Beint í efni

Með hetjur á heilanum

Með hetjur á heilanum
Höfundur
Guðjón Ragnar Jónsson
Útgefandi
Salka
Staður
Reykjavík
Ár
2007
Flokkur
Barnabækur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Andstæða sveitar og borgar hefur lengi verið viðfangsefni bókmennta, jafnt íslenskra sem erlendra. Hún gengur yfirleitt útá að sýna fram á hættur borgarinnar og gæði sveitarinnar, í barna- og unglingabókum hefur þetta oft birst í því að börn eru send í sveit til að venja sig af ýmsu vandræðaunglingavafstri og öðrum vandamálum. Síðan snýr barnið aftur í borgina og þarf að fóta sig þar uppá nýtt. Þannig birtist sveitin iðulega í dálítið upphöfnu rómantísku ljósi, þar er lífið frekar einfalt, hlutverkaskipan á hreinu og samvistir við dýr og náttúru draga fram lífsgleði og fylla uppí tómarúm einmanaleika og ímyndaheims borgarlífsins. Á síðari tímum hefur þó þessi ímynd sveitarinnar breyst og í auknum mæli er farið að fjalla um einangrun og auðn, niðurníðslu og tómleika.

Guðjón Ragnar Jónason velur að einhverju fyrrnefndu leiðina í fyrstu barnabók sinni, Með hetjur á heilanum, en þar segir frá skopparanum Sigga, sem er að verða þrettán ára. Hann fer reglulega í sveit austur á land til aldraðra ættingja sinna og finnst gaman í sveitinni, þar er alltaf nóg við að vera. Þetta sumarið koma foreldrar hans líka með, en faðirinn er nýkominn úr enn einni áfengismeðferðinni. Öllum líður vel og þau ákveða að setjast þarna að og taka við búinu af gömlu ábúendunum. Inn í söguna blandast svo Brennu-Njálssaga, en sveitin er engin önnur en Fljótshlíðin og Áki frændi er afar upptekinn af hetjum þeirrar sögu og fyllir höfuð drengsins með frásögnum af þeim. Að auki getur hann að sjálfsögðu rakið ættir sínar til Gunnars ofurhetju. Það er óneitanlega dálítið eftirtektarvert að Njála skuli vera íslenskum höfundum svona nærtæk um þessar mundir, en glæpasaga Þórunnar Valdimarsdóttur, Kalt er annars blóð, vísar líka til Njálu, og mætti vel leggjast út í vangaveltur um fortíðarhyggju og endurkomu rómantíkur (enda mikið Jónasar-ár).

Og vissulega er nóg af upphafinni sveitarómantík hér, Siggi kynnist krökkum sem eru flutt á næsta bæ og þau verða vinir, veiða saman silunga og sinna búverkum, auk þess að ferðast um svæðið, heimsækja Njálusetrið og leggjast á tófugreni. Í einni af þeim úti-legum dreymir Sigga undarlegan draum þar sem hann er staddur í fortíðinni og upplifir atburði Njálu.

Allt gæti þetta virkað dálítið of sykursætt og vandræðalaust en á einhvern skemmtilegan hátt er það ekki svo. Sagan er vel skrifuð, í hæfilega gamaldags stíl og nútímamál og slangur verður aldrei of fyrirferðarmikið og þannig ekki tilgerðarlegt. Það mætti hvað helst finna að því í hversu einföldu ljósi hetjudýrkun Íslendingasagnanna birtist, og skítugu náttúruverndarsinnarnir eru sömuleiðis nokkuð stereótýpískir, en að öðru leyti tekst höfundi þónokkuð vel að heimfæra hefðbundna sveitasögu uppá nútímann. Þar skiptir miklu að Siggi er ekki vandræðaunglingur, bara venjulegur krakki (sjaldséð fyrirbæri ef marka má fjölmiðla og bókmenntir) sem hefur jafn gaman af tölvuleikjum og heimalingum. Sömuleiðis er ekki gert mikið úr fjölskyldudramanu með drykkju föðurins, án þess þó að láta sem ekkert sé - Siggi efast á einum stað um að faðir hans nái sér nokkurn tíma af sjúkdómi sínum, sem gefur til kynna að traust hans hafi beðið alvarlegan hnekki.

Aftan á bókinni stendur að bókin sé “rammíslensk og nútímaleg”, og þó það fyrra eigi við þá myndi ég tæplega nota orðið nútímaleg yfir sögu sem er í grunninum svo gamaldags. Þó er ljóst að hér er á ferðinni vel heppnuð tilraun til að uppfæra hefðbundnar sveitasögur og færa nær nútímanum og það er verkefni sem tekst með ágætum.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2007