Beint í efni

Mæður geimfara

Mæður geimfara
Höfundur
Sigurbjörg Þrastardóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Smásögur
Höfundur umfjöllunar
Már Másson Maack

Það mega heita sorgleg örlög að fröken Marion Moon, sem hét þessu afgerandi ættarnafni allt þar til hún giftist Edwin E. Aldrin eldri, og er nú kunn sem móðir annars af fyrstu tunglgöngumönnum veraldar, skyldi svipta sig lífi skömmu áður en sonur hennar Buzz tók sporið á tunglinu. (9)

Mæður geimfara er nýjasta bók Sigurbjargar Þrastardóttur, en hún skrifað fjölda leikverka, ljóðabóka, sagna af ýmsu tagi og tvær skáldsögur. Á kápu bókarinnar er verkinu lýst sem litríku sagnasafni „um tilraunir manneskjunnar til að svífa — og nagandi vitneskjuna um þyngdaraflið sem sigrar alltaf.“ Einstaklega flott lýsing sem einhvern veginn tekst í senn að kjarna innihald bókarinnar en um leið að mistakast það hrapallega. Málið er að Mæður geimfara er lævíst furðuverk, samansafn örsagna, ljóða, söguljóða, öresseyja, útúrsnúninga og fleira. En það er betra að láta ekki eftir skilgreiningarþörfinni og kalla þær einfaldlega sögur — en sögur Sigurbjargar í safninu eru svo fjölbreytilegar að leitin að rétta orðinu til að lýsa þeim leiðir mann auðveldlega út í gönur.

Verkinu er skipt upp í níu hluta með fimm til sjö sögum í hverjum hluta sem eru allt frá því að vera einungis tvær línur og upp í tvær til þrjár síður. Það er hins vegar ekki helst lengdin sem aðgreinir sögurnar í Mæður geimfara, Sigurbjörg stekkur lipurlega (stundum jafnvel groddalega) milli mismunandi efnistaka, nálgana og forma sem gerir safnið einstaklega fjölbreytt og lestur þess verður hálfgerð rússíbanareið. Eina stundina er lesandinn að syrgja dauða móður Buzz Aldrin, þá næstu er Mikki mús kominn í röntgenmyndatöku, skurðlæknar hafa stofnað púslklúbb fyrir mistök og heilu húsin eru sett í handfarangur — ásamt fílafræðingum, tungunuddi, risum og óléttum Barbie-dúkkum sem bregður fyrir. Ljóst er að Sigurbjörg hugsaði ekki til þeirrar þjáningar sem sagnasafn hennar ylli ráðalausum bókmenntagagnrýnendum sem myndu rembast við að smætta skrif hennar niður í heppileg hugtök til að einfalda umfjallanir þeirra — því það er nánast ómögulegt. Eða kannski er því alveg öfugt farið og óbeislaðri sköpunarþörfinni var einmitt beint að ferkantaðri bókmenntaunnendum. Við lestur verksins er augljóst að lesandinn þarf að gefa allar fyrirfram mótaðar hugmyndir upp á bátinn, ásamt tilhneigingunni til að reyna geta hvað kann að koma næst. Þess í stað er einfaldlega best að gefa sig á vald bókarinnar og leyfa sér að njóta þess að hendast um í huglægum loftköstum.

Ef reyna ætti á annað borð að koma böndum á sögur Sigurbjargar og draga fram einhvers konar líkindi og þemu, má segja að húmor sé aldrei langt undan í ljóðrænum textum verksins. Fáránleiki og furða sumra frásagnanna draga fram bros en oft er sjálft meginefni sagnanna hefðbundnara á yfirborðinu, en því svo fullkomlega snúið á hvolf með glettinni lokasetningu. „Bónleið, vosbúð“ er ein þeirra sagna þar sem þessir eiginleikar koma saman. Íbúar eiga í deilum við ráðherra um veg með 3671 holu og vegurinn endar á heimsminjaskrá. Svipaðan leik má einnig sjá í „Döprum sólum“:

Daprar sólir

Þegar Ásgeir og Erla elskast undir útvarpsmessunni síðla á sunnudagsmorgnum gæta þau ævinlega að því að hún nái markmiðum sínum fyrir predikun, hann eftir predikun.

 

Hvað þau aðhafast meðan á predikuninni stendur hefur aldrei spurst út en vinnufélagar hvors um sig votta að þau eru furðu vel viðræðuhæf um efni hennar á kaffistofunni daginn eftir. (125)

Ólíkt mörgum öðrum örsagna- eða smásögusöfnum einstakra höfunda er erfitt að alhæfa neitt um meginþemu í Mæðrum geimfara eða negla niður meint höfundareinkenni sem eru gegnumgangandi í öllum sögunum. Á meðan „Daprar sólir“ er létt og hnyttin saga með torræðum titli (mér leið oft eins og ég væri að missa af einhverju eintaklega djúpstæðu í titlunum) þá er einnig að finna fullkomnar andstæður innan safnsins. „Kýldi mæðgur á aðfangadag“ ber hryllilega skýran titil og er óþægileg en frumleg saga. Sigurbjörg dregur upp sérkennilega framandgerða mynd af ofbeldi, þar sem farið er í gegnum handahófskennda eiginleika gerandans með sterílum hætti:

Manneskjan sem kýldi mæðgur á aðfangadag kemur á óvart með því að eiga kött í hvítum sokkum, en hefur á hinn bóginn aldrei vitnað í eftirlætisskáldið sitt. Á kannski ekkert sérstakt. Og þó. (39)

Þrátt fyrir drungann og alvarleikann sem bregður af og til fyrir er samt sem áður eitt orð sem stendur upp úr þegar ég hugsa um Mæður geimfara í heild sinni: skrítin. Þetta kann að virka sem einfeldningsleg lýsing en er engu að síður mikið hrós. Margir aðrir ,skrítnir’ höfundar nota furður í sögum sínum, en oft kemst maður á lagið með hvernig þeir hleypa hinu kynlega að og skringlegheitin byrja þannig að taka á sig ákveðið munstur. Verk Sigurbjargar er hins vegar óbeislað, skrítið á tæran hátt og geislar af eintómri sköpunargleði sem hristir upp í lesandanum með rótsterkum skáldskaparkokteil. Ekki er hægt að lesa sagnasafnið með hálfum hug því óhjákvæmilegt er að einhver taugaboð riðlist til þegar stokkið er í næstu sögu. Skörp skil í áferð sagnanna valda því að þetta safn — þó handahófskennt kunni að virka í fyrstu — virkar svo vel. Hver saga hristir af sér böggul hinna sem á undan komu og fær að standa og falla á eigin fótum. Ég fann að ég staldraði mun lengur en venjulega við tveggja setninga sögu — skilgreiningasjúkir bókmenntagagnrýnendur kynnu að kalla hana „ljóð“ — sem brá skyndilega fyrir eftir röð lengri örsagna:

Allt sem glóir

Fallegur maður bjó í húsinu á móti.

 

Svo flutti hann. (121)

Fjölbreytileikinn olli því að ég reyndi að rýna í þessar tvær línur með sama ákafa og lengri sögur verksins. Í svona fjölbreyttu sagnasafni er þó erfitt að komast hjá því að gleðja en um leið svekkja suma lesendur. Ég fann persónulega að ég átti mér greinilega uppáhöld meðal sagnanna, stutt augnablik sem lýstu furðulegum en jafnframt jarðbundnum aðstæðum, líkt og „Þroskaleikir“, „Vonarneistar“ og „Snara og snúningur“. Þeirri ánægju gátu þó fylgt vonbrigði því næstu sögur í kjölfarið voru alltaf svo ótrúlega ólíkar þeim fyrri. Sögurnar í Mæður geimfara eru samt sem áður ótrúlega læsilegar og auðvelt er að grípa í bókina og endurlesa vel valda hluta. Bók Sigurbjargar er því sannarlega um tilraunir manneskjunnar til að svífa þar sem hún brýst sífellt úr viðjum hins viðtekna. Það er hins vegar engin vissa um fyrirfram ákveðna endastöð í Mæðrum geimfara, því er erfitt að ímynda sér að þyngdaraflið haldi sögum Sigurbjargar nokkrum böndum.
 

Már Másson Maack, nóvember 2020