Beint í efni

Með heiminn í vasanum

Með heiminn í vasanum
Höfundur
Margrét Örnólfsdóttir
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Unglingabækur
Höfundur umfjöllunar
Helga Birgisdóttir

Margrét Örnólfsdóttir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í skáldsögunni Með heiminn í vasanum því þar fjallar hún um tvo „raunveruleika“ – annars vegar líf, raunir og áskoranir íslensks pilts sem við fyrstu sýn virðist ekkert skorta og hins vegar streð og sorgir kínverskrar stúlku sem þrælar við að setja saman leikföng í leikfangaverksmiðju. Líf Ara og Jinghua fléttast saman í baráttunni fyrir frelsi og betra lífi og bæði þrá þau að vera elskuð og vera með þeim sem þau elska. Inn í þetta fléttast svo rafheimur – netið, tölvuleikir og rafræn samskipti – og tengsl raunheims og rafheims sem í nútímasamfélagi virðist ómögulegt að slíta.

Táningspilturinn Ari á allt (meira að segja kreditkort!) og fær allt sem hann vill, og meira til, nema tíma og alúð foreldra sinna. Ari er afsprengi, eða jafnvel fórnarlamb, alþjóðavæðingarinnar; drengur sem hefur alist upp og gengið í skóla í fjölmörgum löndum og nokkrum heimsálfum, talar fleiri tungumál en jafnaldrar hans og á í raun hvergi raunverulega heima – þrátt fyrir að hafa búið á ótal stöðum. Foreldrar hans skipta sér lítið af honum og sú manneskja sem þekkir hann best og hann treystir framar öðrum er barnfóstra hans. Hann kann þó best við sig á Íslandi af öllum stöðum og verður allt annað en glaður þegar foreldrar hans ákveða að skilja og honum er gert að fylgja föður sínum til Hong Kong. Um svipað leyti berst Ara og Kötlu frænku hans neyðaróp frá Jinghua og þau setja sér það markmið að bjarga ekki aðeins þessari stúlku heldur öllum heiminum. Upphefst þá æsileg og spennandi flétta sem teygir anga sína til Íslands, Japans og Kína og breiðist einnig út um netið og inn í nettölvuleik sem Ari spilar, en það er eini staðurinn þar sem hann er herra yfir eigin lífi.

Með heiminn í vasanum hefur þegar við tilnefnd af hálfu Íslands til Barna- og unglingabókaverðlauna Vestnorræna ráðsins sem og til Fjöruverðlaunanna í flokki barna- og unglingabóka og er vel að þeim tilnefningum komin. Sagan er skemmtilega skrifuð, heillandi og marglaga. Deilt er á græðgi, barnaþrælkun og mannréttindabrot auk þess sem tekist er á við veruleika barna og unglinga í samfélagi nútímans og fjallað um hversu öflugt afl börn geta verið þegar þau standa saman en engu síður þurfi þau á umhyggju að halda. Sterkur boðskapurinn er í góðu jafnvægi við skemmtanagildið og þetta er saga sem skilur mikið eftir sig í huga lesanda, enda lætur höfundur lesanda það eftir að draga ýmsar ályktanir.

Með heiminn í vasanum er án efa ein þeirra barna- og unglingabóka sem standa upp úr í þessu jólabókaflóði en samkeppnin er hörð þessi jól og óvenju margar bækur sem vert er að veita athygli. Margrét Örnólfsdóttir sýnir með bók sinni að hægt er að fjalla um alvarleg og mikilvæg málefni í bókum fyrir ungt fólk og þannig að unga fólkið kunni að meta þær. Þetta gera raunar líka Jónína Leósdóttir í Upp á líf og dauða, Arndís Þórarinsdóttir í Játningum mjólkurfernuskálds, Ragnheiður Gestsdóttir í Gegnum glervegginn og Bryndís Björgvinsdóttir í Flugunni sem stöðvaði stríðið. Allar þessar bækur sýna hvernig barna- og unglingabækur spegla samfélagið sem við lifum í og geta því og eiga að vera hluti af orðræðu þess. Ég vona því að sem flestir lesi Með heiminn í vasanum – og tali um hana.

Helga Birgisdóttir, desember 2011