Beint í efni

Martröð

Martröð
Höfundur
Hallveig Thorlacius
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Kristín Viðarsdóttir

Spennusögur fyrir unglinga eru frekar sjaldséðar í íslenskri bókaútgáfu, þ.e.a.s. frumsamdar á íslensku, en mun meira er um þýddar bækur í þessum geira. Meira hefur verið skrifað hér af sögum með yfirnáttúrulegu eða draugaívafi fyrir þennan aldurshóp og má þar nefna Garðinn eftir Gerði Kristnýju sem er nýkomin út og Draugaslóð Kristínar Helgu frá því í fyrra, báðar mjög fínar og eftirminnilegar bækur. En nú hefur Hallveig Thorlacius, sem þekkt er fyrir brúðuleikhús sitt, sent frá sér sína fyrstu bók, sem er „hreinræktuð” spennusaga og heldur ekkert verið að skafa utan af hlutunum þótt hún sé greinilega ætluð unglingum í yngri kantinum. Martröð er að mörgu leyti ögrandi verk, Hallveig hikar t.d. ekki við að fjalla um hryllilega og sársaukafulla hluti og hér eru sakamálin grafalvarleg.

Martröð segir frá Hrefnu sem er 13 ára íslenskt tökubarn frá Mexíkó, tökubarn er einmitt rétta orðið því hún er ekki löglega ættleidd heldur fann móðirin hana uppi í tré þegar hún var um þriggja ára og var henni síðan smyglað úr landi til Íslands. Þetta hljómar auðvitað ótrúlega, en er í góðu samræmi við annað í sögunni sem fer á fljúgandi fart eiginlega á fyrstu síðu og rekur síðan einn viðburðurinn annan í æsilegri atburðarás sem inniheldur meðal annars morð, eiturlyfjaviðskipti og leit Hrefnu að uppruna sínum.

Sagan er í dagbókarformi, Hrefna trúir dagbókinni fyrir sínum innstu hugsunum og segir henni sögu sína, en fyrsta færslan er skrifuð í flugvél þegar hún er á leið til Mexíkó með foreldrunum. Hrefna þekkir ekki landið sem hún kemur frá, því þetta er fyrsta ferð hennar til baka, en hún kemst fljótlega að því að hún er tengdari því en hana hefði órað fyrir. Frásögn Hrefnu er einlæg og rödd hennar sannfærandi, lesandinn kynnist henni vel í gegnum trúnaðarsamtal hennar og fær skýra mynd af fjörmikilli, forvitinni og afskaplega hugrakkri stelpu með ríka réttlætiskennd. En um leið er fyrrnefndur hraði það sem helst háir sögunni, mjög miklu efni er komið fyrir í stuttri frásögn og fyrir vikið er ekki unnið nógu vel úr einstökum atriðum, það vantar undirbyggingu og ég saknaði þess oft að staldrað væri við og þræðirnir spunnir lengra. Þetta á sérstaklega við um glæpafléttuna sem er nokkuð gloppótt.

Sagan af uppruna Hrefnu og leit hennar að sjálfsmynd heillaði mig hins vegar hvað mest, ekki síst kaflarnir sem segja frá sambandi hennar við nýfundna ömmu sína. Hrefna er af indjánaættum, hún er komin af Aztekum, og þessi óvenjulega tenging gerir söguna forvitnilega og lætt er inn skemmtilegum fróðleik um þessa fornu þjóð og arfleifð hennar. Hrefna hefur aldrei haft sérstakan áhuga á þessum uppruna sínum, enda veit hún það eitt að hún fannst í fyrrnefndu tré í Mexíkó og hefur í upphafi bókarinnar ekki hugmynd um hverra manna hún er. Ef ekki væri fyrir útlitið væri hún eins og hver önnur íslensk stelpa. Sú staða hefur gjörbreyst í bókarlok og einnig viðhorf Hrefnu, en þar er líka gefið í skyn að við getum átt von á framhaldi.

Kristín Viðarsdóttir, nóvember 2008