Beint í efni

Ljósaskipti

Ljósaskipti
Höfundur
Stephanie Meyer
Útgefandi
Staður
Ár
Flokkur
Höfundur umfjöllunar
Úlfhildur Dagsdóttir

Skrýmslið hefur löngum verið ákaflega vinsælt viðfangsefni skáldskapar. Það er eitthvað ómótstæðilegt við það hvernig óvættin ræðst á öll viðtekin gildi og leggur samfélagið í rúst - um stund allavega. Þannig er skrýmsið fulltrúi óreiðunnar, upplausnar sem er bæði nauðsynleg og holl. Almennt séð þykir afstyrmið þó ekki sérlega fagurt og iðulega er djúpt á hinni eðlislægu hrifningu sem þó hlýtur að vakna þegar dýrið gengur laust. Því hefur vampýran tekið að sér það hlutverk að vera helsti fulltrúi þessa ógnar-afls skrýmslisins; vampýran er bæði falleg og fín, fáguð og (kyn)þokkafull, auk þess að búa yfir þeim ákaflega vinsæla og eftirsótta eiginleika að vera ódauðleg, jafnvel handhafi eilífrar æsku.

Ljósaskipti eftir Stephenie Meyer er nýjasti smellurinn á löngum lista af vinsælum vampýrum. Bókin kom upphaflega út árið 2005 og varð fljótlega afar vinsæl og hefur nú verið kvikmynduð. Ljósaskipti er sú fyrsta í seríu, en um þessar mundir er víst næsta ómögulegt að senda frá sér fantasíur öðruvísi en sem hluta af bókaflokki. Upphaflega var vampýran auðvitað persóna í hrollvekju, en á undanförnum árum hefur óvættin gengið í endurnýjun lífdaga í bókum sem kenndar eru við fantasíu frekar en hrylling, en slíkar höfða iðulega til yngri lesenda og kvenna (sem reyndar hafa alltaf verið dyggir vampýruaðdáendur). Í þessum sögum er sú rómantík sem löngum hefur sveimað yfir höfði vampýrunnar (en hún er einmitt skáldskaparlegt afkvæmi rómantíkurinnar snemma á nítjándu öld) gerð að aðalatriði og hrollurinn dempaður, þó vissulega sé hann enn til staðar.

Þannig er Ljósaskipti hluti af bylgju og sem slík kannski ekki endilega áhugaverðasti fulltrúi hennar. En sagan er ákaflega einföld og ákaflega dramatísk og mögulega hentar það best - allavega þegar kemur að því að velja verk til kvikmyndaaðlögunar. Meyer segist vera mikill aðdáandi breska höfundarins Jane Austen og það er bráðskemmtilegt að skoða hvernig vampýran, fulltrúi óleyfilegs kynþokka, fellur nákvæmlega inní nítjándu aldar rómantík. Því Ljósaskipti er unglingasaga, um sautján ára unglinga í Ameríku og því hlýtur kynlíf alltaf að vera nálægt - en jafnframt fjarri. Vampýran með alla sína bannhelgi er því fullkomið viðfang ástar í nútíma-rómönsu.

Aðalsöguhetjan er ung stúlka, Bella, sem flytur í kaldan og regnvotan smábæ til föður síns. Henni er lýst sem venjulegri stúlku sem þó sker sig úr fyrir klaufaskap. En það hlýtur að vera eitthvað meira sem heillar, því þegar hún byrjar í skólanum flykkjast strákarnir um hana - utan einn, ákaflega fríður piltur, sem forðast hana. Þó virðist hann ekki alveg laus við aðdáun og bjargar lífi hennar þegar hún verður næstum að klessu undir bíl. Eitthvað er sú björgun ævintýraleg og styrkur stráksa ekki eðlilegur - enda heldur Bella að hann sé ofurhetja úr myndasögubók. En í ljós kemur auðvitað að hann tilheyrir öðrum bókmenntum, vampýrusögum. Þau kolfalla hvort fyrir öðru og svo segir sagan frá sambandi þeirra og því hvernig Bella meðtekur sérstaka lifnaðarhætti kærastans - en svo heppilega vill til að hann er ‘góð’ vampýra, sem lifir á dýrum (meira að segja rándýrum), en ekki mönnum. En það eru ekki allar vampýrur svona góðar og Bella er skyndilega í hættu stödd.

Eins og áður sagði er sagan ákaflega einföld og í raun dálítið um of, því það vantar allmikið uppá uppbyggingu þeirrar hættu sem ógnar Bellu og brýst út með látum rétt undir lok bókarinnar. Þessi galli kemur þó ekki í veg fyrir að bókin sé skemmtileg aflestrar (fyrir utan nokkra dauflega kafla um miðbikið) og ágætis viðbót við vampýruflóruna. Reyndar má geta þess að það er heilmikil hefð fyrir því að vinsæl vampýruverk séu ekki sérlega mikil bókmenntaverk: Drakúla hins írska Abrahams Stokers þótti ekki - og þykir ekki enn - átakanlega mikil snilld (þó hún sé hátíð miðað við aðrar bækur kappans), né hafa bækur Anne Rice notið mikilla vinsælda bókmenntastofnunarinnar. Þó eru þetta bækur sem hafa öðlast gífurlega frægð og njóta linnulausra vinsælda.

Ég var ólýsanlega þakklát þegar ég sá að Magnea J. Matthíasardóttir fór þá leið að nota orðið vampíra í stað blóðsugu, en löngum hefur verið óþarflega vinsælt meðal íslenskra þýðenda að grípa til þess orðs og blanda þannig slímugum lindýrum óvænt inní sögur af fríðleiksfólki. Þýðing hennar er þó almennt dálítið köflótt, á stundum nær hún flottum köflum (sérstaklega þegar kemur að rómantíkinni og spennunni), en annars staðar höktir textinn og hefði alveg mátt við einni umferð með fægilegi. Þannig strandaði ég strax í fyrstu setningu: „Mamma ók mér út á flugvöll með galopna glugga” (11). En svo liðkaðist um og ég hvolfdi mér svikalaust í heillandi heim vampýrunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008