líkt og „Amores 1.5“ eftir Ovidius, búa yfir sérkennilega nútímalegri skynjun sem minnir einna helst hreyfingu kvikmyndatökuvélar. Ovidius lýsir ástarfundum á heitu eftirmiðdegi í Róm með sjónrænum máta þar sem stokkið er milli nærmynda af fallegum líkömum og rýminu í kring. Helsti galli verksins er sá að maður myndi vilja fleiri ljóð eftir hvert skáld. Um leið og lesandinn nær að stilla sig inn á rödd skáldsins er stokkið yfir í það næsta. Eftir lestur verksins sit ég til að mynda uppi með spurninguna hvort öll ljóð Ovidiusar búi yfir jafn nútímalegum sjónarhornum og „Amores 1.5“. En þar sem Mundu, líkami er í raun eins konar kynningarrit, fyrsta skref fyrir lesendur inn í heim fornra ljóða, er ósanngjarnt að telja fæð ljóða sem galla. Mundu, líkami kemur nýjum lesendum á bragðið með úrvali aðgengilegra og fjölbreyttra ljóða sem, þrátt fyrir háan aldur, eru hvergi nærri því að verða úrelt.

Már Másson Maack, apríl 2017