Beint í efni

Milla

Milla
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Heimurinn er ákaflega hinsegin í nýjustu bók Kristínar Ómarsdóttur, Millu. Tónninn er léttari en í síðustu tveimur skáldsögum hennar og minnir meira á smásagnasafnið frá í fyrra, Við tilheyrum sama myrkrinu, auk þess að sverja sig í ætt við fyrstu skáldsöguna, Svarta brúðarkjóla (1992). Eins og oft vill vera með sögur Kristínar er ekkert sérstaklega auðvelt að átta sig á sögunni, þetta er það sem frænka mín myndi kalla ‚undarleg bók‘. Sem slík er hún full af undrum, aðallega þó þeim sem búa í hversdagsleikanum. Fantasían er þó ekki fjarri, ímyndunarafl Millu er auðugt auk þess sem vinur hennar John á flugvængi sem gerir þeim kleift að svífa ósýnileg um borgina.

Milla er 21 árs gömul stúlka, þunglynd og vinnur á bókasafni, nánar tiltekið Borgarbókasafninu. Hún elskar Maríu sem er hjúkrunarkona og fáeinum árum eldri en Milla, en María hefur áhyggjur af þunglyndi Millu og er ekki viss um hvort hún elski hana nægilega mikið. Öðrum þræði er sagan því ástarsaga, saga af átökum ástarinnar, aðskilnaði og ástarsorg. Á bókasafnið kemur kona og ræður Millu til að skrá heimili sitt sem safn, ‚Safn um hina venjulegu íslensku fjölskyldu í lok tuttugustu aldar‘. Þriðja sagan snýr svo að ömmu Millu, en sá hluti er hvað minnst bundinn veruleikanum, þó hann reynist á endanum búa yfir hvað mestu félagslegu raunsæi.

Safnið myndar einskonar ramma um verkið, Milla er ráðin snemma í sögunni og að lokinni skráningu, undir lok bókarinnar, býður yfirkona Millu henni til örlagaríks kvöldverðar á Hótel Holti. Það er líka í safninu sem ævintýri hversdagsleikans koma hvað best fram en skrásetning Millu á hinum ýmsu munum safnsins er ákaflega sérstæð, bæði í einfaldleika sínum og auðugu ímyndunarafli. Ímyndunarafl Millu skiptir miklu máli, en eins og fleiri persónum Kristínar Ómarsdóttur lætur henni ákaflega vel að segja sögur. Þessar sögur eru bæði af henni sjálfri og fólkinu í kringum hana, sumar segir hún, aðrar ná aldrei út fyrir hugskot hennar. 

Eins og áður segir er ekki auðvelt að ná taki á því að lýsa sögunni, fjalla um hana eða greina. Hér er ekki mikil atburðarás, þó nóg sé af sögum, og sagan er ekkert alltaf auðlesin, ekki frekar en oft áður hjá Kristínu. Samt er þetta ljúf bók, það er í henni samskonar tóntegund og í smásagnasafninu fyrrnefnda, tónn munúðar og mýktar, sem gegnsýrir allan textann og birtist bæði í líkamlegum samskiptum og lýsingum á mat. Textinn er svo það sem öllu máli skiptir og býður upp á endalausa umfjöllun út af fyrir sig. Sem fyrr er Kristín ákaflega fundvís á augnablik, myndir og hugmyndir; það væri auðvelt að vinna heila tilvitnanabók upp úr sögunni svo miklar eru gnægtirnar af fyndnum og fallegum frösum og lýsingum. Margt af þessu býr yfir mikilli táknauðgi, en Kristín á auðvelt með að leika sér með táknhlaðið efni, eða kannski frekar að hlaða texta, atburði og hluti táknrænum farangri – sem oft er misvel merktur og getur vel ratað á annan áfangastað en gert hafði verið ráð fyrir.

Þessar skörpu og skondnu lýsingar öðlast svo aukakraft fyrir það að ramba ævinlega á mörkum veruleikans eða raunsæisins, en þetta setur textann á skjön, lesandinn getur aldrei verið alveg viss hvar hann er staddur eða hvað er að gerast. Þetta er eitt af því sem Kristínu lætur svo vel, bækur hennar fjalla ekki aðeins um hinsegin veruleika samkynhneigðra para, heldur verður heimurinn allur hinsegin, öll viðmið fara á skrið og ekkert er sem sýnist; eða kannski einmitt ekki, hér er allt sem sýnist, þetta er hinn nýi heimur sem hefur losað sig undan höftum hinnar gagnkynhneigðu stöðlunar.

Sem dæmi má nefna tréð sem fyrsti kaflinn heitir eftir (eða fyrsti hluti fyrsta kafla, bókin er afar kaflaskipt og undirkaflar eru númeraðir og allt eykur þetta á ruglinginn). Í byrjun kaflans er lýst tré sem vex upp úr tjörn í garði. Milla horfir á rigninguna falla rólega niður hjá trénu og hugsar um að víggirða sig innan hússins. Lýsingin er vissulega dálítið undarleg en samt kemur lokaefnisgreinin á óvart: „Tréð ber ríkulegan ávöxt: apríkósur, fíkjur, epli, sítrónur sem aðeins seðja ofvirk augun. Oft stend ég innan við svefnherbergisgluggann og horfi út í garð á tréð sem er ósýnilegt öðrum augum en mínum“ (7). Við höfum því hafið lesturinn á lýsingu á tré sem ekki er til.

Annað fallegt dæmi er þegar María reiðist sögu sem Milla spinnur um getnað hennar. María fer í fússi en Milla hleypur frávita á eftir henni og hrópar: „Ef lygin væri ekki til, værir þú heldur ekki til“, „þakkaðu svikulu eðli fyrir veru þína á okkar yndislegu plánetu“ (129). Setningin virkar á mörgum sviðum og getur vísað hvort sem er til uppspunnar sögu Millu um getnað Maríu, eða þess að skáldsagan Milla er öll uppspuni, skáldverk Kristínar Ómarsdóttur og María á þeirri lygi tilvist sína að þakka.

Að þessu leyti er skáldsagan Milla eins og safn, safn venjulegra muna og undarlegra, jafnvel undursamlegra, orða. Safninu er ágætlega lýst í eftirmála sem Milla skrifar um Safnið, en konan biður Millu að „semja eftirmála, skáldlegan og óskiljanlegan, draga saman í nokkrar línur niðurstöðu skrásetningarinnar“ (209).:

Hér lýkur skrásetningu á gagnasafni fatnaðar, húsgagna, muna og persónulegra skjala, í eigu Safnsins um hina venjulegu fjölskyldu í lok tuttugustu aldar. Safnið ber merki um einlægar ástríður, hlutadýrkun og vegsömun hins jarðneska, án þess að andlegri dirfsku sé fórnað. Þá vitnar það um fíngerða virðinu fyrir smáatriðum, sveipað heimilislegum og persónulegum brag. (210)

Það er ómótstæðilega freistandi að láta þessar línur lýsa bókinni, aðallega vegna þess að þær gera það alls ekki, en samt svo vel.

úlfhildur dagsdóttir, nóvember 2012